Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. minni hl. félmn. (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. félmn. um þetta frv. Nefndin hefur ekki haft mikinn tíma til þess að fara í saumana á þessu máli þó svo einstakir nefndarmenn hafi að því komið á fyrri stigum með ýmsum hætti. Þess vegna hafði nefndin ekki mikið svigrúm til að rannsaka margt af því sem lagt er til með frv. og sem vissulega hefði þurft að gera betur en í ljós hefur komið að gert var í þeirri undirbúningsvinnu sem lá að baki þessari frumvarpssmíð.
    Engu að síður lagðist 1. minni hl. nefndarinnar ekki gegn því að frv. yrði afgreitt úr nefndinni en boðaði það í nefndinni að fluttar yrðu brtt., margar og ítarlegar, við þetta frv. Þær liggja fyrir á þskj. 1195 frá okkur hv. 3. þm. Suðurl. Eggerti Haukdal.
    Ég gat þess hér við 1. umr. um málið að ýmsar upplýsingar um fjárhagslegar afleiðingar frv. og fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna vantaði í grg. með frv. og að ekki hefðu komið fram upplýsingar um þessa þætti í vinnslu málsins hér í þinginu. Í nefndarstarfinu kallaði ég eftir upplýsingum um þetta efni og þær hafa borist að nokkru leyti. Það liggur m.a. fyrir að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur á einhverju stigi málsins sent frá sér lítið bréf þar sem komist er að þeirri niðurstöðu í skyndingu, að því er fram kemur, að frv. hafi ekki veigamiklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir ríkissjóð þar sem ætla megi að ákvæði þess til útgjaldaaukningar standist að einhverju leyti á við ákvæði þau sem horfa til sparnaðar í frv.
    Þetta álit var hins vegar, eins og ég segi, frekar ófullkomið og útbúið á því stigi málsins þegar það var til vinnslu í ríkisstjórn. En mér sýnist við skoðun málsins að þessi þáttur sé nokkuð óviss þó vissulega séu bæði
atriði í frv. sem horfi til sparnaðar fyrir ríkissjóð og útgjaldaaukningar. En meginatriði frv. eru engu að síður skipulagslegs eðlis, en ekki þess eðlis hins vegar að um sé að ræða verulegar breytingar á útgjöldum á þessu sviði.
    Í nefndarstarfinu var álit Fjárlaga- og hagsýslustofnunar lagt fram og hyggst ég ekki gera það að frekara umtalsefni og heldur ekki þau drög að ársreikningum Byggingarsjóðs verkamanna sem nefndarmönnum voru afhentir þar sem þeir reikningar eru ekki endanlega frágengnir. Eigi að síður er unnt að láta það koma fram að fjárhagsstaða sjóðsins er slæm og fer versnandi með ári hverju. Um er að ræða hundruð milljóna kr. tap á þessari starfsemi, ef það má orða það þannig. Það er gengið á eigið fé sjóðsins um hundruð milljóna kr. á ári og því trúlegt að hann verði gjaldþrota eða fé hans allt upp urið innan stutts tíma, jafnvel tíu ára. Það er vissulega áhyggju- og umhugsunarefni hvernig skuli brugðist við í því efni. En um þetta mikilvæga atriði er ekkert fjallað í frv. og hlýtur það að sæta nokkurri furðu.
    Við sem ritum undir álit 1. minni hl. nefndarinnar erum þeirrar skoðunar að það hefði þurft að fjalla

mun betur og nánar um veigamikil efnisatriði í frv. Og við bendum enn á það að Sjálfstfl. hefur ekki haft aðstöðu til þess að koma nærri þessum málatilbúnaði fyrr en nú hér í þinginu og hefði verið skynsamlegast að láta þetta mál kyrrt liggja í sumar og skoða það betur með það fyrir augum að leggja hér fram í haust nýtt frv. sem víðtækari samstaða væri um.
    Ég hef látið þau orð falla að frv. sé að mörgu leyti fljótfærnislega úr garði gert og segir í nál. 1. minni hl. að frv. sé hroðvirknislega unnið og hafi fundist í því villur af hinu furðulegasta tagi. Þannig háttar til, herra forseti, að þótt við 3. þm. Suðurl. Eggert Haukdal höfum ekki enn verið ráðnir í þjónustu félmrn. sem prófarkalesarar þá höfum við hins vegar komið auga á ýmsar ambögur í frv. sem flestar hverjar eða nokkrar a.m.k. hafa ratað inn í nál. meiri hl. nefndarinnar og sem meiri hl. gerir að brtt. sínum að leiðréttar verði og skal ég ekki gera athugasemd við það. Heldur tel ég það nú til bóta að meiri hl. hafi gert þessar ábendingar að sínum, enda hlýtur það að vera metnaðarmál allra að löggjöf sem héðan er afgreidd sé skýr og skiljanleg og ekki með afkáralegum vitleysum í eða öðru af því tagi. Ég læt þess getið til gamans að brtt. meiri hl. eru runnar undan rifjum minni hl. að þessu leyti til.
    Nú hyggst ég, herra forseti, víkja að þeim efnisatriðum í frv. sem gerðar eru athugasemdir við af okkar hálfu og greina í nokkru frá því í hverju brtt. okkar minnihlutamanna eru fólgnar. Kem ég þá fyrst að skipan í svokallaðar húsnæðisnefndir sem frv. gerir ráð fyrir að taki við verkefnum stjórna verkamannabústaða og húsaleigunefnda sveitarfélaga. Með frv. eru fleiri verkefni og aukin fjárhagsleg ábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu flutt yfir á sveitarfélögin. Hins vegar skýtur nokkuð skökku við þegar komið er að húsnæðisnefndum sem um þessi mál eiga að fjalla fyrir hönd sveitarfélaganna. Þar er ekki gert ráð fyrir því að meiri hluti í sveitarstjórn sé jafnframt ráðandi meiri hluti í húsnæðisnefndunum. Þetta stafar af því að gert er ráð fyrir að tveir fulltrúar í húsnæðisnefndum séu tilnefndir af utanaðkomandi aðilum, eða eins og það er orðað í frv.: ,,... stærstu samtökum launafólks í
sveitarfélaginu.`` Við teljum óeðlilegt að í nefnd sem þessari, sem getur gert margháttaðar ráðstafanir og skuldbindingar í nafni sveitarfélagsins, skuli ekki vera svo um hnúta bundið að meiri hluti sveitarstjórnar skuli jafnframt geta átt þess kost að kjósa meiri hluta í nefndina. Þetta er sagt alveg óháð því að auðvitað er skiljanlegt að verkalýðshreyfingin vilji hafa hönd í bagga þegar um er að ræða félagslegt húsnæði. Ástæðulaust er að ætla henni annað en gott eitt í þessu sambandi. Hins vegar er þetta af ýmsum öðrum ástæðum óeðlilegt fyrirkomulag sem hlýtur að draga úr skilvirkni í stjórnsýslu og gera meiri hluta í sveitarstjórn erfiðara fyrir að ná fram þeirri stefnu sem borgararnir í viðkomandi sveitarfélagi hafa kjörið þessa fulltrúa til að framkvæma.
    Við flytjum tillögu á þskj. 1195 um að þessu verði breytt. Í 5. brtt. er gert ráð fyrir því að í stað þessa

fyrirkomulags skipi sveitarstjórn alla fulltrúana. Til vara er gerð sú tillaga að í sveitarfélögum með yfir 10.000 íbúa þar sem nú er gert ráð fyrir að sjö fulltrúar verði kosnir, fjórir af sveitarstjórn og þrír af samtökum launafólks, verði fimm af þessum sjö kjörnir af sveitarstjórninni en aðeins tveir tilnefndir af samtökum launafólks.
    Ég vil síðan bæta því við, virðulegur forseti, að orðalag frv. um þessi atriði er óskýrt og til þess fallið að valda misskilningi og deilum síðar meir. Í frv. segir að stærstu samtök launafólks í sveitarfélaginu eigi þarna að tilnefna, en það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað það þýðir. Og í nefndarstarfinu fékkst ekki fyllilega upplýst hvort hér var um að ræða heildarsamtök launafólks í landinu öllu eða staðbundin verkalýðsfélög á hverjum stað. Eins og þetta er orðað núna hlýtur það að skiljast þannig að hér sé um að ræða staðbundin verkalýðsfélög í hverju sveitarfélagi. Hins vegar kom fram sú túlkun að á höfuðborgarsvæðinu ættu það að vera heildarsamtökin sem þarna tilnefndu, þ.e. Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.
    Það er ekki mitt hlutverk, þar sem ég hef lagt til að þetta orðalag falli niður, að gera hér brtt. En ég beini því til aðstandenda frv., af því að með þessu orðalagi er verið að kalla fram deilur og misskilning síðar meir, að þessu orðalagi verði breytt þannig að það verði alveg skýrt við hvað er átt. Annaðhvort er átt við það að ASÍ og BSRB tilnefni hér á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum sveitarfélögum, þá væntanlega öllum, eða átt er við að það séu staðbundin samtök launafólks í sveitarfélaginu, eins og nú er orðað, og þá á það að koma skýrt fram og standa ,,félag`` í stað orðsins ,,samtök``. Þessu beini ég til viðkomandi í mestu vinsemd og vænti þess að tekið verði eitthvert tillit til þess.
    Ég vil næst koma að 11. brtt. á þskj. 1195 þar sem við í 1. minni hl. gerum ráð fyrir því að áfram verði, eins og nú er, hægt að veita sérstök viðbótarlán úr Byggingarsjóði verkamanna til þess fólks sem er að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið með aðstoð Byggingarsjóðsins en býr við sérstaklega erfiðar fjölskyldu- og fjárhagsaðstæður og á í verulegum erfiðleikum með að inna af hendi útborgun.
    Þannig er að í gildandi lögum er þessi heimild fyrir hendi með þessu orðalagi. Það er hægt að veita viðbótarlán upp í allt að 90% og sömuleiðis er hægt að veita þeim sem eiga í sérstökum erfiðleikum með útborgun lán allt upp í 100% íbúðarverðs, en viðbótarlánið er þá til þriggja ára. Tillaga okkar er sú að þetta ákvæði fái að halda sér. Ég hef vakið athygli á því hér úr þessum ræðustól að það er athyglisvert að þeir félagshyggjuflokkar sem hér standa að ríkisstjórn skuli ætla að fella niður þetta ákvæði sem hefur gert fjölda manna kleift að eignast eigið húsnæði. Ég hef ítrekað spurt hver sé ástæða þess að þetta ákvæði er fellt niður í frv. Svarið er að það hafi ,,oft`` komið fram að þeir sem hér hafa átt hlut að máli hafi reist sér hurðarás um öxl með því að fá þetta viðbótarlán. Og ég hef spurt: Gott og vel, kann

að vera að svo sé í einhverjum tilvikum. En væri hægt að fá upplýsingar um hversu margir af þeim sem hafa fengið þetta viðbótarlán hafa ekki við það ráðið? Og hversu margir hafa á hinn bóginn getað ráðið við þann bagga og komist í eigið íbúðarhúsnæði fyrir tilstilli og atbeina þessa viðbótarláns? En við þessari spurningu hafa ekki fengist nein svör. Og á meðan ekki koma haldbærar skýringar og röksemdir fyrir því að fella niður viðbótarlánið þá leyfi ég mér að leggja til að þessi möguleiki verði áfram fyrir hendi. Ég hef nefnilega staðið í þeirri meiningu að Byggingarsjóður verkamanna væri til þess hugsaður og ætlaður að greiða götu þess fólks sem einmitt svona stæði á um, ætti í sérstökum erfiðleikum, fjölskyldu- og fjárhagslegum, og þyrfti þess vegna á viðbótarfyrirgreiðslu að halda. Ég hef staðið í þeirri meiningu að þetta væri hlutverk sjóðsins, að hjálpa fólki sem svona stæði á um. En félagshyggjuflokkarnir eru greinilega á annarri skoðun. Og það mun þá á það reyna í atkvæðagreiðslu um þessa grein hvort svo er.
    Ég vil þá næst, herra forseti, koma að 7. brtt. á þskj. 1195, sem að er vikið í 3. lið í nál., þar sem spurt er hvort eigi að taka upp eignir einstakra sveitarfélaga. Um það er að ræða í mörgum sveitarfélögum, einkum
hinum stærri, að þau hafa eignast íbúðir sem síðan eru leigðar út skjólstæðingum félagsmálastofnana þessara sveitarfélaga. Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg er stærsti aðilinn á þessu sviði. Borgin á í eigin nafni rúmlega 1000 íbúðir sem metnar eru á nokkra milljarða kr., meira og minna skuldlausar, sem félagsmálaráð borgarinnar hefur umsjón með og leigir út sínum skjólstæðingum. Hér er um að ræða þinglýstar eignir borgarinnar sem ekki verða frá henni teknar og ekki er hægt að setja undir stjórn annarra en hennar sjálfrar. Hins vegar er með frv. gert ráð fyrir því að húsnæðisnefndirnar, með utanaðkomandi aðild, eigi að ráða þessum íbúðum. Á það er bara einfaldlega ekki unnt að fallast. Og reyndar er það þannig að það er ekki bara að ekki sé unnt á það að fallast, heldur er það líka þannig að stjórnarskráin bannar þetta. Það skiptir því kannski ekki öllu máli þó að við föllumst ekki á þetta ákvæði. Ég býst við því að viðkomandi sveitarfélög mundu láta á það reyna, a.m.k. hef ég fulla ástæðu til þess að halda að Reykjavíkurborg mundi gera það.
    Í því sambandi vil ég lesa hér ályktun sem félagsmálaráð Reykjavíkur samþykkti samhljóða í gær um þetta efni. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Félagsmálaráð Reykjavíkur mótmælir harðlega hugmyndum um að úthlutanir félagslegs leiguhúsnæðis verði settar undir sérstakar húsnæðisnefndir. Samkvæmt frv. eru þær þannig skipaðar að réttkjörin stjórn sveitarfélags getur misst stjórn þessa málaflokks þótt ábyrgð á honum fylgi ótvírætt sveitarstjórnum og þær séu eigendur leiguhúsnæðisins. Ekki skiptir minna máli að þetta mikilvæga félagslega úrræði yrði þannig slitið úr tengslum við aðra félagslega þjónustu í sveitarfélagi.``
    Ég ætla ekki að lengja ræðu mína með því að

orðlengja þetta frekar. En ég tel nauðsynlegt að gerð sé breyting á frv. til að útiloka þá hugmynd sem hér er á ferðinni.
    Ég vil að lokum koma að 20. og 21. brtt. á þskj. 1195 sem varða yfirtöku á skuldbindingum stjórna verkamannabústaðanna. Það er ljóst að þær hafa margar hverjar gert margháttaðar fjárhagslegar skuldbindingar, eiga eignir, tæki, húsnæði, búnað í umboði sveitarstjórnarinnar og hafa margs konar starfsmannahald á sinni könnu. Þess vegna er alveg ljóst að yfirfærsla á þessari starfsemi til annarrar nefndar, húsnæðisnefndar svokallaðrar, hlýtur að vera töluvert flókið mál og verður að vera þannig úr garði gert að ekkert fari milli mála. Ég tel að ákvæði frv., eins og þau eru núna, uppfylli ekki þetta skilyrði. Og þess vegna er það tillaga okkar minnihlutamanna að í fyrsta lagi verði gildistaka laganna ekki fyrr en 1. sept. 1990 og að umboð stjórnar verkamannabústaða framlengist til þess tíma. Og í öðru lagi að í ákvæði til bráðabirgða verði mun skýrar kveðið á um hvað fylgir þessari yfirtöku og að starfsmenn stjórnar verkamannabústaða eigi forgang að störfum á vegum húsnæðisnefnda við þessi sömu verkefni.
    Hugmyndin með því að seinka gildistöku frv., eða laganna, er auðvitað sú að það gefist nægilegt svigrúm til þess að uppgjör og yfirtakan að öðru leyti geti gengið greiðlega og vandræðalaust fyrir sig.
    Til viðbótar þessum atriðum, herra forseti, eru á þskj. nokkrar aðrar brtt. sem sumar hverjar er ástæðulaust að eyða löngu máli í. Þær ganga hins vegar út á það að breyta nokkuð anda frv. þannig að Byggingarsjóður verkamanna verði áfram svo sem verið hefur fyrst og fremst sjóður þeirra sem minna mega sín, sjóður ætlaður fyrir láglaunafólk en ekki hvern sem er. Það er misnotkun á almannafé að þessi sjóður verði opinn fyrir hvern sem er. Eða hvern sem telur sig þurfa sérstaka aðstoð við húsnæðisöflun. Þess vegna er því skotið hér inn á tveimur stöðum að í stað orðsins ,,fólki``, til að mynda í 1. málsgr. þar sem markmið laganna eru skilgreind, komi ,,láglaunafólki`` og sömuleiðis í 3. gr. m.-lið, sem verður 63. gr., þar sem hlutverk Byggingarsjóðsins er skilgreint, verði notað það orðalag sem er að finna í núgildandi lögum og talað um að hlutverk hans sé að bæta úr húsnæðisþörf láglaunafólks.
    Við flytjum sömuleiðis brtt. nr. 17, við væntanlega 95. gr., um að endurskoðun lánskjara þeirra sem fengið hafa lán úr sjóðnum miðist við fimm ár en ekki átta. Ég hygg að efnislegt samkomulag sé um það að óeðlilegt sé að menn geti setið í þessum íbúðum ævilangt óháð afkomu sinni þótt þeir hafi á einhverjum tíma uppfyllt skilyrði til þess að geta fengið fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóðnum. Í öðru lagi er þar um að ræða orðalagsbreytingar sem ég hygg að séu skýrari og nákvæmari en það orðalag sem nú er í frv.
    Loks er í 2. tölul. gert ráð fyrir að almenna kaupleigukerfið falli út úr frv. Af því leiða ýmsar aðrar breytingar sem raktar eru í þskj. og ég hyggst ekki gera grein fyrir. En fari svo að sú brtt. verði

ekki samþykkt þá falla þær brtt. sem af henni leiða sjálfkrafa brott.
    Ég spurði þeirrar spurningar við 1. umr. málsins hvaða nauðsyn ræki til þess að hinar svokölluðu almennu kaupleiguíbúðir yrðu felldar undir Byggingarsjóð verkamanna og ég hef ekkert svar fengið við því. Ég tel enga haldbæra ástæðu fyrir því. Ég tel að það sé ástæðulaust að breyta því fyrirkomulagi sem frá var gengið á sínum tíma hér á Alþingi fyrir tveimur árum, að almennar
kaupleiguíbúðir tilheyri Byggingarsjóði ríkisins. Og með því að ekki hafa
komið haldbærar skýringar á því hvers vegna nauðsyn beri til að breyta því fyrirkomulagi þá er 2. brtt. og aðrar sem af henni leiða fluttar.
    1. brtt. er hins vegar sama eðlis og þær sem ég gat um áðan varðandi anda laganna. Gert er ráð fyrir því að 1. gr. frv. falli brott sem þýðir það að markmiðsákvæði gildandi laga um Húsnæðisstofnun verður óbreytt. Ég tel að það hljómi ágætlega eins og það er í dag og ástæðulaust að breyta því með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég mun ekki, virðulegi forseti, taka hér meiri tíma í útskýringar á brtt. minni hl. í ljósi samtala sem hér hafa átt sér stað milli manna og ætla ekki að hafa frekara mál um þetta frv. Ég mun þegar að atkvæðagreiðslu kemur gera nánari grein fyrir því hvernig ég hyggst óska eftir að gengið verði til atkvæða um þessar brtt., en vera má að ég óski eftir því að einhverjar þeirra verði kallaðar aftur til 3. umr. og hugsanlega einhverjar afturkallaðar fyrir fullt og allt. Ég mun skýra forseta frá því þegar þar að kemur.