Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti, góðir áheyrendur. Sjávarútvegurinn er þýðingarmesta undirstaða lífsafkomu Íslendinga. Afkoma og skipulag þessarar mikilvægu atvinnugreinar er því eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar til langrar framtíðar. Með bættri nýtingu sjávarfangs, lækkuðum tilkostnaði og framleiðslu á verðmætari afurðum má auka þjóðartekjur verulega. Með því móti einu getum við tryggt að lífskjör hér á landi haldi áfram að batna og við verðum áfram í flokki þeirra þjóða er við mesta velmegun búa. Jafnframt verður að hafa það í huga að atvinnugreinin er helsta undirstaða atvinnulífs víðast hvar á landsbyggðinni og skyndilegar breytingar eru viðkvæmar fyrir það fólk sem starfar í greininni með einum eða öðrum hætti.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við haustið 1988 var það helsta viðfangsefni hennar að treysta undirstöður sjávarútvegsins svo hann mætti áfram þjóna sínu mikilvæga hlutverki. Brýnasta verkefnið sem við blasti var að bæta almenn rekstrarskilyrði greinarinnar. Með markvissum aðgerðum hefur þetta verkefni verið leyst þannig að nú er hagnaður af sjávarútveginum í heild þótt víða sé við sérstök vandamál að etja. Þótt öllum hafi mátt vera það ljóst að nauðsynlegt var að bæta almenn rekstrarskilyrði greinarinnar blasti jafnframt við að víða þurfti að grípa til sérstakra aðgerða. Fyrst í stað var unnið að skuldbreytingum, endurfjármögnun og hagræðingu í hinum ýmsu sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu. Þar hefur náðst mikill árangur.
    Margir halda því fram að slíkt hafi ekki átt að gera, eins og ég skildi hv. sjálfstæðismenn hér áðan, m.a. formann flokksins, hv. 1. þm. Suðurl., þegar þeir gerðu skuldbreytingasjóði og sjóðakerfi atvinnulífsins að umtalsefni. Það eru kaldar kveðjur sem það fólk fær sem hefur búið að þeim breytingum sem þar hafa verið gerðar. Og ég býst við að það sé megnið af landsbyggðinni. Á sama tíma er það eitt helsta áhugamál Sjálfstfl. að nota sameiginlega sjóði
Reykvíkinga til að yfirtaka sem mest af veitinga- og hótelrekstrinum hér í borginni. Það sýnir áhugamál Sjálfstfl. í þessu ljósi og ég vænti þess að kjósendur í sveitarstjórnarkosningum um allt land meti þennan hug Sjálfstfl. þannig að veita honum ekki brautargengi í þeim kosningum eins og þeir hafa svo mjög beðið um hér í kvöld.
    Enda þótt mikill árangur hafi náðst í að treysta hag sjávarútvegsins má ekki láta staðar numið. Miklu skiptir að forsendur séu skapaðar til að þjóðinni nýtist sem best arðurinn af fiskveiðiauðlindinni. Er nú unnið að því með margvíslegum hætti. Ég vil þó takmarka mál mitt við nokkur mikilvæg atriði.
    Þar verður fyrst að nefna endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem nú hefur verið til meðferðar í alllangan tíma á Alþingi og verður væntanlega afgreidd fyrir þinglok. Það frv. hefur fengið ítarlegri undirbúning en flest önnur mál sem komið hafa fyrir Alþingi, enda ekki óeðlilegt þar sem hér er um eitt

allra mikilvægasta mál að ræða sem þingið hefur tekið til umfjöllunar. Sú niðurstaða sem þar fæst mun skipta sköpum fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðfélagið í heild til langrar framtíðar. Að því samþykktu mun hvert einasta fiskiskip í landinu fá sína föstu aflahlutdeild í öllum þýðingarmestu fisktegundunum. Hver einstakur aðili hefur þá allt að vinna til að ná þeim afla með sem minnstum tilkostnaði og gera sem mest verðmæti úr honum.
    Þótt mikill árangur hafi náðst í fiskveiðistjórnun á undanförnum árum er enginn vafi á því að ef frv. nær fram að ganga mun hagkvæmni í sjávarútvegi aukast enn til mikilla muna. Hefur í máli þessu verið haft víðtækt samráð við alla helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og alla þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Því er haldið fram í umræðum á Alþingi að samstaðan hafi verið rofin með þeim aðilum sem að undirbúningi málsins hafa unnið og breytingar ekki bornar undir þá. Hér er um mikla rangfærslu að ræða.
    Ég hef um langt skeið vakið athygli á nauðsyn þess að fækka fiskiskipum og þeim vandamálum sem flutningur fiskiskipa milli byggðarlaga getur skapað, að á þeim verði tekið. Hef ég bæði gert það hér á Alþingi og í viðræðum við hagsmunaaðila. Jafnframt hef ég viðrað ýmsar hugmyndir um hvernig við þessum vanda skuli brugðist og tilhneigingu til óþarfa fjárfestinga. Sumum þeim hugmyndum sem ég hef sett fram hafa hagsmunaaðilar tekið vel og fallist á þær en í öðrum tilvikum hafa skoðanir verið skiptar eins og gengur og gerist. Þannig lagði ég fram tillögur um að endurvekja Úreldingarsjóð í samræmi við þann vilja sem fram kom af hálfu Alþingis og hagsmunaaðila við endurskoðun sjóðakerfisins á sínum tíma. Þessar hugmyndir voru settar fram í ársbyrjun árið 1989 og hlutu misjafnar undirtektir. Frv. var síðan lagt fyrir Alþingi á þeim vetri og á nýjan leik haustið 1989.
    Ég hef ávallt lagt á það höfuðáherslu að spornað sé gegn fjárfestingu í nýjum fiskiskipum og reynt verði að hraða úreldingu fiskiskipa eftir því sem nokkur kostur er. Ég hef alltaf haldið því fram að öflugur úreldingarsjóður sé mikilvægur til að ná því markmiði. Ég hef jafnframt haldið því fram í gegnum árin að ef bregðast eigi við sérstökum vanda í einstökum byggðarlögum vegna sölu fiskiskipa megi alls ekki gera það með því að rígbinda fiskiskip við
byggðarlög og stöðva þar með alla þróun í sjávarútvegi eða með fjölgun skipa eins og margir hv. alþm. hafa stundum lagt til. Ég hef séð það helsta ráð að takast megi á við slík vandamál á vettvangi Úreldingarsjóðs. Þetta hef ég margítrekað í ræðum, á fundum hagsmunaaðila, í málflutningi hér á Alþingi og í fjölmiðlum. Þær tillögur sem nú hafa verið lagðar fram um að Úreldingarsjóði verði falið þetta verkefni á þessu sviði þurfa því engum að koma á óvart. Úreldingarsjóður fiskiskipa sem nú hefur fengið nafnið Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins mun fá það tvíþætta hlutverk að vinna að aukinni arðsemi með fækkun fiskiskipa og taka á sérstökum byggðavandamálum sem upp kunna að koma með sölu fiskiskipa milli byggðarlaga. Hann mun fá til

ráðstöfunar u.þ.b. 1,7% af heildarveiðiheimildum í upphafi og getur aukið þær með skipakaupum. Sjóðurinn getur þó aldrei haft yfirráð yfir meiru en 5% af heildarveiðiheimildum. Ef farið er yfir þau mörk mun flotinn allur fá til sín þær veiðiheimildir sem Hagræðingarsjóður hefur eignast og með því móti mun hann vinna fyrir heildina. Það er jafnframt mín skoðun að þegar því marki hefur verið náð að afkastageta flotans sé í samræmi við afrakstursgetu fiskstofnanna sé eðlilegt að draga úr hlutverki Hagræðingarsjóðs og leggja hann niður, en samkvæmt frv. ber að endurskoða lögin að tveimur árum liðnum.
    Sumir hafa kallað þessa starfsemi ,,auðlindaskatt``. Að kalla slíka starfsemi auðlindaskatt er svo fráleitt að það tekur vart að tala um það því auðlindaskattur gengur út á það að skattleggja greinina og taka til annarra þarfa samfélagsins. Sjávarútvegurinn er ekki í stakk búinn til að þola slíka skattlagningu en menn mega ekki vera svo skammsýnir að leggja ekki í innbyrðis hagræðingu til þess að þjóðin geti betur notið afraksturs þessarar mikilvægustu auðlindar okkar.
    Um byggðahlutverk sjóðsins er það að segja að honum er ætlað að koma til tímabundinnar aðstoðar þegar verulegir erfiðleikar steðja að vegna sölu fiskiskipa úr byggðarlögum. Í slíkum tilvikum er hugsunin sú að nýta umframafkastagetu flotans í stað þess að leggja í kaup nýrra fiskiskipa. Menn geta haft þá skoðun að þegar veruleg fækkun starfa blasir við og byggðaröskun yfirvofandi skuli ekkert að gert og það fólk sem á um sárt að binda geti bara tekið til fótanna skipulagslaust. Þá er rétt að segja það hreint út og væri Sjálfstfl. nær að gera það með beinum hætti í stað þess að halda því fram að með þessum tillögum hafi samstaðan við hagsmunaaðila verið rofin. Það má vel vera að þeim henti vel að breiða yfir eigin skoðanaágreining með slíkum hætti en það er ekki stórmannlegt.
    Góðir áheyrendur. Það er ekki auðvelt mál fyrir Alþingi Íslendinga að marka fiskveiðistefnu sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi en tekur jafnframt tillit til ólíkra hagsmuna og byggðarlaga. Enginn getur reiknað með því að þar sé allt svo öllum líki. Þrátt fyrir allt hefur tekist breiðari samstaða um málið en hægt var að búast við. Sjálfstfl. ásakar mig fyrir að hafa brugðist í málinu án þess að þeir tíundi hvað gera skuli. Það er auðveldur leikur sem ég undrast að svo stór stjórnmálaflokkur með víðtæk tengsl í sjávarútvegi skuli leyfa sér. Samstaða þeirra sem að ríkisstjórninni standa sannar að þrátt fyrir ólík sjónarmið hefur tekist að finna farsæla lausn á mikilvægasta hagsmunamáli þjóðarinnar með þeim árangri að bjartara er nú fram undan og sumar í lofti.
    Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.