Landsvirkjun
Föstudaginn 04. maí 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt gilda ekki eingöngu sérstök lög um Landsvirkjun heldur starfar hún líka samkvæmt sameignarsamningi milli ríkisstjórnarinnar, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Í þessum samstarfs- og sameignarsamningi segir að sama gjaldskrá skuli gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna á öllum afhendingarstöðum Landsvirkjunar.
    Samkvæmt 20. gr. laganna um Landsvirkjun hefur þessi sameignarsamningur lagagildi og því hlyti fyrst að þurfa að reyna á hvort samningar gætu tekist um breytingar á þessum gjaldskrárreglum áður en lagabreytingaleiðin er fær. Ég bendi á að í 13. gr. Landsvirkjunarlaganna eru ákvæði sem eru efnislega samhljóða því sem ég vitnaði til í sameignarsamningnum. Ég hef hug á því að láta vinna að gerð frv. um jöfnun orkuverðs í landinu þar sem m.a. yrði hugað að þessum ákvæðum og öllum aðstæðum í málinu. Það er afar mikilvægt í þessu máli að víðtæk samstaða náist. Ég tek þess vegna undir þá efnislegu niðurstöðu sem finna má í rökstuðningi iðnn. fyrir því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og lýsi því yfir að unnið verður að gerð frv. um þetta mál og að undirbúningi breytinga sem stefna að jöfnun orkuverðs.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, leyfa mér að minna á að á liðnu ári, sérstaklega á árinu 1989, beitti ríkisstjórnin sér fyrir mjög verulegum ráðstöfunum til þess að jafna orkuverð í landinu. Í fyrsta lagi yfirtók ríkissjóður háar fjárhæðir af skuldum Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins. Í kjölfar þeirrar skuldayfirtöku lækkuðu gjaldskrár almenningsveitnanna á orkuveitusvæði þessara tveggja orkufyrirtækja um 5%. Það er þó ekki rétt lýsing á áhrifunum til jöfnunar orkuverðs því að yfirtakan kom líka í veg fyrir óhjákvæmilega hækkun sem annars hefði orðið á þessum sömu gjaldskrám um 12--15%.
    Þá er líka rétt að benda á að andstætt því sem var um þéttbýlisrafveiturnar í upphafi ársins 1990 hækkuðu þessi fyrirtæki, Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins, ekki taxta sína í byrjun ársins 1990. Það hefur því dregið saman með gjaldskránum meira en um langan aldur og bilið á milli þeirra er núna mjórra en það hefur verið allan síðasta áratug.
    Virðulegi forseti. Það er stefnumál ríkisstjórnarinnar að vinna að jöfnun orkuverðs og í þeim anda lýsi ég mig samþykkan því að unnið verði að gerð frv. um þetta mál fyrir haustið.