Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Með örfáum orðum vil ég láta koma fram vegna þess sem hér hefur verið sagt um pólitíska spillingu, hrossakaup og fleira að á mínum þingmannsferli tel ég þetta mikilvægasta mál sem ég hef flutt fyrir Alþingi og þau eru nú orðin nokkuð mörg. Ég flutti mál á síðasta þingi, 1988--1989. Var þá um hrossakaup að ræða? Var verið að kaupa einhvern til setu í ríkisstjórn þá? Þegar ég var forsrh. 1983--1987, hóf ég, ásamt Sjálfstfl., enn einu sinni undirbúning að stofnun umhverfisráðuneytis, að samningu frv. um það. Var þá um hrossakaup að ræða? Eða þegar þessi mál voru flutt enn fyrr, á árinu 1976, undirbúin af þingmanni eins og Gunnari Thoroddsen. Var þá um hrossakaup að ræða? Flutningur þessa mikilvæga máls á ekki nokkuð skylt við hrossakaup, ekki nokkuð skylt við pólitíska spillingu, því fer svo víðs fjarri. Og að hlusta á það að heiðarlegir menn séu beðnir að greiða atkvæði á móti, við hin sem styðjum þetta mál erum þá óheiðarlegt fólk. Ég met nú þá þingmenn sem hér töluðu áðan það mikils af kynnum mínum að ég trúi vart mínum eyrum. Ég verð að láta það koma fram hér hvað ég tel þetta mál mikilvægt. Ég er þá óheiðarlegur maður og skal standa undir því. Nei, ég held að menn ættu að forðast svona málflutning.
    Það er rétt að við höfum deilt um það á hvern máta þessu skuli skipað og ég met það. Það er allt annað mál. Sjálfstæðismenn hafa flutt sínar tillögur á þessu þingi og þær eru góðra gjalda verðar. Þær eru ekki fluttar af neinu óheiðarlegu fólki. Þær eru fluttar af fólki eins og ykkur og mér, þingmönnum hér á þinginu sem vilja styrkja umhverfismál. Ég vil láta það koma fram að líklega er ekkert ráðuneyti sem ég hefði frekar viljað fara með en umhverfisráðuneyti, svo mikils met ég þetta ráðuneyti. Það er bara orðið of seint fyrir mig. Þetta vildi ég láta koma fram hér svo að, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þjóðin viti, því að hún hlustar, að ég er þá einn þessara
óheiðarlegu manna sem hafa lagt á það ofurkapp að koma á fót umhverfisráðuneyti og fela því verðug verkefni.
    Út af ræðu hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur vil ég segja að í raun og veru er það mikilvægasta sem hefur verið dregið frá þessu ráðuneyti hollustuþáttur Hollustuverndarinnar. Að vísu fylgja eiturefnin og geislaefnin þar með, en í tillögum Kvennalistans var gert ráð fyrir því að skipta Hollustuverndinni svo að það er fallist á tillögu Kvennalistans í því sambandi. Ég vil vekja athygli á þessu. Sjálfur tel ég skynsamlegra að binda umhverfisráðuneytið við hið ytra umhverfi en ekki það sem tengist manninum óaðskiljanlega.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram og ég vona svo sannarlega að við getum sameinast um það að taka á umhverfismálum landsins af mikilli reisn.