Læknalög
Föstudaginn 04. maí 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á læknalögum nr. 53/1988, en eins og fram kom hjá hæstv. forseta voru gerðar allnokkrar breytingar á frv. þessu í meðförum Nd. Um nokkurt skeið hefur verið ágreiningur milli heilbr.- og trmrn. annars vegar og læknadeildar Háskóla Íslands hins vegar um túlkun á norrænum samningi um viðurkenningu starfsréttinda innan heilbrigðisþjónustunnar.
    Ágreiningur þessi er nú á því stigi að þess er að vænta að íslensk heilbrigðisyfirvöld verði síðar á árinu kærð fyrir samningsbrot til norrænu ráðherranefndarinnar. Tilraunir heilbr.- og trmrn. til þess að leysa úr þessu ágreiningsmáli hafa strandað á því að ákvæði læknalaganna gefa læknadeild Háskóla Íslands alræðisvald um allt sem tengist veitingu læknaleyfa og sérfræðileyfa.
    Með frv. því til breytinga á læknalögum sem ég lagði fram í Nd. fyrir nokkrum vikum síðan vildi ég freista þess að draga nokkuð úr þessu alræðisvaldi læknadeildarinnar þannig að heilbrrh. fengi nokkurt svigrúm í þessu efni. Þá var og að finna í frv. brtt. sem tæplega tveggja ára framkvæmd hinna nýju læknalaga hafði leitt í ljós að nauðsynlegar voru. Ber þar hæst hvernig túlka skuli ákvæði læknalaga um afhendingu sjúkraskráa, þ.e. hvort ákvæðið skuli vera afturvirkt eða ekki. Í frv. var gert ráð fyrir því að ákvæðið skyldi vera afturvirkt og þar m.a. stuðst við álit umboðsmanns Alþingis.
    Heilbr.- og trn. Nd. aflaði umsagna allmargra aðila og taldi með vísan til þeirra að of skammur tími væri til að fjalla um þá þætti frv. sem vörðuðu samskipti heilbrrh. og læknadeildar. Um aðra þætti frv. varð nefndin sammála að öðru leyti en því að nefndin taldi að afhending sjúkraskráa skyldi ekki vera afturvirk. Þá lagði nefndin til tvær nýjar brtt. og mun ég nú víkja aðeins að þeim breytingum sem orðið hafa á frv. eftir meðferð í Nd.
    1. Þrjár fyrstu greinar frv. sem fjölluðu m.a. um samskipti ráðuneytisins og læknadeildarinnar hafa verið felldar niður.
    2. Ákvæði læknalaga frá 1988 um afhendingu sjúkraskráa skal ekki túlka afturvirkt. Það þýðir að ákvæði læknalaganna um afhendingu sjúkraskráa ná einungis til skráa eða þess hluta sjúkraskráa sem færður er eftir 1. júlí 1988, en þá tóku ný læknalög gildi, þ.e. lög nr. 53/1988 sem hér er verið að mæla fyrir breytingum á.
    3. Lengdur er sá tími úr fjórum vikum í átta sem landlæknir hefur til að taka ákvörðun í vafatilvikum um afhendingu sjúkraskráa.
    4. Áður en heilbrrh. setur reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands skal hann leita umsagnar heildarsamtaka launafólks og vinnuveitenda.
    5. Gerðar eru breytingar á 18. gr. læknalaganna sem fjallar um eftirlitsskyldu landlæknis. Gerður er

greinarmunur á tilkynningum vegna mistaka eða vanrækslu og tilkynningum vegna skaða af læknisverki. Hvort tveggja skal tilkynna til landlæknis og skal ráðherra setja reglur um meðferð landlæknis á málum af þessu tagi.
    Þó skammur tími sé nú til þingslita vona ég að í Ed. geti náðst samstaða um afgreiðslu frv. til laga um breytingu á læknalögum með þeim breytingum sem náðst hefur samkomulag um í Nd. Ég ítreka að það varð samkomulag allra fulltrúa í heilbr.- og trn. þeirrar hv. deildar og samkomulag um afgreiðslu þess í deildinni.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.