Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að þrátt fyrir að ég hafi tekið þátt í þeim samningaumræðum sem hér hafa verið varðandi þetta mál höfum við kvennalistakonur ekki fallið frá því að flytja þær brtt. sem fram koma á þskj. 720, þar sem við teljum mjög nauðsynlegt að enn frekari verkefni fari til umhvrn. Þær munu því væntanlega koma hér til atkvæða á eftir, nema 3. tölul. þeirra brtt. sem er búið að taka nokkurn veginn upp í till. forsrh. Ég mun falla frá 3. tölul. á þskj. 720 en styðja brtt. við 8. gr. sem kemur fram á þskj. 1246.
    Ég hefði þó talið eðlilegra að þessi breyting við 8. gr. tæki ekki gildi fyrr en síðar. Ég hefði talið æskilegt að ráðrúm gæfist til þess hér á Alþingi næsta haust að leggja fram frekari brtt. við lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Núverandi skipan er sú að stjórn Hollustuverndar ríkisins, sem skipuð er af heilbr.- og trmrh., fer einnig með stjórn mengunarvarna. En eftir að þessi skipan verður komin á mun hluti Hollustuverndar falla undir heilbrrn. og hluti undir umhvrn. Ég hefði talið eðlilegra að hafa sérstaka stjórn fyrir mengunarmálin. Ekki svo að skilja að það geti ekki verið allt í lagi að hafa báða þætti undir sömu stjórn, en í þessu tilviki held ég að hitt væri miklu eðlilegra. Þess vegna flyt ég brtt. við brtt. á þskj. 1246 ásamt hv. 5. þm. Vesturl. Inga Birni Albertssyni og 2. þm. Reykn. Ólafi G. Einarssyni. Brtt. er við 4. tölul. á þskj. 1246 og á við 21. gr. Við bætist nýr málsl. sem verði 2. málsl. og orðist svo: Ákvæði 8. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. nóv. 1990.
    Ég vona að með því að fresta gildistöku þessarar greinar muni vera hægt að koma þeirri skipan á varðandi Hollustuvernd, og þá fyrst og fremst mengunarvarnir, að allar mengunarvarnir, bæði þær sem nú falla undir Hollustuvernd svo og Siglingamálastofnun o.fl., muni fara undir eina yfirstjórn til betri og skilvirkari stjórnunar.
    Ég vil, virðulegur forseti, leggja þessa brtt. fyrir hér.