Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Gangur mála hér í þinginu núna allra síðustu dagana hlýtur að verða okkur alvarlegt umhugsunarefni um vinnubrögð og hvetja til þess að þau verði endurskoðuð. Þau tvö mál sem setja mestan svip sinn á þinghaldið núna síðustu dagana eru að mínu mati tvö stærstu mál þessa þings ef litið er fram hjá fjárlögum og öðrum álíka málum sem eru hefðbundin á hverju ári. En þetta hlýtur að vekja upp þörf til þess að endurskoða þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð og ættu að verða okkur lærdómur.
    Auðvitað ber að harma þau örlög umhverfisráðuneytisins sem við höfum orðið vitni að hér í umræðunni í vetur, hvernig það hefur orðið leiksoppur pólitísks valdatafls innan ríkisstjórnarinnar. Þó er ekki ástæða til á þessu stigi málsins að halda áfram leitinni að sökudólgum í þessu máli. Það hefur engan tilgang í sjálfu sér, en þeir eru auðvitað margir.
    Kvennalistakonur hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á úrbætur í umhverfismálum og við höfum verið þeirrar skoðunar að nauðsyn beri til að hafa sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Ég vil í því sambandi minna á ítarlega þáltill. sem við lögðum fram í fyrravetur þar sem við kynntum hvernig við vildum sjá málum fyrir komið í slíku ráðuneyti. Þegar um þetta mál var fjallað við 3. umr. 129. máls, sem fjallar um það eitt að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti, en það var 23. febr. sl. ef ég man rétt, þá lýstum við því hvað eftir annað að til lítils væri að stofna ráðuneyti án verkefna. Því var á þeim tíma algerlega hafnað af hæstv. ríkisstjórn og mikil áhersla lögð á að afgreiða málið. Ef til vill má virða hæstv. ríkisstjórn það til vorkunnar að hún hefur nú séð að sér og viðurkennt þau mistök sem fólust í því að afgreiða frv. um umhverfisráðuneyti án þess að það hefði verkefni.
    Varðandi þær breytingar sem urðu á frv. í hv. Nd. má segja að búið sé að flytja ýmis mikilvæg verkefni frá ráðuneytinu. Við kvennalistakonur hefðum að
sjálfsögðu viljað sjá fleiri og mikilvægari verkefni inni í þessu ráðuneyti og hefðum viljað sjá tekið á þessum málum af meiri metnaði en hér er gert. Frv. er enn ófullburða en þó skref í rétta átt að stofna hér raunverulegt umhverfisráðuneyti.
    Stærsta og alvarlegasta umhverfisvandamálið sem við eigum nú við að glíma er gróðureyðing og uppfok lands. Eins og ég lýsti hér á sínum tíma við umræðu um hitt frv., þ.e. stofnun umhverfisráðuneytis, teljum við óhjákvæmilegt með tilliti til þess, að bæði Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins verði flutt inn í umhverfisráðuneytið og mun ég flytja tillögu þar að lútandi við 2. umr. málsins.
    Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál nú en ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að umfjöllunin um þessi tvö stóru mál nú á örfáum dögum í lok þings ættu að verða til þess að við tökum alvarlega til umhugsunar og endurskoðunar þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð og reynum af fullri alvöru að koma í veg fyrir að slíkt gerist æ ofan í æ þegar

nálgast þinghlé eða þinglok.