Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sundraðist síðsumars 1988 vegna grundvallarágreinings um meginleiðir við stjórn efnahagsmála þjóðarinnar blasti hrun atvinnulífsins við um allt land. Fyrirsjáanleg gjaldþrot virtust óumflýjanleg á ótrúlega mörgum stöðum á landinu og þá ekki síst í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum. Viðskilnaður þessarar skammvinnu stjórnar undir forustu stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar verður lengi í minnum hafður. Hann skildi eftir sárindi og sviðin ör hjá mörgum sem urðu leiksoppar þeirrar þrjósku og eintrjáningsháttar er hér réði för. Einkunnin sem nýútgefin skýrsla OECD leiðir í ljós um hagstjórn þessara ára á Íslandi er ekki til að státa af. Þar er um hreina falleinkunn að ræða. En þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mörg þeirra vandamála sem við er að glíma í íslenskum efnahagsmálum má rekja til mistaka í hagstjórn á fyrri árum sem hafa leitt til meiri óstöðugleika í íslenskum þjóðarbúskap en sveiflur í sjávarútvegi hafa gefið tilefni til. Á því leikur enginn vafi að ekki var rétt staðið að hagstjórn á uppgangstímabilinu 1985--1987. Sérstaklega má benda á að þjóðhagslegur sparnaður dróst saman og erlendar skuldir fóru vaxandi við mjög hagstæðar ytri aðstæður.``
    Þetta er ekki fallegur vitnisburður en er þó óhlutdrægt mat sérfræðinga sem gerst mega vita og best geta um dæmt í þessu efni. En þeirri baráttu sem síðan hefur verið háð, bæði af ríkisstjórninni sem við tók sem og þeirri sem nú situr, mætti gefa svofellda yfirskrift: ,,Frá yfirvofandi þjóðargjaldþroti til jafnvægis í stjórn efnahags- og atvinnumála Íslendinga``. Þessi barátta er nú á vordögum 1990 að skila svo umtalsverðum árangri að segja má að ferskur bjartsýnisblær fari um flest svið íslensks þjóðlífs um þessar mundir ef undan eru skildar fáeinar greinar sem enn standa höllum fæti eins og til að mynda
loðdýraræktin. Jafnvel Sjálfstfl. gengur nú í endurnýjun lífdaganna í ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar enda var brugðið á það hollráð frá fyrri tíð á þeim bæ er hljóðar svo: ,,Nú mistekst formanni. Skal þá kjósa nýjan varaformann, helst öllum að óvörum og mest þeim sem fyrir er.``
    Við höfum heyrt hér í kvöld boðskap þeirra sem stóðu fyrir og báru meginábyrgð á uppgjöfinni 1988. Flest finna þeir til foráttu því uppbyggingarstarfi sem unnið hefur verið síðan. Þeir hafa m.a. talað um að feiknafjárhæðum sé velt á framtíðina til þess að fást við og greiða niður. Vitaskuld var það svo að eina leiðin til þess að ráða við þetta risaverkefni var sú og ekki á annan hátt hægt en að dreifa byrðum til alllangs tíma, hagræða, skuldbreyta og auðvitað að fara á fremstu nöf í þeim tilgangi einum að koma hjóli atvinnulífins í gang og skapa í leiðinni grundvöll til þess að atvinnulíf landsmanna geti þróast með eðlilegum hætti. Og það sem mestu skiptir, verkið hefur lánast. Grundvöllurinn hefur skapast í

meginatriðum. Það tókst þrátt fyrir stöðuga ófrægingu, glefs og hæðniorð af þeim sem öðru fremur skópu vandann en svöluðu sér á þann frumstæða hátt á milli þess sem þeir þó á laun sleiktu sárin.
    En þau tíðindi sem hér hafa mest orðið í þessu efni eru viðbrögð aðila vinnumarkaðarins og sú þjóðholla samvinna ASÍ, VSÍ og forustu bænda með heillavænlegum stuðningi ríkisvalds sem varð að veruleika í samningunum 1. febr. sl. Þar var hins vegar af fullkomnum heilindum tekið á málum með þjóðarheill eina að markmiði og fari fram sem horfir eiga allir þeir, karlar og konur, heilar þakkir skildar fyrir þau þjóðhollu verk sem þar voru unnin. Árangurinn er líka hvarvetna að koma í ljós. Við munum njóta hans, öll. Atvinnuleysið sem menn óttuðust að mundi stóraukast verður mun minna en búist var við. Versta vágestinum var þannig bægt frá.
    Ánægjulegustu tíðindin af vettvangi íslenskra efnahagsmála á þessum vordögum, á eldhúsdegi þessa þings, eru þó án alls efa sú staðreynd að nú er verðbólgan á öruggri niðurleið með öllum þeim jákvæðu áhrifum sem slík tíðindi hafa í för með sér. Hagur íslensks atvinnulífs mun blómgast dag frá degi í kjölfar kjarasamninganna og skila sér að lokum inn á hvert einasta heimili í þessu landi. Sá árangur mun verða lárviðarsveigur til heiðurs öllum þeim sem af fullkomnum heilindum og þjóðhollustu gerðu kjarasamningana að þeirri þjóðarsátt sem þeir í raun eru. Sérstök ánægja hefur verið að fylgjast með hvernig áhrif þessara merku samninga virðast ætla að koma fram og ganga eftir á flestum sviðum eins og menn höfðu gert ráð fyrir.
    Þeim mun hryggilegra hefur verið að fylgjast með starfi stjórnarandstöðunnar hér á þingi undangengnar vikur ef undan eru skildir fulltrúar Kvennalistans. Engu er líkara en þar hafi menn reynt að bæta sér upp gengisleysið og lánleysið með almennan árangur verka sinna og fundið í því einhverja svölun að tefja framgang einstakra þingmála í skjóli þingskapaumræðna dögum oftar ellegar með skipulagslausum upplestri fundargagna úr ýmsum áttum.
    Sjálfstfl. sem um árabil barðist fyrir því og flutti margar tillögur um það hér á Alþingi að sameina stjórn umhverfismála í einu ráðuneyti má nú ekki
heyra á slíkt minnst af því að ráðherrann fari ekki jafnframt með samgöngumál. Auk þess er stundum á þeim að heyra að þessum málum sé best fyrir komið svo sem verið hefur fram til þessa. Þann tíma sem ég hef átt sæti hér á Alþingi hef ég aldrei fyrr orðið vitni að óheilli eða aumari málflutningi en þeim sem fulltrúar sjálfstæðismanna hafa gert sig seka um í þessu máli. Það er þeim flestum til þeim mun meiri vansæmdar sem þeir hafa lengra fram gengið af heift og óbilgirni.
    Góðir Íslendingar. Þinglausnir eru á næsta leiti. Mörg merk löggjöf hefur verið samþykkt á þessu þingi sem vonandi verður þjóðinni allri til heilla. Borgfl. hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar, stundum ráðið úrslitum. Megi sú bjartsýni sem nú ríkir um

þjóðarhag á þessu vori leiða okkur inn í betri tíð og gjöfult sumar.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, og býð landsmönnum öllum góða nótt.