Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 04. maí 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirrar brtt. sem hv. þm. Geir Gunnarsson var að gera grein fyrir.
    Ég vil fyrst þakka heilbr.- og trn. fyrir að hafa unnið bæði fljótt og vel að málinu. Þetta er stórt mál sem búið er að fá mikla umfjöllun hér í þingi og hefur tekið langan tíma. Miklar umræður urðu um það fyrir áramótin. Reyndar kom þá fram nokkur ágreiningur um það hvernig staðið yrði að stjórnunarmálum heilbrigðisstofnana. Rétt er að rifja það aðeins upp að í verkaskiptalögunum sem samþykkt voru á seinasta þingi var gert ráð fyrir því að stjórnir svokallaðra sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva yrðu með þeim hætti að þær störfuðu í umboði ráðuneytis og ráðherra skipaði einn fulltrúa í þær stjórnir. Að öðru leyti væri meiri hluti stjórnanna skipaður af þeim sveitarfélögum þar sem viðkomandi stofnun starfaði. Samkvæmt því tilnefna sveitarstjórnirnar þrjá fulltrúa í þessar stjórnir.
    Það er álit mitt og þeirra sem um frv. fjölluðu þegar verið var að undirbúa þetta frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu að eðlilegt væri að sama gilti um allar heilbrigðisstofnanir, utan ríkisspítalanna að sjálfsögðu sem hafa sérstakt stjórnarfyrirkomulag, og sjálfseignarstofnanirnar. Um aðrar stofnanir gilti sama fyrirkomulag og með þessar sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. Var það reyndar álit þeirra sem fjölluðu um frv. á þinginu í fyrra að eðlilegt væri að það yrði tekið til endurskoðunar og málin samræmd þegar endurskoðun þeirri á þessum lögum sem þá var í gangi í heilbrrn. yrði lokið og það kæmi fram í nýju frv. á haustþingi. Það var einmitt það sem gerðist á sl. hausti.
    Miklar umræður urðu, einkum um hvernig staðið yrði að málum á Borgarspítalanum. Þar sem svo háttar til að verulegur hluti af starfsemi Borgarspítalans er rekinn í húsnæði sem borgin á ein, hefur alfarið kostað sjálf og ríkissjóður ekki tekið þátt í, þótti eðlilegt að á meðan svo háttaði giltu önnur viðhorf til stjórnunar á Borgarspítalanum. Um þetta varð samkomulag.
    Ég átti viðræður við borgarfulltrúa og borgarstjóra um þetta mál. Samkomulag varð um að standa þannig að því að stjórnunarform Borgarspítalans verði óbreytt, borgarstjórn tilnefni þrjá fulltrúa þar og starfsmenn tvo, svo sem fram kemur í frv. eins og það kom frá Ed. En að með allar aðrar heilbrigðisstofnanir verði sami háttur og með sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar, að sveitarfélögin tilnefni þrjá fulltrúa, starfsmenn stofnunarinnar einn og ráðherra einn og stjórnirnar starfi í umboði ráðherra eða að ráðherra skipi stjórnirnar.
    Þetta er auðvitað byggt á þeirri forsendu fyrst og fremst að það sama gildi um alla aðila, að sami háttur hefur verið hafður á um uppbyggingu þessara stofnana eftir því sem best er vitað. Hvað varðar stofnanir í Hafnarfirði er ekki nein breyting eða annað viðhorf þar gildandi en t.d. í Keflavík, svo tekið sé nærtækt

dæmi af heilbrigðisstofnun í sama kjördæmi, eða öðrum sjúkrastofnunum, þar með talin reyndar bygging Borgarspítalans í Fossvogsdalnum, sem er, eins og fram kom hjá hv. 5. þm. Reykn., meginstarfsstöð Borgarspítalans. Er alveg ljóst að þegar rætt er um Borgarspítalann þá tala menn nú kannski fyrst og fremst um starfsemina sem þar er og þau húsakynni. Allar eru þessar byggingar reistar samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma og hafa hlotið stuðning úr ríkissjóði eins og gilt hefur og átt við samkvæmt lögum þess tíma.
    Varðandi Hafnarfjörð sérstaklega þá er það svo með Sólvang að það er auðvitað hús sem er löngu byggt. Það var 1944 sem ákveðið var að hefja undirbúning þeirrar byggingar og hófust framkvæmdir þar 1947 og var lokið 1953. Menn sjá að hér er um að ræða nokkuð gamla byggingu og svo á auðvitað við víðar um land, þar eru sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem reistar voru fyrir fjölmörgum árum, jafnvel áratugum síðan. Í gögnum heilbrrn. liggur ekki annað fyrir en að Sólvangur hafi fengið byggingarframlög og styrki til byggingarinnar á byggingartímanum eins og tíðkaðist um sjúkrahús annarra sveitarfélaga á þeim tíma, eins og ég hef hér gert grein fyrir.
    Varðandi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hins vegar er um að ræða nokkuð aðra sögu. Eins og menn vita var það sjúkrahús reist og rekið af sérstakri reglu. En árið 1983 óskuðu St. Jósefssystur, sem ráku og sáu um þetta sjúkrahús, eftir því að hætta rekstri spítalans. Eftir ítrekaðar viðræður varð samkomulag um það á árunum 1987 og 1988. Aðild að því samkomulagi áttu fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, heilbrrn. og fjmrn. Gert var ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær greiddi 15% af kaupverði þess sjúkrahúss, sem var um 130 millj. kr., og ríkið greiddi 85%. Það giltu því alveg sömu reglur um kaupverð þessarar stofnunar, eða húsnæði þessa sjúkrahúss, og gilda um kaup og byggingar slíks húsnæðis í dag. Þess vegna er ekki sýnilegt að fyrir liggi neinar breytingar eða neitt uppgjör eða nýtt samkomulag um hvernig staðið
verði að málum þar á næstunni, eins og liggur fyrir að gert verði varðandi Borgarspítalann, samkvæmt minnisblöðum sem gengið hafa milli ríkisstjórnar og borgarstjóra eða borgaryfirvalda í Reykjavík.
    Þess vegna verð ég, herra forseti, að leggja til að sú brtt. sem flutt er af hv. þm. Geir Gunnarssyni og fleiri þingmönnum Reykn. verði felld vegna þess að ella er hér verið að viðhafa allt annan hátt varðandi stjórnunarþátt sjúkrastofnana í Hafnarfirði en á við um sjúkrahús í öðrum sveitarfélögum. Það sýnist mér ekki vera á nokkurn hátt samræmanlegt eða hægt að finna fyrir því rök miðað við að það sjónarmið gildi sem frv. í upphafi byggði á, að saman færi stjórnun og rekstrarleg ábyrgð á þeim stofnunum sem ríkið hefur yfirtekið samkvæmt verkaskiptalögunum. Þessi eina undantekning sem liggur fyrir í frv. eins og það lítur út frá Ed. með Borgarspítala á sér allt aðrar forsendur, eins og ég hef gert grein fyrir. Það mál verður rætt við borgaryfirvöld á næstu mánuðum. Stjórnunarmálin

á Borgarspítalanum verða þá tekin til endurskoðunar. Ég er ekki að gefa mér neina niðurstöðu fyrir fram um það hvernig það mál fari. Niðurstaðan verður í samræmi við það uppgjör sem um kann að semjast við borgaryfirvöld.
    Ég legg því til að þessi brtt. verði felld, herra forseti.