Sveitarstjórnarlög
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Í frv. er fjallað um breytingu á 29. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem sveitarfélagi er heimilt að veita Lánasjóði sveitarfélagi tryggingar í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum. Þar er þá fyrst og fremst átt við tekjur sveitarfélagsins af staðgreiðslu.
    Í áliti nefndar sem félmrh. skipaði 25. júlí var lagt til að Lánasjóður sveitarfélaga legði meiri áherslu á að veita sveitarfélögum lán til greiðslu óhagstæðra lána sökum þeirrar erfiðu fjárhagsstöðu sem mörg sveitarfélög fást nú við. 45. fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga sem haldinn var í Reykjavík í mars beindi tilmælum til stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga um að hún legði aukna áherslu á lánveitingar til skuldbreytinga á skammtímalánum sveitarfélaga. Ljóst er að það er gífurleg þörf fyrir einmitt þess konar lán. 50 sveitarfélög hafa sótt um lán til Lánasjóðsins. Þar af hafa 21 sveitarfélag sótt um lán vegna skuldbreytinga. Úthlutun lána úr sjóðnum fer venjulega fram í maímánuði og þess vegna var lögð áhersla á að þetta frv. kæmi til afgreiðslu nú á þessu þingi.
    Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga tók frv. fyrir á fundi núna í apríl og samþykkti einróma að leggja til og styðja þá breytingu sem frv. felur í sér, en hún er að sveitarfélag fær heimild til að veita Lánasjóði sveitarfélaga tryggingar í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum. Lánasjóður sveitarfélaga hefur til þessa haft sem tryggingu framlög sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en þau teljast til tekna sveitarfélaga. Breytingin felur í sér útvíkkun á heimild þessari sem nú er í gildi og gefur jafnframt möguleika á tryggingu í staðgreiðslu sveitarfélaganna.
    ,,Er þessi breyting nauðsynleg vegna hagsmuna Lánasjóðs sveitarfélaga og til þess að einstök sveitarfélög eigi þess kost framvegis að fá lán úr sjóðnum, bæði til skuldbreytinga og nýframkvæmda``, segir í athugasemdum við 1. gr. frv. Í niðurlagi 1. mgr. 1. gr. frv. er bætt inn í greinina að félmrh. setji reglugerð um nánari ákvæði um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga.
    Nefndin fjallaði á fundi í morgun um frv. og fékk á sinn fund Húnboga Þorsteinsson, skrifstofustjóra í félmrn. Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu að gildistökuákvæði þess verði breytt á þann veg að lögin taki gildi 15. júní nk., er nýjar sveitarstjórnir hafa tekið við að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Nefndin telur eðlilegt að afgreiðsla umsókna samkvæmt ákvæðum frv. fari ekki fram fyrr en eftir 15. júní þannig að ný sveitarstjórn samþykki umsóknina og gangi frá lántökunum. Fyrir liggur að stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga fellst á þetta sjónarmið nefndarinnar.
    Nefndin leggur á það áherslu að æskilegt sé að við samningu reglugerðar samkvæmt ákvæðum 1. gr. verði gengið þannig frá málum að trygging sú sem

Lánasjóður sveitarfélaga fái í staðgreiðslutekjum sveitarfélags sé veitt vegna skuldbreytingalána.
    Guðmundur H. Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. skrifa Karl Steinar Guðnason, Jóhann Einvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Salome Þorkelsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Salome Þorkelsdóttir skrifar undir nál. með fyrirvara. Hún er ekki stödd hér í deildinni núna við þessa umræðu en ég hef haft samband við hana og hún samþykkti að það væri talað fyrir nál. Hennar fyrirvarar byggðust fyrst og fremst á því að hún var samþykk þeirri brtt. að afgreiðslan yrði bundin við 15. júní eftir að nýjar sveitarstjórnir tækju við og haft yrði samband við stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og tryggt að úthlutun færi ekki fram fyrr en eftir að ný sveitarstjórn hefði tekið við og lögin tekið gildi frá 15. júní. Það var gert og þar af leiddi að hún féllst á að málið væri rætt án þess að hún hefði tök á að vera viðstödd.
    Ég vil svo aðeins að síðustu, virðulegi forseti, leggja áherslu á það sjónarmið nefndarinnar að þessi lánafyrirgreiðsla sé bundin og aðeins tekin trygging í staðgreiðslufé sveitarfélags til skuldbreytingalána vegna þess að í athugasemdum við greinar frv. kemur fram að það er álit ráðuneytis að þetta skuli vera bæði til skuldbreytinga og vegna nýframkvæmda. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að við samningu reglugerðar verði þetta miðað við skuldbreytingalán og ekki annað.