Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég er einn í hópi þeirra þingmanna sem hefðu gjarnan viljað ræða þetta mál nokkuð ítarlega, enda hef ég að sjálfsögðu verið þátttakandi í umræðu um það í vetur, bæði í mínum þingflokki og svo á búnaðarþingi þar sem fjallað var um frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd o.fl. En nú er miðað við það að ljúka hér störfum fyrir helgi og ég ætla a.m.k. ekki að verða til þess að spilla því.
    Ég tel að við afgreiðslu þessa máls hafi fengist bærileg niðurstaða, og nú vildi ég helst að hæstv. umhvrh. færi ekki í burtu, og vonandi líka bærileg sátt. Hér hafa menn, sem ekki er óeðlilegt, minnst á pólitíkina í kringum þetta, m.a. talað um hrossakaup og annað þar fram eftir götunum og það er ekki óeðlilegur kostur í þessum efnum. En menn mega ekki gleyma á þessum degi að þegar þetta mál var lagt fyrir þingið var það ómögulegt. Málið var ómögulegt eins og það var lagt fyrir þingið. Og engin efni stóðu til þess að það gæti orðið sátt um það hér á Alþingi og þaðan af síður í þjóðfélaginu. Menn hljóta að geta metið þessi orð í ljósi þeirrar staðreyndar að langflestir umsagnaraðilar sem fjölluðu um málið, sem komu á fundi allshn. Nd. Alþingis, lýstu andstöðu við málið. Ég hygg að það sé fátítt, ég minnist ekki nokkurs frv. eða nokkurs máls þann tíma sem ég hef verið á Alþingi sem hefur mætt eins mikilli andstöðu í þjóðfélaginu og þetta frv. Og það eru meginmistökin. Menn greinir ekki á um þörfina á aukinni umhverfisvernd í landinu. Menn greinir ekki á um hana. Vitanlega er hægt að velja ýmsar leiðir til að ná fram bættri umgengni, en það er grundvallaratriði að það geti verið bærileg sátt í kringum slíkar breytingar sem þessar. Og frv. eins og það var lagt fram og eins og átti að knýja það fram hér á Alþingi var stríðsfrv. Hér hefur þess vegna náðst viss árangur. Auðvitað var hér langsamlega harðast gengið fram gegn vilja bændastéttarinnar í landinu. Öll
umræða um þau efni var gamaldags og úrelt miðað við það sem gerist í öðrum löndum, miðað við það sem fólk og forustumenn í öðrum löndum sem hafa beitt sér í umhverfismálum leggja til grundvallar þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Og það er að sátt sé á milli fólksins sem nýtir landið og þess sem á að gæta að því. Ég held að óhætt sé að fullyrða að á því sé orðinn alþjóðlegur skilningur að einmitt slík sátt sé forsenda þess að hægt sé að ná árangri í þessum efnum. En eins og þessi mál bar að, og þá er ég ekki neitt að skattyrðast við hæstv. umhvrh. því að þetta mál á lengri aðdraganda, uppruni þess og nefndarstörf sem lágu að baki þessu frv, en að þessu leyti var frv. úrelt. Það boðaði stríð við bændur landsins. Um þetta er að sjálfsögðu hægt að hafa mörg orð. Og ég er sannfærður um að það getur aldrei orðið samkomulag eða sátt um það að færa Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins í einu lagi undir umhverfisráðuneytið. Hins vegar er vel hægt að fallast á það að vissir þættir í starfi þeirra stofnana og í

sambandi við þau gríðarlega miklu viðfangsefni sem okkar bíða þar, að þeir verði sameiginlegir eða háðir úttekt og eftirliti umhverfismanna. Það er vel hægt að fallast á það. En það er ekki hægt að fallast á það að almenn búsýsla í þessu landi færist undir umhverfisráðuneytið og hún verður ekkert skilin frá nýtingu landsins. Það er mikill misskilningur ef menn halda að það sé hægt.
    Það sem ég legg sérstaka áherslu á í þessu sambandi er m.a. að það væri nú góður kostur eftir þennan stormasama vetur í kringum þetta mál og þann árangur sem hefur náðst að menn vandi sig nú með framhaldinu. Hér er talað um lög sem á að endurskoða og leggja fyrir Alþingi og það er ekki fyrr en að þeim samþykktum, samkvæmt þeirri lagagjörð, sem á að marka stöðu þeirra stofnana sem þar er um rætt og auðvitað fer framhaldið eftir því hvað menn fást til að vinna að þeim málum með trúverðugum hætti, hvort menn hafa lært eitthvað af reynslunni, hvort menn meta núna skoðanir annarra manna og ekki síst þeirra sem nýta landið. Þess vegna eru mikil tækifæri fram undan. Og það verður fróðlegt að sjá hvort hæstv. umhvrh. hefur mátt í sér til þess að stýra þessu máli þannig að friður fáist um það hér á Alþingi og í þjóðfélaginu. Menn mega nefnilega ekki blanda því saman sem tengt er pólitískum hrossakaupum og því sem er efnislegt við þetta mál því að þessi pólitísku hrossakaup hefðu ekki orðið með þessum hætti, ef við notum það hugtak almennt um það hvernig umræðan hefur gengið um þetta mál í vetur, ef betra mál hefði verið á ferðinni, betur undirbúið. Og ef menn hefðu borið gæfu til þess að taka mark á þeirri andstöðu sem reis upp gegn þessu frv. þegar það kom fram hér í Alþingi, bæði hér í Alþingi og líka í þjóðfélaginu. Þetta legg ég sérstaka áherslu á hér og nú, að ef menn bera ekki gæfu til að taka mið af þeim lærdómi sem hefur fengist á þessum vetri, ef menn tengja umræðuna eingöngu pólitíkinni og þeim leiðinlega svip sem hún hefur sett á þetta mál, þá gengur framhaldið fram með sama hætti og hér hefur gerst á þessum vetri. Hins vegar eru góðir möguleikar til þess að nýta reynsluna og taka upp eðlileg og heiðarleg vinnubrögð sem taka mið af vilja fólksins í landinu og þá hygg ég að fengist geti niðurstaða sem gæti skilað árangri. En undir öðrum kringumstæðum verður ekki árangur. Það vil ég
fullyrða hér og nú.