Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 04. maí 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég verð því miður að láta það koma fram hér eins og í Nd. við umræðu um brtt. sams konar og þá sem hér er flutt nú að ég verð að mæla alfarið gegn samþykkt á þessari brtt. Við náðum ákveðnu samkomulagi við umræðu um þetta mál hér fyrir áramótin um að því yrði frestað á þeirri forsendu að athugaður yrði nánar stjórnunarþáttur heilbrigðisstofnana og kannað hvaða stofnanir það væru þar sem heilbrigðisþjónustan væri rekin í húsnæði sem sveitarfélögin ættu alfarið, hefðu reist og kostað eða keypt fyrir eigin reikning. Samkvæmt upplýsingum í heilbrrn. er töluverður hluti af starfsemi Borgarspítalans rekinn í húsnæði sem Reykjavíkurborg á og hefur sjálf byggt fyrir eigin reikning og ríkið ekki tekið þátt í. Það var því talið eðlilegt að fallast á það sjónarmið borgaryfirvalda og átti ég um það viðræður bæði við borgarstjóra og aðra borgarfulltrúa að stjórnunarhættir á Borgarspítalanum yrðu um sinn með óbreyttu sniði á meðan nánar yrði skoðað hvernig farið yrði með þessar tilteknu eignir og þá hugsanlega í kjölfar þess að taka aftur upp umræður um hvernig farið yrði með stjórnunarþáttinn þar.
    Varðandi sjúkrahús annarra sveitarfélaga og heilbrigðisstofnanir, heilsugæslustöðvar og hjúkrunarheimili, þá er það svo að þau hafa öll verið kostuð og byggð samkvæmt ákvæðum gildandi laga á hverjum tíma. Og auðvitað á það eins við í Hafnarfirði og í öðrum sveitarfélögum. Það er ekkert öðruvísi háttað með uppbyggingu heilbrigðisstofnana þar en t.d. bara í Keflavík ef við erum að tala um heilbrigðisstofnanir í Reykjaneskjördæmi sérstaklega. Og auðvitað gætum við þá líka spurt um enn þá eldra húsnæði en það sem t.d. Sólvangur starfar í, ef við værum t.d. að tala um húsnæði sjúkrahússins á Ísafirði, hið gamla húsnæði, eða húsnæði ýmissa annarra heilbrigðisstofnana sem reistar hafa verið fyrir áratugum síðan.
    Hvað Sólvang varðar sérstaklega er það svo að það sjúkrahús var byggt á árunum 1947--1953 og ekki liggur annað fyrir í gögnum heilbr.- og trmrn. en að Sólvangur hafi fengið byggingarframlög og styrki til byggingarinnar á byggingartíma eins og tíðkaðist um sjúkrahús sveitarfélaga á þeim tíma og samkvæmt þágildandi lögum.
    Varðandi St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði er það svo að árið 1983 óskuðu St. Jósefssystur, sem ráku þá stofnun og sú regla sem hafði kostað byggingu þess sjúkrahúss, að hætta rekstri spítalans. Teknar voru upp samningaviðræður við fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, fjmrn. og heilbr.- og trmrn. um það hvernig yfirtaka ríkis og sveitarfélags yrði á þeim eignum og þeim rekstri og samkomulag var gert um að það skyldi kostað á sama hátt og önnur sjúkrahús, þ.e. Hafnarfjarðarbær greiddi 15% kaupverðsins en ríkið 85%, nákvæmlega eins og gildandi lög kveða á um.
    Ef nú á að taka út úr á þennan hátt stjórnun heilbrigðisstofnana í einu sveitarfélagi finnst mér vera

mjög brotið upp það form sem að öðru leyti gildir um stjórn og rekstur allra annarra heilbrigðisstofnana í landinu og tel að með því móti væri verulega spillt fyrir því samkomulagi sem annars vegar náðist um afgreiðslu málsins hér í fyrri deild áður og einnig þeirri hugsun um stjórnun og fjárhagslega ábyrgð sem er að baki verkaskiptalögunum sem Alþingi samþykkti á síðasta ári. Þar voru ákvæði um hvernig staðið skyldi að stjórnun sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva og hið sama hlýtur að eiga að gilda um aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu eins og frv. bar með sér og eins og hv. þingdeild samþykkti hér á dögunum og nú þegar hefur verið samþykkt í Nd. þingsins. Ég legg því eindregið til, herra forseti, að þessi brtt. sem var lögð fram hér áðan verði felld.