Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Það var töluverður völlur á hæstv. ríkisstjórn í byrjun þess þings sem nú er að ljúka. Eftir samningaþóf sem var sumarlangt aðhlátursefni landsmanna hafði hún aukið við sig tveimur ráðherrum úr tvístruðum Borgfl., öðrum reyndar án ráðuneytis. Hann átti að vísu í vændum embætti hins fyrsta umhvrh. en á meðan hann biði þess skyldi hlutverk hans vera að móta framtíðarstefnuna í atvinnumálum landsmanna.
    Þetta voru háleitustu markmið nýaukinnar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar í upphafi þessa þings. Það sem við blasir nú í þinglok er umhvrn. sem er lítið meira en nafnið og metnaðarlaus og úrelt atvinnustefna sem þar á ofan gengur í berhögg við umhverfisvernd. Úrræðið er nefnilega aðeins eitt þrátt fyrir öll fögru og stóru orðin. Álver er það eina sem þessum hugmyndasnauðu vesalings mönnum dettur í hug. Þensla í efnahags- og atvinnulífi er bannorð sem ríkisstjórnin hamast gegn með orðum og athöfnum og telur jafnvel æskilegt að halda við hóflegu atvinnuleysi til hindrunar þeim voða. Vissulega er nauðsynlegt að sporna við óhóflegri þenslu en engan veginn er sama hvaða aðferðum er beitt í því skyni. En svo þegar við blasir tugmilljónaframkvæmd við virkjanabyggingar og álver er annað hljóð í strokknum. Þá telja ráðamenn einboðið að varpa þessari þenslusprengju inn í atvinnulífið. Þá er bannorðunum ,,þenslu`` og ,,verðbólgu`` sópað til hliðar og ekkert hirt um skuldaaukningu erlenda og innlenda, en sagt að til mótvægis hugsanlegri þenslu verði dregið úr öðrum opinberum framkvæmdum, þá trúlega höfnum, vegagerð, jarðgöngum og flugvöllum, svo ekki sé nefnd félagsleg uppbygging, og í leiðinni líklega annarri atvinnuuppbyggingu.
    Þegar svo framkvæmdum er lokið verður trúlega um fáa kosti að ræða fyrir þá sem að byggingunni unnu, hvað þá þann hóp sem bættist vinnumarkaðinum á tímanum sem framkvæmdir stóðu yfir. Þá stöndum við með 600 manns í álveri og
höfum dregist aftur úr á öðrum sviðum. Ekki leysir álver bráðan atvinnuvanda kvenna sem lítill gaumur er gefinn þrátt fyrir fyrirheit í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Engar úrbætur eru í sjónmáli, aðeins kannanir og skýrslugerðir sem almenningur hefur varla fengið að sjá. Ríkisstjórnin kýs að loka augunum fyrir atvinnuvanda kvenna sem eru engu síður en karlar í hlutverki fyrirvinnunnar. Í þessum efnum eru ríkisstjórninni að verða á alvarleg mistök sem vafi er á að henni endist líf til að bæta. Álversáformin eru bein storkun við atvinnuþörf kvenna.
    Umhverfismálin, mengun lofts, láðs og lagar, uppfok og gróðurrýrnun hefur verið mikið til umræðu í vetur og raunar fyrr. Þau mál hafa einnig verið ofarlega á baugi í öðrum Evrópulöndum um árabil þar sem mengun frá mannfólki, bílum og verksmiðjum er að stofna vötnum, gróðurlendi og mannlífi í voða. Í þeim löndum eru nú uppi háværar raddir þeirra sem láta sig varða manninn og umhverfi hans, að

hugarfarsbreyting verði að koma til hjá þeim sem málum ráða. Þeir sem þannig tala telja að ráðamenn hafi glatað tengslum við náttúruheiminn, hina lifandi jörð, sem er hin eina uppspretta alls sem við njótum af efnislegum gæðum. Þeir segja að í stað þess að misþyrma jörðinni og skaða hana verðum við að taka hana inn í umræðuna, inn í daglegt líf okkar allra sem aðila sem beri að taka tillit til, ávarpa hana með virðingu og umgangast hana af skilningi og nærgætni.
    En hvað gerum við Íslendingar? Hvaða virðingu sýnum við móður jörð? Sú stofnun sem sett var á fót til að vernda gróður og land, verja land okkar eftir föngum þeirri mengun sem hrjáir heimsbyggðina, hún er svívirt með því að gera hana að pólitísku bitbeini, svívirt með því að láta hana sem skiptimynt í kaupum á valdaaðstöðu stjórnmálamanna. Með slíkum tiltækjum sýna stjórnvöld móður jörð fullkomna óvirðingu.
    Havel, forseti Tékkóslóvakíu, hefur skilgreint stjórnmálamann nútímans sem hann telur hafa fjarlægst náttúruheiminn sem hann nefnir svo, eða móður jörð. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bak við vandaða grímu og snyrtilega framsögð orð örlar ekki á mannlegum eigindum svo sem væntumþykju, ástríðum, áhugamálum, hatri eða kjarki sem væru rótföst í jarðvegi náttúruheimsins. Kerfið, hugmyndafræðin og valdatækin hafa svipt mennina, jafnt yfirmenn sem undirsáta, samvisku sinni, náttúrulegri skilningsgáfu og eðlilegu orðfæri. Þar með er mannseðli þeirra glatað. Nútíma ríki verða æ líkari vélasamstæðu. Fólkið sjálft breytist í tölfræðilega hópa, svo sem kjósendur, framleiðendur, neytendur o.s.frv. Gott og illt, grunnhugtök náttúruheimsins, missa raunhæfa merkingu sína í heimi stjórnmálanna. Í stjórnmálum helgar tilgangurinn meðalið og eini mælikvarði þeirra er árangurinn eins og hann sannast í rauninni.``
    Ég tel að orð Havels hafi að nokkru sannast í meðferðinni á umhvrn. í vetur. Málefnið er mörgum stjórnmálamönnum ekki aðalatriði heldur valdaaðstaðan sem yfirráð þess skapa.
    Og nú er það álver sem koma skal. Hvers vegna skyldu útlendingar vilja reisa álver hér? Er það ekki í von um ódýra orku sem við höfum ekki efni á að selja
ódýrt? Hafa þeir ekki á bak við eyrað að svo áfjáðir sem ráðamenn eru í þetta fyrirtæki þá kynnu þeir að slaka á kröfum um mengunarvarnir? Þeir vita að langt er frá að þær varnir séu fullnægjandi í Straumsvík og það er að mestu látið óátalið.
    Kemur það til með að auðvelda sölu til útlanda á eyfirsku skyri, sem uppi eru hugmyndir um, að kýrnar bíti gras í álverseim? Verður það ferðaþjónustunni lyftistöng að menn sjái verksmiðjureyk liðast um landslagið? Er það ekki tært loft, hreint vatn og ómenguð jörð sem erlent og innlent ferðafólk vill finna hér og njóta? Geta menn leyft sér slíka skammsýni, slíka storkun við náttúru lands okkar, móður jörð.
    Meðan stóriðjuhugmyndir fylla heilabú ráðamanna

láta þeir sig hafa það að skera niður framlög til rannsókna. Það fé hefur farið síminnkandi undanfarin ár og í síðustu niðurskurðarlotu var enn klipið af því. Í rannsóknum hlýtur þó vaxtarbroddur atvinnulífsins að eiga sér rætur.
    Í sex ár hafa farið fram rannsóknir í líftæknivinnslu, vinnslu dýrmætra ensíma úr fiskslógi. Þessar rannsóknir hafa búið við nauman kost og enn er hann rýrður meðan horft er í stóriðjuáttina. Nú er að koma að þeim punkti að hafist gæti vinnsla á ensímum í stærri stíl ef fé væri fyrir hendi. Slík verksmiðja eða verksmiðjur gætu malað þjóðarbúinu gull, unnið dýrmæt efni úr hráefni sem annars fer í ódýra vöru eða er jafnvel fleygt. Með þessu kæmi til aukin fullvinnsla á því sem hafið gefur okkur og við eigum ekki að vanvirða með því að nýta ekki. En skammsýni manna er slík að fé er ekki á lausu til þessa. Þetta er aðeins eitt dæmi um hverju rannsóknir geta skilað atvinnulífinu og einnig dæmi um mistök hæstv. ríkisstjórnar er hún dregur úr framlagi til rannsókna. Á hinn bóginn hefur heyrst að til standi að flytja slóg til Noregs og hjálpa þannig Norðmönnum að efla og auka ensímframleiðslu þeirra. Slík er hugmyndafátæktin að uppbygging atvinnulífs við fullvinnslu sjávarafurða er ekki einu sinni nefnd á nafn, né heldur eiga stjórnvöld þá framtíðarsýn að við verðum stóriðjuþjóð í matvælaframleiðslu á hreinum og ómenguðum náttúruafurðum.
    Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem mikill meiri hluti þjóðarinnar treystir ekki, ríkisstjórn sem tryggir setu sína með siðlausum pólítískum hrossakaupum, ríkisstjórn sem þyrfti að taka til í hugmyndaheimi sínum og koma ruslinu frá honum fyrir þar sem það veldur ekki mengun.