Landsvirkjun
Föstudaginn 04. maí 1990


     Jón Helgason:
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir yfirlýsingu hans hér og taka undir með honum að það er mjög mikilvægt að hægt sé að vinna að framgangi þessa máls með samkomulagi við alla hlutaðeigandi aðila. Vegna ábendingar hans um samstarfssamning við Landsvirkjun, sameignarfélag, þá held ég að einmitt nú sé sérstakt tækifæri til að ná slíku samkomulagi þar sem nú er til afgreiðslu hjá Alþingi frv. um raforkuver sem gerir ráð fyrir því að veita Landsvirkjun gífurleg réttindi í formi vatnsorku og hlýtur að teljast eðlilegt að fyrirtæki sem fær slík réttindi, slík verðmæti, láti eitthvað af hendi á móti og þá það að stuðla að því að íbúar þeirra svæða m.a. þar sem þessi vatnsréttindi eru, þessi auðæfi eru, njóti ekki lakari kjara frá orkuverunum en meginþorri landsmanna. Ég vænti þess því að þetta starf sem ráðherra mun beita sér fyrir á næstu mánuðum beri sem ríkulegastan og skjótastan árangur.