Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það er ekki umdeilt að sú staða er nú í íslenskum sjávarútvegi að afkastageta flotans er miklu meiri en þau verkefni sem hann hefur. Skaði þjóðfélagsins af þessum ástæðum er verulegur. Með upptöku kvótakerfisins voru Íslendingar að þreifa sig inn á þá braut að stýra veiðum eftir að við höfðum náð fullum yfirráðum yfir okkar fiskveiðilandhelgi. Þar áður hafði verið búið við kerfi sem byggðist á því að takmarka sókn á þann hátt að banna mönnum veiðar svo og svo langan tíma á ári. Það er ekki aðeins að fiskiskipaflotinn hafi stækkað heldur hefur öll tækni til að fylgjast með fiskinum í sjónum, þ.e. tækjakostur allur, mjög batnað. Við höfum mátt fylgjast með því að undanförnu að stöðugt hefur hallað undan fæti hvað það snertir að ósamræmið á milli þess sem hægt var að veiða með skipakosti landsmanna og þess sem leyft var að veiða fór alltaf vaxandi. Ég tel þess vegna að með frv. sé stigið mjög stórt og jákvætt skref í stefnumörkun til þess að komast af þeirri braut sem menn hafa verið á.
    Mér er hins vegar ljóst að þetta skref í framkvæmd er ekki jafnstórt og það þyrfti að vera. Ég held aftur á móti að skilningur verði að vera á því að fá skref og lítil geta verið upphaf á langri ferð.
    Í fyrsta lagi ber að gera sér grein fyrir því að þær fjárhæðir sem teknar eru til þessa verkefnis eru teknar frá sjávarútveginum en jafnframt skilað til sjávarútvegsins. Hér er því ekki um skattheimtu í þeirri merkingu að ræða því að skattheimta byggist á því að taka fjármuni og verja þeim til alls óskyldra verkefna. Ég held að menn verði líka að gera sér grein fyrir því að það er ekki sá flötur uppi í dag eftir að það tímabil hefur staðið jafnlengi og nú að fært sé með neinum ráðum að taka úr umferð skip eða svipta þau veiðiréttindum á annan hátt en að kaupa þann rétt. Það er sá blákaldi veruleiki sem við blasir.
    Mér er ljóst að sumir hverjir eru andvígir því að sjávarútvegurinn eigi með þessum lögum að taka þátt í því að bera ábyrgð á byggðunum við ströndina hringinn í kringum landið. En eins og íbúðirnar í fiskiskipunum sjálfum eru hluti af þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í landinu svo hægt væri að stunda fiskveiðar við landið má segja að íbúðarhúsin á ströndinni séu hluti af þeirri uppbyggingu. Og það er ekkert réttlæti í því að líta svo á í þeirri skipulagsbreytingu sem orðið hefur að sjávarútvegurinn eigi aðeins að bera ábyrgð á íbúðunum um borð í fiskiskipunum en ekki íbúðunum sem eru á ströndinni og eru byggðar af sömu þörf fyrir sama fólkið.
    Ég tel þess vegna að þær breytingar sem orðið hafa á frv. frá því að það kom fyrst fram í fyrra í verulega annarri mynd séu mjög af hinu góða. Og ég vara við þeim hugsunarhætti sem mér heyrist þó nokkuð bera á að atvinnugreinin geti skipulagt sig án þess að taka tillit til byggðanna. Mig langar til, herra forseti, í því sambandi að minna á eitt frægasta ritverk

Johns Steinbecks, Þrúgur reiðinnar. Ég held að það sé holl lesning fyrir hvern og einn að lesa það skáldverk til að átta sig á hverjar afleiðingar tæknibreytinga geta verið ef tæknibreytingarnar fá að hafa fullt frelsi til að ráðskast með sitt umhverfi án þess að mannlegi þátturinn sé jafnframt skoðaður. Þess vegna tel ég að sjútvn. Ed. hafi unnið þarft verk með þeim breytingum og þeirri vinnu sem hún hefur lagt í frv. og fagna því að þau skref skuli vera tekin sem stuðla að því að á næsta áratug má gera ráð fyrir að hægt verði á ný að hafa meiri aflaheimildir á hvert veiðiskip á Íslandi, við séum að stefna í þá átt að nýta betur veiðiflotann en við höfum gert.
    Mér er ljóst að hugmyndir manna eru mjög skiptar um þessa hluti. Sumir hafa viljað halda því fram að hér eigi að leggja á auðlindaskatt. Sá skattur yrði þá fyrst og fremst á landsbyggðina vegna þess að þar er mestallur flotinn staðsettur. En ég vara við því að rugla saman þeirri tekjuöflun sem hér er verið að fara fram á og því hugtaki sem felst í því að leggja á auðlindaskatt.