Búnaðarmálasjóður
Föstudaginn 04. maí 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Hér kemur eitt málið enn með miklum hraða til afgreiðslu á þessum allra síðustu dögum á Alþingi, frv. til laga um breytingar á Búnaðarmálasjóði. Þetta er eitt þeirra mála sem er óþarfi að hafa í tímaþröng á Alþingi. Þannig vill til að landbrh. fékk afhentar tillögur um breytingar á búnaðarmálasjóðsgjaldi fyrir meira en ári síðan frá nefnd sem starfaði undir forustu varaformanns fjvn. Alþingis og starfaði að tilhlutan tveggja ríkisstjórna og var tilkomin vegna óska búnaðarþings árið 1987 um tekjustofna til handa búnaðarsamböndunum og Búnaðarfélagi Íslands. Það vakti hins vegar athygli að landbrh. setti á fót aðra nefnd til endurskoðunar á þessum lögum, þriggja manna, og í henni var bara einn einasti bóndi. En eins og ekki þarf að fara mörgum orðum um fyrir þá sem til þekkja er hér um að ræða sjóð sem bændur landsins eiga, Búnaðarmálasjóð, og stór hluti af þeim sjóði og þeim útgjöldum sem til hans fara úr landbúnaðinum kemur ekki til frádráttar við kostnað í búrekstri, þannig að hér er um að ræða gjaldheimtu sem er tekin af launum bændanna í landinu að langstærstum hluta. Og það er fullkomlega óeðlilegt að valdir séu að meiri hluta embættismenn til þess að fjalla um fjármál sem eru nánast einkafjármál bændanna í þessu landi.
    Eins og ég gat um áðan var það meginmarkmið þessarar endurskoðunar að styrkja hag búnaðarsambandanna í landinu og Búnaðarfélags Íslands. Og eins og frv. er núna komið hér til deildarinnar eftir breytingar í Nd., þá samrýmist afgreiðsla þess þeim sjónarmiðum. Um er að ræða umtalsverða breytingu til hins betra á kjörum búnaðarsambandanna eftir þessa breytingu. Þó að ekki sé út af fyrir sig stórfé sem samkvæmt þessu rennur til Búnaðarfélags Íslands er ekki fjarri lagi að það valdi kostnaðinum við það sem menn kalla félagslegan þátt í starfsemi Búnaðarfélagsins, en á því var gerð sérstök úttekt, hvað væri eðlilegt að færa til reiknings hjá bændunum sjálfum og hins
vegar hjá ríkisvaldinu af kostnaði við Búnaðarfélag Íslands. Hér hefur þess vegna náðst fram þetta meginmarkmið. Það er þó ýmislegt sem hefði mátt fara betur og ég er sannfærður um að hefði verið breytt til betri vegar ef tími hefði unnist til þess, sumt mikilvæg atriði. Ég nefni í því sambandi sérstaklega innheimtufyrirkomulagið á Búnaðarmálasjóði sem er algjörlega úrelt. Eins og lögin gefa til kynna og eins og sú framkvæmd er þá er búnaðarmálasjóðsgjald innheimt í sérstakan sjóð, Búnaðarmálasjóð, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur í vörslu, og þaðan er það aftur greitt til búnaðarsambandanna og þeirra aðila sem Búnaðarmálasjóðurinn dreifist til.
    Það er reynsla fyrir því að þessi innheimta er lengi á leiðinni. Bændurnir eru t.d. búnir að borga búnaðarmálasjóðsgjöld jafnvel mörgum mánuðum áður en peningarnir koma aftur til baka til búnaðarsambandanna. Hér hefði skipt miklu máli að koma á skilvirkari greiðslu þannig að þessir fjármunir

færu alls ekkert úr héraði. Sá hluti sem á að ganga til búnaðarsambandanna á auðvitað ekkert að fara úr héraði heldur að greiðast beint til þeirra og ganga svo inn í eðlilegan uppgjörsmáta eftir sem áður. Ekki er heldur nógu skýrlega tekið fram í frv. að auðvitað er ekki hægt að innheimta gjald til einhverra sérstakra sambanda eða aðila af öðrum en þeim sem eru þátttakendur í þeim. Það stenst auðvitað ekki. Ég vek athygli á því að það eru u.þ.b. 2 / 3 , kannski meira því að það er svo miklu betri innheimtan hjá hefðbundnum búgreinum að vel má vera að það séu um 3 / 4 af öllum þessum tekjum sem koma þá frá hinum hefðbundnu greinum, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Auðvitað er það mikið fé. Í fyrsta lagi er óeðlilegt að dreifa því til annarra greina vegna þess hvernig féð er tilkomið, vegna þess að þetta er, eins og ég sagði áðan, hluti af laununum. Og það gengur heldur ekki að innheimta af öðrum en þeim sem eru þátttakendur í þeim félagsskap sem greiðslu kann að fá. Ég geri ráð fyrir því að framkvæmdin verði með þessum hætti, annað væri ósæmilegt, og að við reglugerðarákvörðun verði þetta tekið fram með skilvirkum hætti, svo fremi ekki verði gengið frá því við afgreiðslu málsins nú við 2. umr.
    Ég tek hins vegar skýrt fram að þetta frv. er til bóta. Þar nást fram þau meginmarkmið sem búnaðarsamböndin settu sér og Búnaðarfélag Íslands með breytingunum í Nd. og með þeim breytingum var líka svipt í burtu ákvæðum sem undir engum kringumstæðum hefðu verið ásættanleg við afgreiðslu á þessu máli.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, vonast til þess að með mál sem þessi sem eru út af fyrir sig nokkuð viðkvæm, og þetta er ekki svo lítið mál, hafi hæstv. landbrh. fengið þann lærdóm að þau verði unnin í samvinnu við bændasamtökin, Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands. Búnaðarþing árið 1989 óskaði eftir því með formlegum hætti að verða aðili að þessari endurskoðun og búnaðarþing árið 1990, það sem haldið var á sl. vetri, þurfti að ganga hart eftir að fá drög að því frv. sem hér hefur síðar verið gengið frá. Frv. í þessu horfi var ekki lagt fyrir búnaðarþing og mér er vel kunnugt um það og ber þar fyrir mig orð þess manns sem var í fyrirsvari fyrir þessu máli á búnaðarþingi að umfjöllunin fékkst með sérstökum eftirgangsmunum. Og það dugir ekki að vinna með þeim hætti.
    Ég er hins vegar þakklátur fyrir það hvernig landbúnaðarnefndir Alþingis, bæði Nd. og Ed., hafa brugðist við þessu máli. Eins og ég sagði áðan er það til verulegra bóta. Það felur í sér þá stefnu sem eftir var leitað, að styrkja faglega starfsemi, þróunarstarfsemi, í íslenskum landbúnaði sem er okkur alveg bráðnauðsynleg. Þess vegna er það spor í rétta átt að frv. verði samþykkt í því horfi sem það er eftir að Nd. Alþingis hefur gert á því mjög mikilvægar breytingar.