Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegur forseti. Ég er frsm. nefndarinnar sem flytur þetta mál. Það er frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.
    Nefndin hefur haft til umfjöllunar frv. hv. þm. Friðriks Sophussonar og Inga Björns Albertssonar um breytingu á tekju- og eignarskattslögum, sem var 510. mál þingsins. Það frv. miðaði að því að auka rétt eftirlifandi maka til að nýta persónuafslátt látins maka. Við athugun nefndarinnar kom fram að gera þyrfti ýmsar breytingar á frv. til að hægt væri að ná fram markmiðum þess. Ákvað nefndin að velja þann kost að flytja sjálfstætt frv. um málið sem hér liggur fyrir á þskj. 1209.
    Samkvæmt gildandi lögum getur eftirlifandi maki nýtt sér persónuafslátt hins látna á því almanaksári sem andlát makans bar að. Eftirlifandi maki getur þannig nýtt sér persónuafslátt látins maka í einn til tólf mánuði eftir því hvenær árs maki lést. Samkvæmt þessum ákvæðum er það háð því hvenær andlát ber að innan ársins hve mikinn persónuafslátt eftirlifandi maki getur nýtt sér.
    Í frv. nefndarinnar er gert ráð fyrir að réttur eftirlifandi maka til að nýta persónuafslátt þess maka er fellur frá verði sá sami í öllum tilvikum. Þannig geti allir sem missa maka sinn nýtt persónuafslátt hins látna maka í jafnlangan tíma. Lagt er til að þessi réttur vari í fulla níu mánuði frá og með þeim mánuði er maki féll frá.
    Virðulegi forseti. Þar sem nefndin flytur þetta frv. sjálf er ekki lagt til að vísa því til nefndar heldur einungis til 2. umr.