Búnaðarmálasjóður
Föstudaginn 04. maí 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Búnaðarmálasjóð.
    Frv. byggir á tillögum sérstakrar nefndar sem skipuð var snemma á síðasta ári til að endurskoða fyrirkomulag sjóðagjalda í landbúnaði. Nefndin skilaði tillögum nú á þessum vetri sem m.a. var fjallað um á búnaðarþingi. Fyrir liggur allgóð samstaða meðal helstu hagsmunaaðila í landbúnaði um þá breytingu á fyrirkomulagi sjóðagjalda sem frv. gerir ráð fyrir. Sú breyting er í meginatriðum á þá leið að svonefnt framleiðendagjald sem áður var tekjustofn Stofnlánadeildar landbúnaðarins renni nú til Búnaðarmálasjóðs og úr Búnaðarmálasjóði til nokkurra aðila, sérstaklega þó búnaðarsambandanna, til að styrkja starfsemi þeirra og bæta þeim upp tekjumissi sem þau hafa orðið að þola á undanförnum árum vegna m.a. samdráttar í framkvæmdum í landbúnaði en þau hafa sem kunnugt er haft nokkrar tekjur af slíkum hlutum. Hv. landbn. Nd. gerði lítils háttar breytingar á frv. sem samstaða tókst um og vonast ég til þess að svo geti einnig orðið hér í hv. Ed., að um þetta mál megi takast samstaða. Það er mjög mikilvægt og þarf ekki að fjölyrða um það við hv. þingmenn, sem ég hygg að þekki það, a.m.k. flestir hverjir, að styrkja starfsgrundvöll búnaðarsambandanna sem eru mikilvægar grunneiningar í
félagskerfi bænda og landbúnaðarins. En búnaðarsamböndin hafa búið við mjög erfiðan fjárhag á síðustu árum. Þetta frv. er einnig mikilvægt, ekki bara í þessu skyni, heldur er þetta einnig mikilvægur liður í þeirri heildarendurskipulagningu og endurskoðun á gjaldakerfi í landbúnaðinum sem vonandi fylgir í kjölfarið. Má þar nefna endurskoðun á fyrirkomulagi Bjargráðasjóðs, tryggingarmálum í landbúnaði og fleira sem til stendur að athuga í framhaldi af þessari breytingu. Það verður samtímis létt af verkefnum sem hvílt hafa á Stofnlánadeild landbúnaðarins, þannig að fyrir hag deildarinnar á eftir sem áður að vera allvel séð þó hún missi þarna af nokkrum tekjustofni.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.