Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá fjh.- og viðskn. á þskj. 1215 um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í nál. segir svo:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra og Snorra Olsen, skrifstofustjóra í fjmrn. Einnig barst umsögn um frv. frá Iðnþróunarsjóði.
    Í nefndinni var mikil umræða um hvort bæta ætti við 3. gr. frv. ákvæði er tæki af allan vafa um hvort m.a. félög, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja, gætu nýtt sér heimild 3. gr. um að draga frá tekjum tapað hlutafé. Nefndin lítur svo á að túlka megi ákvæðið á þann hátt án breytingar og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn.
    Frv. þetta eða uppistöðu þess má rekja til frv. sem hv. þm. Friðrik Sophusson lagði fram í Nd. Það frv. var síðan endurskoðað af fjmrn., farið yfir allar greinar þess, og þannig samþykkt í Nd. og taldi nefndin að yrðu breytingar á frv. hér gæti verið vafasamt um úrslit málsins. En á fund nefndarinnar og til viðtals við einstaka nefndarmenn kom fulltrúi frá Iðnþróunarsjóði og taldi það ekki nógu skýrt hvort ríkisfyrirtæki eða sjóðir á
vegum ríkisins gætu nýtt sér heimild 3. gr. og eins og segir í nál. spunnust nokkrar umræður um það. Nefndin vill þess vegna, án þess að fram komi frekari brtt., taka það fram í nál. að hún líti svo á að 3. gr. uppfylli þá kröfu sem vafi var talinn leika á um. Ég legg því til, og raunar allir nefndarmenn, að mál þetta verði samþykkt og gert að lögum á þessu þingi.