Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þessi umræða hérna í kvöld er sú þriðja sem útvarpað og sjónvarpað er frá á þessu þingi. Í fyrri skiptin tvö, þegar stefnuræða forsrh. var flutt og þegar vantraust stjórnarandstöðunnar kom til afgreiðslu, fluttum við fulltrúar ríkisstjórnarinnar þann boðskap að sú stefna sem tekin var upp á haustmánuðum 1988 væri senn að skila þeim árangri að í upphafi árs 1990 gæti íslenska þjóðin staðið í nýjum sporum. Hún gæti staðið í þeim sporum að í stað þess gjaldþrots atvinnulífsins og yfirvofandi fjöldaatvinnuleysis, óðavaxta og óðaverðbólgu væri að hefjast nýtt stöðugleikatímabil, nýtt jafnvægistímabil í sögu íslensku þjóðarinnar. Í kvöld getum við sagt með sanni að þessi spá okkar hafi ræst. Við stöndum hér í maíbyrjun með þær staðreyndir fyrir augunum að í fyrsta skipti í röska tvo áratugi eru Íslendingar nú að ganga inn í samfélag vestrænna þjóða hvað snertir siðmenntað jafnvægiskerfi í efnahagsmálum. Verðbólgan á Íslandi 1990 verður í fyrsta skipti í röska tvo áratugi svipuð og hún er í þeim heimshluta sem við berum okkur helst saman við.
    En árangurinn birtist á öðrum sviðum. Hann birtist t.d. í því að við erum nú að ná hagstæðari jöfnuði gagnvart útlöndum en nokkru sinni á sl. 10 árum, bæði vöruskiptajöfnuðurinn og viðskiptajöfnuðurinn eru nú að verða hagstæðari en þeir hafa verið í um 10 ár. Vextirnir eru á hraðri niðurleið og á einu ári tókst að snúa 80% erlendri lántöku ríkissjóðs á árinu 1988 í 80% innlenda fjármögnun hjá okkur sjálfum með sölupappíra ríkisins sem almenningur í landinu og stofnanir hans keyptu. Samkeppnisstaða íslenskra útflutningsgreina, sjávarútvegs og iðnaðar, er nú betri samkvæmt gögnum viðurkenndra stofnana en hún hefur verið í 10 ár.
    Ég gæti þannig haldið lengi áfram að telja. Þessar staðreyndir tala allar sínu máli. Við getum tekið hvaða land sem er í Evrópu þar sem hin svokallaða
hægristefna hefur ráðið ríkjum jafnvel í áratug og borið það saman við þann árangur sem við höfum náð á 1 1 / 2 ári. Þar er kannski skýrast að taka Thatcher-stjórnina í Bretlandi, goð hægrimannanna hvort sem þeir eru í gamla Sjálfstfl. eða í hinum svokallaða frjálslynda flokki. Hverjar eru staðreyndirnar ef við berum hið nýja tímabil í íslenskum efnahagsmálum saman við Bretland, afleiðinguna af stjórn Thatchers? Jú, staðreyndin er sú að á þessu ári verður verðbólgan á Íslandi minni en í Bretlandi. Á þessu ári verður viðskiptahallinn á Íslandi minni en í Bretlandi. Á þessu ári verður auðvitað atvinnuleysið margfalt meira á Bretlandseyjum en hér hjá okkur og það sem meira er, á þessu ári verða vextirnir í Bretlandi mun hærri en hjá okkur. Og þótt sumum kunni að finnast það ótrúlegt, eftir allan sönginn hér í kvöld um skattana, þá er skattbyrðin í íhaldsríki Thatchers hærri en hér á Íslandi.
    Þessari ríkisstjórn, síðan Alþb. gekk inn í hana á

septemberdögum 1988 með skemmri fyrirvara en nokkur flokkur hefur fyrr í sögu íslenska lýðveldisins gengið inn í ríkisstjórn, hefur á 1 1 / 2 ári tekist að ná ótrúlegri árangri við stjórn íslenskra efnahagsmála en nokkurn kynni að gruna. Vissulega hefur það verið gert með góðri þátttöku fólksins í landinu. Fólkið í landinu hefur boðið útrétta hönd og verið tilbúið til að taka höndum saman við okkur um að rétta við þær miklu skekkjur sem langvarandi stjórn Sjálfstfl. skildi eftir sig. En þrátt fyrir þessar fórnir fólksins í landinu er það ánægjuleg staðreynd að hlutur launa í þjóðartekjum okkar Íslendinga verður á þessu ári meiri en á góðærisárinu 1986. Það er merkileg staðreynd sem talar sínu máli um það hverra hagsmuna við höfum gætt í þessari ríkisstjórn. En ástæður erfiðleikanna voru fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar verðfall á útflutningsafurðum okkar og erfið ytri skilyrði en hins vegar efnahagsstefnan sem Þorsteinn Pálsson skildi eftir sig.
    Við höfum hér í þingsölum á síðustu tveimur árum deilt um orsakir erfiðleikanna sem rekja má til mistakanna á árunum 1985--1987 en í þeirri skýrslu OECD sem kom út í gær er kveðinn upp afdráttarlaus dómur færustu sérfræðinga á Vesturlöndum í þessari deilu. Í lokakafla þessarar skýrslu kemur það skýrt og afdráttarlaust fram í orðum skýrslunnar sjálfrar að það voru mistökin í efnahagsstefnunni í ríkisfjármálunum og í peningamálunum á árunum 1985--1987, einmitt árin þegar Þorsteinn Pálsson var fjmrh., sem eru meginforsenda þess að við höfum á undanförnum árum þurft að glíma við þennan mikla vanda, enda er Sjálfstfl., og líka litli Sjálfstfl., að mestu hættur að tala um efnahagsmálin sjálf. Þeir tala aðallega um skattana, þessa voðalegu skatta, þessa ægilegu skattbyrði, og það mætti helst halda af þeim ræðum sem þeir hafa flutt hér í kvöld og næstu vikur og mánuði á undan og nánast í 1 1 / 2 ár að á Íslandi væri mesta skattbyrði bæði norðan og sunnan Alpafjalla og þótt víðar væri leitað.
    En hverjar eru staðreyndirnar í þessu máli? Þær staðreyndir koma mjög vel fram á þessu súluriti hér þar sem skýrt kemur fram að meðaltal skattbyrðarinnar í Evrópubandalagslöndunum, sem mjög hafa verið talin til fyrirmyndar og eru grænu súlurnar hér, er miklu hærra en hér á Íslandi sem er
bláa línan hér fyrir neðan. Og fjölmörg lönd hér fyrir ofan eins og Þýskaland, eins og Frakkland, eins og Ítalía, eins og jafnvel Bretland, eru með meiri heildarskattbyrði heldur en er hér á Íslandi. Og sú viðbót, sem mjög hefur verið talað um að við höfum bætt við, er pínulítill depill hér fremst í íslensku súlunni sem táknar breytinguna á síðustu tveimur árum. Staðreyndirnar eru nefnilega þær að Ísland er, merkilegt nokk, með einhverja lægstu skattbyrði af þjóðartekjum sem um getur á Vesturlöndum. Það eru staðreyndirnar, staðreyndirnar sem Sjálfstfl. og litli Sjálfstfl. þora ekki að ræða hér í þingsölum.
    Góðir Íslendingar. Þetta eina og hálfa ár hefur skilað góðum árangri. Nú stöndum við frammi fyrir því að taka til við að endurskipuleggja efnahagslífið

allt, og baráttan á næstu árum verður um það hvort fólkið í landinu fær að ráða framþróuninni eða hvort lénsveldi fjölskyldnanna 14 sem mynda valdakjarnann í Sjálfstfl., í Eimskip og Flugleiðum, Sjóvá og Almennum, Eigendafélagi Verslunarbankans, Stöð 2, H. Ben. og Co og ég gæti haldið áfram að telja fyrirtækin öll sem þær eiga, fær aftur að stjórna Íslandi, aftur að setja hér hlutina úr skorðum. Og ég er sannfærður um það að þegar dómurinn verður upp kveðinn vill fólkið í landinu ekki að lénsveldi fjölskyldnanna 14 fái aftur að ráðskast með örlög íslensku þjóðarinnar. --- Gleðilegt sumar.