Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 04. maí 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég óskaði eftir því að hæstv. forsrh. væri viðstaddur vegna þess að ég ætla ekki að tala lengi og tefja þetta mál. Ég verð að vekja athygli hæstv. forsrh. og sjútvrh. og annarra sem hlusta á mál mitt á því að kl. er að verða hálftvö. Þetta mál, mikilvægasta mál þjóðarinnar frá því að ég kom á þing, er hér til umræðu. Og ég veit ekki annað en það eigi að slíta þinginu á morgun.
    Það blasir við að það hljóta að verða fundir hér í allan dag og fram á nótt. Ég veit ekki hvort nefndir sætta sig við að vinna á sama tíma og þingfundur stendur yfir. Það fer náttúrlega eftir þeim málum sem um er rætt hvort menn vilja hliðra þannig til.
    Ég held að ef þingið ætlar að komast frá þessu máli með sæmilegu móti eða sóma, ég ætla ekki að kveða fastara að orði, þá sé ekki um annað að ræða en fresta þingi fram í júní. Ástæður fyrir því eru þær að þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð þá fengu mín samtök sett inn í stjórnarsáttmálann að það yrði sett sérstök fiskvinnslustefna. Nú sýnist mér þetta eina tækifærið á þessu kjörtímabili til þess að gera það. Ég vil vekja athygli á því að 13 menn voru í ráðgjafarnefnd sem svo hefur verið kölluð og hæstv. sjútvrh. lét tilnefna og tíu af þeim lögðu áherslu á byggða- eða fiskvinnslukvóta í einhverri mynd. Hvar er það stig? Var það, hæstv. forsrh., aðeins til að fá mig og mín samtök til að mynda stjórnina, þannig að stjórn Steingríms Hermannssonar var hægt að mynda, að þetta var sett inn í stjórnarsáttmálann? Var það bara það? Átti aldrei að standa við það frekar en sumt annað?
    Ég vonast til þess að fá svör við þessu. Ég tel það nauðsynlegt. Ég tel það nauðsynlegt vegna þess að ég hef þann skilning og af því ég hef þann skilning þá læt ég það koma hiklaust fram að þetta mál snúist um það hvort byggðirnar
sumar hverjar halda velli eða ekki, þ.e. að fiskvinnslan fái hluta af kvótanum og geti þá samið við skipin um að veiða hann eða með því móti að fá þá afla skipanna sem þau hafa.
    Ég vil ekki tefja hér tímann en vil samt áður en ég sest minna á það að fyrir okkar samtök í þessari ráðgjafarnefnd var Jóhann A. Jónsson, oddviti og framkvæmdastjóri á Þórshöfn. Hann var með sérstaka bókun í þessu máli. Og við höfum orðið vör við að hans afstaða í nefndinni hefur leitt það af sér að ég hef engan frið fyrir fólki sem er að hringja og skrifa um þessi mál utan af landi. Alveg sama hvar í flokki menn eru, það skiptir ekki máli.
    Þess vegna vil ég beina því til bæði hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh., við höfum nú tekið spjall saman um þetta í fyrra sumar og í vetur, hvort það sé ekki skásta leiðin, það er engin góð leið út úr þessu máli, að fresta þingfundum fram í júní og vita hvort ekki er hægt að finna leið til þess að taka eitthvert skref í þessu máli og standa nú við stóru orðin. Standa nú við stóru orðin. Ég ætla ekki að lesa upp bókun

Jóhanns A. Jónssonar, hún er í skjölum hér og nefndirnar hljóta að hafa hana. En mér finnst þessi vinnubrögð, að klukkan er orðin hálftvö og ef þetta á að fara svona hefði verið sæmra blátt áfram, þó það sé kannski ekki hægt samkvæmt þingsköpum, að vísa málinu bara alls ekkert til nefndar því það eru engin tök á að gera neitt annað en að afgreiða það eins og það er. Ég var að vonast eftir því að ég hefði tíma til að koma með brtt. Maður er nú búinn að vera hér fram á nótt nótt eftir nótt og á fundi í morgun og ég er ekki beysnari en það að ég get ekki tekið þann stutta tíma sem ég fæ að hvíla mig heima til þess að koma saman tillögu sem ég mundi hampa aftur síðar og ræða um. En hver veit hvað ég get áður en lýkur.