Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Í kvöld erum við enn einu sinni stödd í þjóðareldhúsinu þar sem þið kjósendur getið fylgst með umræðum héðan úr Alþingi. Nú mun klukkan senn slá tólf á miðnætti og þá gerist það eins og í ævintýrinu um Öskubusku að ríkisstjórnin breytist í tötrum klædda konu. Skrautfötin sem hún hefur málað utan á sig undanfarna klukkutíma falla af henni og hún stendur eftir tötrum klædd. Það er það sem stendur eftir þegar þessari umræðu lýkur.
    Við Íslendingar stöndum nú á tímamótum. Miklar sviptingar eiga sér stað í stjórnmálum um allan heim. Frjálslyndar hægribylgjur hafa skolað afturhaldinu í burt í Austur-Evrópu. Fólkið sem hefur búið við alræði öreiganna í löndum kommúnista hefur alfarið hafnað félagshyggjuöflunum í fyrstu frjálsu kosningunum sem það fær að taka þátt í. Fólkið í þessum löndum er ekki í nokkrum vafa, það vill frjálslynda hægristjórn til að tryggja sjálfstæði sitt og velferð. Það hafnar alræði félagshyggjunnar og hefur valið frelsi til æðis og athafna.
    Hér á Íslandi ráða enn þessi gamaldags afturhaldsöfl félagshyggjunnar. Framsókn, ásamt Alþb. og Alþfl., sem er að reyna að hlaupa brott frá fortíðinni og ætlar að skipta um nafn og númer í einu vetfangi og kalla sig nýjan vettvang. Þeir hefðu alveg eins getað kallað sig nýtt handfang.
    Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna lafa saman af hræðslu við hina sterku frjálslyndu vinda sem hafa feykt afturhaldinu í burtu í Austur-Evrópu og blása nú um byggðir Íslands. Þeir munu feykja ríkisstjórnarflokkunum út í hafsauga í næstu alþingiskosningum.
    Nú eftir nokkrar vikur ganga kjósendur til atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum þar sem hægrimenn munu vinna umtalsverðan sigur um allt land. Ráðamenn núv. ríkisstjórnar hafa eytt 10--20 milljörðum kr. til að kaupa sér
stundarfrið í efnahagsmálum. Þessa fjármuni hafa þeir tekið af ykkur, kjósendur, með hæstu sköttum í sögu þjóðarinnar sem eru nú 19%, hærri en 1985 þegar Albert Guðmundsson var fjmrh. Þetta hafa þeir gert með hærri tekjuskatti, með hærri eignarsköttum af íbúðarhúsnæði, sem eru með þeim hæstu í heimi, með hærri bílasköttum og hærri matarskatti. Þar að auki hefur hæstv. ríkisstjórn tekið erlend lán eða ætlar að láta nokkra milljarða víxla falla á næstu ríkisstjórn og kjósendur. Það hefur aldrei áður í sögu lýðveldisins verið vegið með eins skipulegum hætti að sjálfseignarstefnunni í íbúðarhúsnæði og gert hefur verið í tíð núv. ríkisstjórnar. Stórfelldir fjármunir hafa verið teknir af húseigendum og húsbyggjendum með auknum sköttum, með breyttum skattareglum og útlánareglum sem geta þýtt hundruð þúsunda kr. tekjutap samanborið við eldri lög. Margir eiga nú í verulegum fjárhagslegum vandræðum vegna þessara breytinga eða munu reka sig illilega á þegar álagning skatta berst þeim í sumar.

    Ég hef andstyggð á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Með henni er fólki hegnt fyrir ráðdeild og sparsemi. Kjörorð þessarar ríkisstjórnar er: Lækkum kaupið og tökum sem mest af fólkinu svo við getum sjálfir ráðskast með peningana og slett í það og sagt: Þetta gef ég þér eða hérna er svolítið handa þér, beygðu þig fyrir valdinu og kjóstu okkur. Austur-Evrópubúar köstuðu þessu kerfi í burtu í fyrstu frjálsu kosningunum. Íslendingar munu kasta þessum kerfisköllum í burtu strax og þeir þora í kosningar. En því miður er ekkert að marka þetta væl í umhvrh. um að hann ætli sér að hætta í núv. ríkisstjórn. Enda ekki grunlaust um að aðrir flokksfélagar hans bíði með nýstrokin ráðherrafötin ef svo ólíklega vildi til að ráðherrann hætti að snúast umhverfis sjálfan sig.
    Þessi ríkisstjórn komst til valda á ólöglegan hátt með því að núv. forsrh. sveik minnihlutastjórn sína inn á forseta Íslands og keypti síðan jeppa handa afgangnum af Borgfl. til að tryggja meiri hluta á Alþingi Íslendinga. Þetta kallar maður að fara umhverfis lög og rétt.
    Góðir tilheyrendur. Framtíð unga fólksins, framtíð þjóðarinnar, byggist á því að sem fyrst verði kosin frjálslynd hægristjórn. Aðeins slík stjórn mun valda þeim framtíðarverkefnum sem blasa við. Lækka verður skatta og útgjöld ríkisins, nýta verður þá náttúruorku sem bíður óbeisluð í fallvötnum og iðrum jarðar. Efnahagsframfarir næstu ára munu fyrst og fremst byggjast á nýtingu þessara auðlinda. Það er heimska að bíða og bíða. Sundurlyndi þessarar ríkisstjórnar hefur seinkað nýtingu þessara auðæfa og því dregið úr þjóðartekjum okkar.
    Unga fólkið í landinu bíður nú átekta og væntir svara við áleitnum spurningum. Hvað ætli þær snúist um? Þær snúast ekki um hattinn hans Jóns eða Jeppa á Fjalli. Nei, þær snúast um framtíðina og lífskjörin hér á Íslandi, þær snúast um skattana, þær snúast um ný störf fyrir fjölmenntað ungt fólk. Þær snúast um Evrópubandalagið, atvinnutækifæri og menntunarmöguleika framtíðarinnar. Og hvað á þetta unga fólk í vændum? Ég hef hitt fjölda ungs
fólks sem hefur áhyggjur af framtíðinni. Sumt hefur leitað sér atvinnu erlendis síðustu missiri þar sem fjárhagsleg afkoma þess er betri og fjölbreyttara starfsval er fyrir hendi. Sú tíð er liðin þar sem störf við fiskveiðar og vinnslu sjávarfangs geta borið uppi fjölgun þjóðarinnar. Jafnframt er sú fjölgun í opinberum störfum sem átt hefur sér stað síðustu árin komin í óefni. Sú fjölgun er í rauninni ekkert annað en dulbúið atvinnuleysi. Framleiðsluútflutningsatvinnuvegirnir bera ekki meiri skatta og lífskjörin munu fara hratt lækkandi ef svo fer sem horfir. Það er því lífsnauðsyn að ná samningum við Evrópubandalagið um sameiginlegan vinnumarkað, aðgang að framhaldsskólum þeirra og tollfrjálsan útflutning til Evrópubandalagsins á fiski. Náist þessi markmið ekki getur farið illa.
    Þau afturhaldsöfl sem ráða ferðinni í núv. ríkisstjórn eiga ekki samleið með ungu fólki, nútímanum og þeim frjálslyndu hægrivindum sem nú

blása í Evrópu. Ungt fólk vill ekki láta hneppa sig í átthagafjötra, framsóknarfangelsi allra tíma. Það vill eiga möguleika á að ráða sjálft lífi sínu og starfssviði. Æska landsins vill ekki eiga ógreidda sukkvíxla þessarar ríkisstjórnar yfir höfði sér í framtíðinni. En hún verður að greiða fyrir sjóðaósóma núv. ríkisstjórnar með lægra kaupi og verri lífskjörum í náinni framtíð. Það er ekki nóg að ausa fé á báðar hendur úr Byggðasjóði, úr Hlutafjársjóði, úr blablasjóði forsrh. eða hvað þeir heita allir sjóðirnir. Það verður að borga fyrir sjóðasukkið og það verður unga fólkið sem verður látið gera það ef það verður einfaldlega ekki bara flutt af landi brott. Því með sama áframhaldi verður atgervisflótti af landinu. Fólk er ekki lengur í fjötrum, það á sig sjálft og það fer þær leiðir sem því þykja farsælastar fyrir sig og sína. Þess vegna verður að nást fjölþætt samvinna til að stemma stigu við nýfélagshyggju þessarar ríkisstjórnar.
    Mér hefur orðið tíðrætt um unga fólkið og framtíðina vegna þess að mér er ljóst að séu ekki næg verkefni við hæfi þessa fjölmenntaða fólks mun það leita til annarra landa til að fá atvinnu. Það má jafnframt spyrja sig sem svo: Til hvers er verið að halda uppi dýru menntakerfi ef ekki er hugsað fyrir framhaldinu? Hvaða atvinnutilboð bjóðast þessu fólki? Við getum auðvitað fjölgað störfum hjá hinu opinbera sem þýðir hærri skatta og lægri laun, eða er það e.t.v. vísvitandi stefna núv. ríkisstjórnar? Miðað við áherslur í skatta- og húsnæðismálum fullyrði ég að svo sé. Nýfélagshyggjan er leiðarljós þessarar ríkisstjórnar.
    Í Austur-Evrópu hugsuðu kratar, kommar og ýmiss konar framsóknarflokkar sér gott til glóðarinnar og héldu að auðsveipur almúginn kæmi hlaupandi í faðm þeirra í kjölfar gylliboða um félagslega velferð og allt þetta sem vinstrimenn á Íslandi halda að hægt sé að blekkja fólk með. Kjósendur í Austur-Evrópu létu ekki blekkja sig og kusu frjálslynd hægriöfl sem þeir álíta einu trygginguna fyrir efnahags- og félagslegum framförum.
    Ég og þú, áheyrandi góður, munum gera slíkt hið sama næst þegar við komum að kjörborðinu.
    Góðir tilheyrendur. Þjóðleg menning hverrar þjóðar er grundvöllur ríkulegs og fjölskrúðugs mannlífs. Hjá okkur Íslendingum er einn hluti þessarar þjóðmenningar íþróttirnar sem hafa frá fornu fari verið í hávegum hafðar og ávallt risið hæst í glæsileik sínum þegar reisn þjóðarinnar hefur verið mest. Margir erlendir menn hafa undrast hversu marga afreksmenn svo lítil þjóð á og hafa spurt hversu það megi vera. Nú fyrir nokkru síðan sendi Alþjóðaólympíunefndin tvo fulltrúa sína hingað til landsins sérstaklega til að kynna sér störf íþróttahreyfingarinnar vegna góðs árangurs í fjölmörgum íþróttagreinum. Góð frammistaða Íslendinga í íþróttum hefur margoft vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og nú er ég ekki aðeins að tala um 1.--3. sætið eins og oft vill brenna við að sé það eina sem vekur áhuga manna, heldur almennt um frammistöðu íþróttafólks okkar. Það sem erlendum mönnum þykir og undravert er hve lítið þessir

afreksmenn eru studdir fjárhagslega eða öllu heldur hvernig þeir vinna fyrir daglegu brauði án þess að vera atvinnumenn í íþróttum og ná jafnframt svo góðum árangri sem raun ber vitni.
    Hér á Alþingi Íslendinga liggur óafgreitt lagafrv. okkar Inga Björns Albertssonar um stuðning við afreksmenn í íþróttum. Það er löngu tímabært að huga að málefnum afreksmanna í íþróttum sem ekki fá nein laun fyrir störf sín önnur en ánægjuna eina. Sé aðstaða þeirra t.d. borin saman við leikhússtarfsemi er áhugavert að líta til þess að sé aðeins einn hluti þeirrar starfsemi skoðaður, þ.e. rekstur Þjóðleikhússins, mætti hafa 182 afreksmenn á háskólakennarakjörum allt árið fyrir þær fjárhæðir sem rekstur þess kostar samkvæmt útreikningum menntmrn. Mörg bæjar- og sveitarfélög hafa staðið vel við bakið á íþróttahreyfingunni en ríkisvaldið hefur sáralítið lagt fram til stuðnings henni svo sem sjá má af fjárframlögum þessa árs. Af rekstri allrar íþróttahreyfingarinnar er áætlað að stuðningur ríkisins geti numið 0,5%--1% af heildarútgjöldum hennar. Hins vegar hafa einkafyrirtæki og stjórnendur þeirra sýnt æ meiri áhuga á starfi hreyfingarinnar og stutt myndarlega við bakið á íþróttafólki um allt land. Það er ljóst að íþróttir og útivera muni í auknum
mæli verða sú afþreying og hollusta sem fólk vill og þarf á að halda. Afreksíþróttir vísa veginn og orka jákvætt á þátttöku almennings. Án forustu íþróttahreyfingarinnar ætti almenningur ekki kost á iðkun sunds, skíða, knattspyrnu og fjölmargra inniíþrótta eins og á sér stað í dag. Æfingin skapar meistarann. En það verður að styðja þessa meistara okkar
svo að við getum haldið úti glæsilegum sendiherrum, fulltrúum unga fólksins í sem flestum íþróttagreinum. Sú landkynning er gulli betri.
    Góðir áheyrendur. Guð gefi ykkur gleðilegt sumar. Þingmenn Frjálslynda hægriflokksins bjóða ykkur góða nótt. Hafið þökk fyrir áheyrnina.