Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. samgn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um þetta frv. um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð og fékk á sinn fund til viðræðna um málið Ólaf Steinar Valdimarsson, ráðuneytisstjóra í samgrn., og Gunnar Guðmundsson og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerð ríkisins. Þá barst nefndinni erindi frá sveitarstjórn Kjalarneshrepps og samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi.
    Nefndin mælir öll með samþykkt frv. en gerir tillögu um breytingu á því á þann veg að 5. gr. frv. verði 2. gr. og þar með að röð annarra greina breytist samkvæmt því.
    Á fundi með fulltrúum samgrn. og Vegagerðarinnar og í umfjöllun nefndarinnar kom m.a. fram:
    1. Það er tryggt með væntanlegri 2. gr. frv. að samningur um framkvæmdir öðlist ekki gildi fyrr en hann hefur hlotið samþykki og staðfestingu Alþingis.
    2. Í frv. felast engar fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs og því ekki um það að ræða að almennt vegafé skerðist.
    3. Í samningi við framkvæmdaraðila verða allir nauðsynlegir fyrirvarar og m.a. tryggt að ef fyrirtækið hættir framkvæmdum þá komi ríkissjóður skaðlaus frá slíkum málalokum. Í samningum verða nákvæm ákvæði um ábyrgð framkvæmdaraðila.