Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 04. maí 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því sem hér hefur komið fram. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Hreggviðs Jónssonar vil ég benda á það að í ákvæði til bráðabirgða VII er tekið fram að eitt af þeim verkum sem skuli unnið nú á næstunni sé að kanna hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Ég tek undir það með honum að slík könnun hefur ekki farið fram með því móti sem æskilegt væri. Einfaldlega vegna þess að menn hafa verið uppteknir við aðra hluti. Ég vænti þess að það komi til móts við þau sjónarmið sem hann setti hér fram.
    Út af orðum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um fiskvinnslustefnu, þá tel ég að það hafi verið lögð áhersla á það mál í sjútvrn. Ég svaraði fyrirspurn um það mál sem varamaður hans, sem hann nefndi hér, Jóhann A. Jónsson, lagði fram hér á þinginu. En að því er varðar úthlutun á fiskveiðiheimildum til fiskvinnslustöðva þá er það, eins og hv. þm. veit, mjög umdeilt mál og var ítarlega um það fjallað í ráðgjafarnefndinni og það hefur ekki náðst nein samstaða um það. Hins vegar má taka tillit til fiskvinnslustöðvanna með ýmsum öðrum hætti og það er leitast við að gera það í þessu frv. Jafnvel þótt mönnum finnist það ekki vera með fullnægjandi hætti. Það er hins vegar svo í þessu máli eins og öllum öðrum að það verður ekki gengið frá neinu í þessum efnum sem á að gilda um alla framtíð. Þetta stóra mál hlýtur að verða til endurskoðunar í framtíðinni í ljósi aðstæðna hverju sinni og þá hljóta menn að taka tillit til reynslunnar eins og gert hefur verið.
    Eitt af því sem þarf að taka mikið tillit til er fiskvinnslan í landinu. Ég vildi jafnframt aðeins segja vegna fyrirspurnar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Það var að því er varðaði ákvæði til bráðabirgða V þar sem kemur fram að óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips, skv. 3. mgr. 11. gr., án þess að skip hverfi varanlega úr rekstri og sé afmáð úr skipaskrá nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu er lög þessi koma
til framkvæmda. Þetta á við öll þau veð sem eru á skipum þegar lögin koma til framkvæmda, þann 1. jan. nk. En að því er varðar veð sem kunna að koma á skip eftir þann tíma þurfa aðilar máls að hafa slíkt í huga og ef þeir vilja fá frekari tryggingar í þeim efnum þarf að geta þess í veðskuldabréfum að ekki sé heimilt að yfirfæra afla frá skipunum nema með samþykki veðhafanna en það þurfa aðilar að semja um sjálfir. Það er eðlilegt að aðilar þurfi að huga að þessu sjálfir eftir þennan tíma en hins vegar óeðlilegt að slíkar tryggingar séu afmáðar með löggjöf að því er varðar allt sem hvílir á skipum í dag. Ef hv. þm. vill fá frekari upplýsingar um þetta mál mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því að það verði upplýst við meðferð málsins í hv. sjútvn.
    Að lokum þakka ég fyrir hvað mál þetta hefur fengið mikinn skilning hér í deildinni. Ég get vel skilið þá gagnrýni sem fram kemur, að hér sé mjög stuttur tími. En ég vænti þess að hinn langi

undirbúningur málsins og aðild þingflokkanna að því sé mikil réttlæting að því er varðar það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, að afgreiða málið á þeim stutta tíma sem er til stefnu. Það er eðlileg gagnrýni, en í ljósi þess hvað þetta hefur fengið langan undirbúning tel ég það réttlætanlegt en skil hins vegar þá gagnrýni sem höfð er í frammi.