Flokkun og mat á gærum og ull
Föstudaginn 04. maí 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég var fjarstaddur við 2. umr. málsins eins og komið hefur fram. Það er náttúrlega augljóst að það standa ekki efni til að flytja hér mikinn boðskap um afgreiðslu þessa máls hér í þinginu. En það voru örfá atriði sem ég vildi þó leggja hér áherslu á. Auðvitað er ég stuðningsmaður þess að betri skipan komist á með flokkun og meðferð á ull og gærum. Og það er alveg ljóst að bændur landsins, a.m.k. margir hverjir, mega huga að meiri og betri hirðusemi á þeim vörum og þá ekki síst ullinni.
    En auðvitað verður eitthvað að vinnast við það að meta og flokka þessar framleiðsluvörur með skilvirkari hætti en verið hefur og þá auðvitað það að menn verða að fá greitt í samræmi við það. Menn verða að fá þessa afurð greidda. Viðskiptahættir með þessa framleiðslu hafa verið fullkomlega
óeðlilegir og eru enn í dag. Og það liggur alveg ljóst fyrir að framlag þeirra sem vinna markvisst í þessum efnum, m.a. á grundvelli þess að hirða þessa framleiðslu og koma henni á markað með eðlilegum hætti, er ekki metið í þessum viðskiptum. Ég held að það sé grundvallaratriði ef menn ætla að ná árangri að teknir verði upp þeir viðskiptahættir að menn fái þessar vörur greiddar um leið og þeir afhenda þær til sölu.
    Ég get ekki heldur látið hjá líða að minna á það hér, þrátt fyrir að málið sé í eðli sínu gott, að mér finnst á vissan hátt að hér sé um hálfgerð rasshandarvinnubrögð að ræða. Þegar til þess er litið að nú eru uppi ráðagerðir um það að leggja niður tvö lítil tilraunabú --- og er nú gott að þingmönnum Vestf. fjölgar hér í þessari deild --- sem hafa einkum og nær einvörðungu haft þessa ræktun með höndum nú um áratuga skeið saknaði ég þess hjá hæstv. landbrh., sem var að tala um að þeir atburðir hefðu nú gerst að búið væri að flytja á þessu ári tvær ríkisstofnanir út á land fyrir forustu landbrn., að hann orðaði það ekki að hann hefur verið að vinna að því síðan hann kom í ráðuneytið að leggja tvær stofnanir niður sem eru staðsettar úti á landi.
    Það er svo merkilegt með þessa menn með stóru hjörtun og byggðasjónarmiðin að þeir tala ekkert um það þegar verið er að ráðast að fámennum byggðarlögum með því að leggja niður stofnanir, jafnvel þó að það séu forustustofnanir sem gegna lykilhlutverki í því að skapa fólkinu þar viðfangsefni og trú á starf sitt.
    Ég er alveg sannfærður um að það er mikill hnekkir fyrir landbúnað á Vestfjörðum og landbúnað á Austurlandi að leggja niður þessar tvær tilraunastofnanir því að auðvitað höfum við aldrei meiri þörf fyrir þróunarstarfsemi en einmitt um þessar mundir í íslenskum landbúnaði. Þess vegna segi ég það að mér finnst svona frumvarpsflutningur vera hálfgerð rasshandarvinnubrögð. ( SkA: Mér finnst nú að hv. þm. ætti að biðja hv. landbrh. að koma hér í salinn.) Ja, ég vildi ekki vera að gera ráðherranum

ónæði en auðvitað hefði mér þótt vænt um það. En kannski kemst tillaga mín og okkar um eflingu tilraunastöðvanna til umræðu í dag. Hún hefur nú verið lengi á dagskrá. Þessi orð mín læt ég nú einkum falla hér vegna þess að ég er engan veginn viss um að hún verði tekin til umræðu. Það er farið að þrengjast um tímann hér í þinginu. Ég á það sameiginlegt með mörgum öðrum að vilja stuðla að því að þinginu ljúki. Þó að hér sé nú grá jörð í morgunsárið þá er hún það ekki austur í Hornafirði og ýmislegt annað að gera áður en þingmenn geta gengið til vorverka. ( SkA: Þar hugsa menn um að setja niður kartöflur sínar.) Ja, til dæmis, og ýmislegt fleira. Þess vegna valdi ég þennan kost.
    Ég vil mjög undirstrika það sem ég sagði áðan, að það eru engar þessara yfirlýsinga marktækar um flutning stofnana, um áherslur í byggðamálum, hjá þeim mönnum sem leggjast þar á sem byggðin er veikust og þörfin er mest eins og er gert í sambandi við þessar tilraunastöðvar. Og það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni í gær, að það er ekki vegna þess að sú stofnun sem á að hafa þann rekstur með höndum hafi ekki fjármagn til þess. Það er vegna þess að hún ver því í önnur verkefni og hefði ekki þurft nema litla tilfærslu til þess að gera þetta með bærilegum sóma.
    Þetta vildi ég láta fylgja þessu máli og þá í trausti þess að menn fari nú að vakna til aðeins betri vitundar í þessum efnum að því er varðar þessa faglegu starfsemi úti á landsbyggðinni þar sem fólkið starfar og þar sem fólkið vill starfa. Kannski gæti það orðið til þess áður en slysin verða með Reykhóla og Skriðuklaustur að menn komist að einhverri vitrænni niðurstöðu.