Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég var nú fyrst að sjá þskj. 1246 sem hæstv. forsrh. var að kynna hér og hef ekkert heyrt um efni þess þó að ýmislegt af því sé hið sama og áður var fram komið í tillögum hæstv. forsrh. á þskj. 1065. Það eru orðnar nokkrar vikur síðan ég setti mig á mælendaskrá í þessu máli, hef ekki eytt miklum tíma hér í hv. þingdeild á liðnum vetri til að ræða þessi mál og hefði þó verið ærin ástæða til þess. Satt að segja hefur mér fundist að málsmeðferðin hér og umræða um þetta þingmál hafi verið átakanleg. Það á auðvitað fyrst af öllu við málflutning hv. þm. Sjálfstfl. í þessu máli þar sem fram hafa verið borin rök af þeirra hálfu, sem þeir hafa viljað telja rök, en að mínu mati hefur verið mikil rökleysa og fyrirsláttur til þess að hindra enn framgang málsins og að umhverfisráðuneyti fengi í raun verkefni og gæti orðið að því gagni sem til er stofnað.
    Ég ætla ekki hér að hefja langt mál um þennan málflutning, vil aðeins segja að það er nokkuð sérstakt þegar menn leggja sig í framkróka til þess að taka upp orð og hugmyndir embættismanna sem setja sig þversum gagnvart öllum breytingum á Stjórnarráði Íslands. Það hefur verið uppistaðan í því andófi sem fram hefur farið og þeim löngu ræðum og tilvitnunum sem lesnar hafa verið ein af annarri úr þessum ræðustól. Ein fjarstæða hefur þó gengið lengra en aðrar í þeim efnum og það er þegar menn eru að bera við alþjóðasamþykktum eða hugmyndum af vettvangi Sameinuðu þjóðanna og svonefndri Brundtland-skýrslu máli sínu til stuðnings gegn umhverfisráðuneyti. Það er satt að segja svo langsótt að má heita með fádæmum að þingmenn á árinu 1990 skuli viðhafa slíkan málflutning og þar hefur fram gengið.
    Það er líka mjög sérstætt hversu einstakir embættismenn í Stjórnarráði Íslands hafa gengið langt í þeim efnum að vinna gegn stefnu stjórnvalda til þess að koma við nauðsynlegum leiðréttingum í yfirstjórn umhverfismála. Mætti
um það margt segja en það skal sparað hér. Ég verð jafnframt að segja að ég tel að málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar á þessu máli og þeirra sem hafa haft forustu um það hér í þingdeildinni og þinginu hafi ekki verið sem skyldi.
    Hér voru gefnar yfirlýsingar í lok síðasta þings um meðferð málsins og upptöku þegar í byrjun þessa þings. Það gekk því miður ekki eftir og málið hefur verið að druslast hér í þingdeildinni allt þingið og það er nú á lokadögum sem koma á einhver botn í málið. Og það gildir einnig að hæstv. umhvrh., sem tyllt var stóli undir á nýliðnum vetri, hefur ekki orðið sérstaklega til þess að greiða fyrir framgangi máls eða eðlilegri málsmeðferð hér og það ber vissulega að harma. En við skulum vona að þingið sé að ná einhverjum áttum í þessu máli með þeim brtt. sem hér liggja fyrir og því samkomulagi sem mér er tjáð að sé orðið milli aðila hér um meginþætti málsins og málsmeðferðina á næstunni þó að það sé auðvitað

enginn lokapunktur í þessu máli eins og sjá má af þeim tillögum sem hæstv. forsrh. ber hér fram. Ég tel þær breytingahugmyndir og tillögur sem þar eru á döfinni ekki til bóta í raun frá frv. eins og það var lagt hér fyrir og þar vera margt að finna sem horfir ekki til rétts vegar í þessum efnum. Hins vegar tel ég að sá stofn sem þó stendur eftir sé þess virði að reyna að hlúa að honum þannig að innan ekki langs tíma geti menn fengið ráðuneyti sem sé þess megnugt að reyna að stilla saman í sambandi við meðferð umhverfismála í stjórnsýslunni hjá okkur. Það er nefnilega ástæða til að hafa af því verulegar áhyggjur hvernig málin standa vegna hinnar sundruðu málsmeðferðar í Stjórnarráðinu. Ég hef þóst sjá þess merki við meðferð mála í iðnn. að undanförnu varðandi frv. til laga um raforkuver, sem tengist hugsanlegri stórri álbræðslu, að einmitt varðandi umhverfisþáttinn séu háskalega losaraleg tök á ferðinni vegna þess að í rauninni er enginn samstillandi kraftur til þess að halda utan um málið.
    Hér liggja fyrir ýmsar brtt. við þetta frv. Ég mun taka afstöðu til þeirra eftir efnum. Ég tel t.d. að brtt. sem fyrir liggja á þskj. 720, þar sem hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir er 1. flm., horfi til bóta frá upphaflegu frv. og ég mun styðja þær þegar þær koma til atkvæða. Ég mun að öðru leyti styðja þær till. sem hér eru til samkomulags í sambandi við málið. Og við skulum vona að menn nái lendingu í þessu máli sem forði þinginu frá því að skilja við þetta mál þannig að hafa samþykkt lög um stofnun ráðuneytis án þess að verkefni fylgi og menn komi nú einhverjum efnum þar í hús. Við skulum vona að málsmeðferðin framvegis varðandi þennan þýðingarmikla málaflokk beri annan svip en verið hefur í þinginu á undanförnum mánuðum.