Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um verkefni umhvrn. sem, eins og allir hv. þm. þekkja, hefur verið sett á fót. Ég skal nú ekki hafa um þetta mörg orð, við höfum rætt málið í þessari hv. deild áður. Hér var að sjálfsögðu fjallað um það frv. sem má segja að hafi verið meginatriði þessa máls, að setja á fót umhvrn. Frv. hefur verið afgreitt frá hinu háa Alþingi og var ítarlega rætt hér og reyndar, sem von er, voru bæði málin þá rædd að meira eða minna leyti.
    Nú skal ég gera í nokkrum orðum grein fyrir frv. eins og það liggur nú fyrir og ekki síst þeim breytingum sem hafa orðið.
    Í 1. gr. frv. er fjallað um Landgræðslu ríkisins, gróðurvernd og Skógrækt ríkisins. Mér þykir nauðsynlegt að leggja áherslu á að með þessari grein er að
sjálfsögðu alls ekki ætlað að draga úr starfi Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins, heldur er hér ætlast til þess að enn einn aðili til viðbótar komi að þessum sjálfsögðu störfum, að koma í veg fyrir þá gróðureyðingu sem hér hefur átt sér stað og er öllum svo augljós sem hér eru inni að ég þarf ekki að fara um það neinum orðum. Og mér þykir satt að segja afar leitt að þarna virðist hafa komist á nokkur misskilningur. En ég vona að eins og þessi grein er orðuð og með þeim skýringum sem hafa komið fram, þá þurfi það ekki að vera. Hér er um að ræða breytingar á lögum um náttúruvernd. Við 7. gr. laganna bætast þrjár nýjar mgr. 1. mgr. segir: ,,Ráðið skal``, þ.e. Náttúruverndarráð, ,,ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs.`` Að sjálfsögðu er þetta gert með þeim stofnunum sem að þessu vinna. Má segja að þarna sé fyrst og fremst aðeins um viðbótarhönd á þetta mikilvæga verk að ræða. Öll slík vinna er unnin af Náttúruverndarráði. ,,Umhvrh. getur``, segir í síðustu mgr. þessarar greinar, ,,að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs og í samráði við landbrh. ákveðið friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar samkvæmt 5. og 6. mgr. þeirra laga.`` Ég held ég þurfi ekki út af fyrir sig að fara um þetta fleiri orðum. Ég vona að þegar þetta er nú komið á fót og sú endurskoðun á starfsemi Landgræðslunnar og Skógræktarinnar til að samræma þetta er lokið, sem ég hef samkvæmt viðbótarákvæði til bráðabirgða, sem var samþykkt í Nd. núna fyrir nokkrum mínútum, heitið að leggja fyrir Alþingi í haust, þá verði öllum misskilningi, ef einhver er enn þá, fullkomlega eytt.
    2. gr. frv. fjallar um breytingu á lögum um náttúruvernd þar sem Náttúruverndarráð er flutt frá menntmrn. til umhvrn.
    3. gr. gerir ráð fyrir því að sérstök lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu falli undir umhvrn.
    4. gr. gerir ráð fyrir að dýravernd, sem nú fellur undir menntmrh., falli undir umhvrn.
    5. gr. færir lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, sem

nú heyrir undir menntmrn., undir umhvrn.
    6. gr. flytur lög um eyðingu svartbaks frá Búnaðarfélagi Íslands til umhvrn.
    7. gr. breytir 1. gr. laga um eyðingu minka og refa. Þar er gert ráð fyrir að yfirstjórnin flytjist til umhvrn. og umhvrh. skipi veiðistjóra o.s.frv.
    Í 8. gr. frv. eins og það var lagt fram var gert ráð fyrir því að Hollustuverndin, sem svo er venjulega nefnd og lýst er í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, flyttist í heild sinni undir umhvrn. Um þetta hefur verið mjög deilt og verið skiptar skoðanir í öllum flokkum á milli fjölda margra aðila. Sumir hafa talið rétt að flytja þessa stofnun í heild. Aðrir hafa talið að miða eigi við þann þáttinn sem er um hið ytra umhverfi, en aftur eigi, ef ég má kalla það svo, maðurinn sjálfur að vera áfram hjá heilbrrn. Eins og allir þekkja fjallar þessi stofnun bæði um hið ytra umhverfi, þ.e. mengunardeild hennar, en önnur deild, Heilbrigðiseftirlitið, fjallar um eiturefni í matvælum, áhrif þeirra á manninn o.s.frv.
    Ég skal viðurkenna að þótt ég legði frv. fram þannig að stofnunin flyttist öll þá sagði ég strax í upphafi að ég teldi það orka tvímælis að flytja hana að öllu leyti. Ég læt þess getið að í Danmörku þar sem það var gert hefur nú sá þáttur sem fjallar um eiturefni í matvælum og áhrif þeirra á menn o.s.frv. verið fluttur til baka til heilbrrn.
    Í þeirri umfjöllun sem hefur orðið um þetta mál milli manna í Nd. varð að lokum að samkomulagi að flytja eingöngu mengunarþáttinn. Þetta veldur að sjálfsögðu því að sá þáttur fellur þá undir umhvrh. en heilbrigðisþátturinn undir heilbrrh. Segja má að þegar ein stofnun fellur undir tvo ráðherra sé nokkur flækja en um þetta eru mörg dæmi. Ég nefni t.d. stofnanir sem starfa á Keflavíkurflugvelli. Þær heyra að því sem því viðvíkur undir utanrrh. en ýmsa aðra ráðherra að öðru leyti. Ég nefni áfengisvarnanefnd sem fellur undir tvo ráðherra og fleira þannig gæti ég nefnt. Þetta varð því niðurstaðan eins og kemur fram í 1. brtt. frá Nd. og sem fjallað er um á sérstöku þingskjali og hlaut þar samþykki.
    Í 9. gr. er gert ráð fyrir að flytja þann þátt Siglingamálastofnunar sem fjallar um mengun sjávar yfir til umhvrh. og má segja það sama um það og Hollustuverndina.
    10. gr. fjallar einnig um Siglingamálastofnun.
    11. gr. fjallar um bann við losun hættulegra efna í sjó og fellur undir umhvrh.
    12. gr. fjallar sömuleiðis um Siglingamálastofnun ríkisins þar sem þessu er breytt. Talið er nauðsynlegt að hafa þetta í nokkrum greinum þar sem það eru allmörg lög sem þarf að breyta.
    Hins vegar varð að samkomulagi að flytja ekki, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frv., 13. gr. þess, eiturefni og hættuleg efni til umhvrh. á þeirri sömu forsendu að það sé fremur mengun sem varðar beint manninn sjálfan en síður hið ytra umhverfi og verður það áfram hjá heilbr.- og trmrh.
    Í 14. gr. var gert ráð fyrir að flytja Geislavarnir til umhvrh. en eftir samkomulag var ákveðið að láta þær

einnig vera áfram hjá heilbrrh. og vísa ég þar til sömu röksemdafærslunnar.
    Í 15. gr. er gert ráð fyrir að flytja ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur til umhvrh. frá iðnrh.
    Í 16. og 17. gr. er síðan gert ráð fyrir að flytja skipulagsmál og byggingarmál yfir til umhvrh. En að samkomulagi varð að þetta tæki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1991 eins og kemur fram í 4. brtt. minni sem samþykkt var núna rétt áðan. Ástæðan fyrir þessu er sú að samtök sveitarfélaga hafa talið nauðsynlegt að athuga þetta nánar og gefst þá tækifæri til þess. Kem ég reyndar að því dálítið nánar síðar.
    Þá er gert ráð fyrir því að Veðurstofan flytjist til umhvrh. Um það hefur verið töluvert rætt en Veðurstofan er með stöðugt vaxandi rannsóknir á mengun andrúmsloftsins og eðlilegt að það tengist allri þeirri umræðu sem um þá mengun er í heiminum.
    Loks er í 19. gr. gert ráð fyrir að Landmælingar Íslands flytjist til umhvrh. og í 20. gr. að lög um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands flytjist til umhvrh.
    Þá var samþykkt frá mér brtt. þess efnis að 13. og 14. gr. félli niður, eins og ég nefndi áðan, og sömuleiðis þess efnis að forsrh. setji með reglugerð
nánari ákvæði um yfirstjórn Hollustuverndar ríkisins og Siglingamálastofnunar ríkisins því þar koma tveir ráðherrar að. Að mati lögfræðinga og reyndar samkvæmt hefð er það forsrh. sem sker úr um slíkt og var þetta sett til að tryggja enn betur að þarna þyrftu ekki að vera neinir árekstrar og frá málum gengið.
    Loks var fallist á og bætt við ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi er umhvrh. þar skuldbundinn til að leggja fram á næsta haustþingi frv. til laga um umhverfisvernd og umhverfisverndarstofnun. Þar skuli ákveða gífurlegar mengunar- og geislavarnir á landi, lofti og sjó svo að þar verða þessi mál þá ef mönnum sýnist sett í fastara form. Gert er ráð fyrir því að aðilar tengdir skulum við segja a.m.k. stjórnmálaflokkunum öllum komi að þessu máli. Sú nefnd hefur þegar hafið starfsemi sína. Loks eru tekin af öll tvímæli um það að þrátt fyrir þau ákvæði sem ég rakti áðan í 1. gr. muni Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins starfa óbreytt áfram. Þetta er kannski óþarfi en er til að taka af öll tvímæli og allan þann misskilning sem ég nefndi áðan og mér hefur þótt afar slæmur í þessu sambandi.
    Loks er í 3. lið ákvæða til bráðabirgða sú skylda lögð á herðar forsrh. að leggja fyrir Alþingi frv. til laga er feli í sér niðurstöður endurskoðunar á þeim lögum sem þar eru svo upp talin og þarf að endurskoða í kjölfar þess sem hér er verið að gera. Í fyrsta lagi eru það lög um Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins til að marka vel þá verkaskiptingu sem þar er á milli. Ég vil undirstrika og taka af allan vafa um það að þessar stofnanir hafi áfram það mikilvæga verkefni að græða upp landið og rækta skóga. Þá þarf að skoða hvort ekki þarf að breyta

lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lögum um Siglingamálastofnun og lögum um losun hættulegra efna í sjó af þessum sömu ástæðum, að þarna er um stofnanir að ræða sem að vísu er ætlunin að skýra vel með greinargerð en skoðun manna er þó að nauðsynlegt sé að fara yfir það með tilliti til þeirra breytinga sem stofnun umhvrn. hefur í för með sér.
    Herra forseti. Eins og ég sagði áðan var þetta mál mikið rætt hér í sambandi við annað frv. um umhvrn. og ég skal ekki lengja umræðuna. Ég fagna því mjög að samkomulag varð um það í Nd. að afgreiða málið. Ég er ekki að segja að það sé samkomulag um hvert atriði þess, svo er ekki. En það varð samkomulag um að afgreiða málið og það var gert í þeirri von að þessi deild treysti sér til að afgreiða málið á mjög skömmum tíma. Mér er fyllilega ljóst að það er raunar ekki boðlegt, en verð að vísa til þess að hér fór fram ítarlegri umræða fyrr í vetur um þetta mál í tengslum við stofnun ráðuneytisins. Ég veit að allir þingmenn vilja að á umhverfismálum sé tekið. Umhvrn. er orðið að staðreynd og þá verða menn, hvort sem þeir eru á móti því eða ekki, að sjálfsögðu að taka þátt í því að fela því eðlileg verkefni. Og má segja að það hafi ráðið því að
samkomulag varð að lokum í hv. Nd. um að afgreiða málið og ég vona að þessi hv. deild sjái sér fært að gera það einnig.
    Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.