Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. félmn. geri ég þar fyrirvara og áskil mér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt. er fram kunna að koma. Í sjálfu sér þarf þetta ekki að koma neinum á óvart. Við 1. umr. málsins gerði ég grein fyrir því að ég hefði haft fyrirvara í mínum þingflokki þegar þetta frv. var lagt fram og sá fyrirvari var fluttur hæstv. ríkisstjórn þannig að ég hefði alveg frjálsar hendur í þessu máli.
    Við 1. umr. málsins --- ég vil taka það fram, herra forseti, að ég skal ekki tefja þessar umræður mikið --- gerði ég grein fyrir því hvert viðhorf mitt væri til þessa frv. Ég taldi að það væri framhald í raun og veru af því niðurrifi sem núv. hæstv. félmrh. hefur ástundað í sambandi við gildandi lög um húsnæðismál. Ég tók líka fram og ég get endurtekið það að ég taldi brýna nauðsyn að taka hið félagslega kerfi húsnæðismála til rækilegrar endurskoðunar og hef raunar verið fylgjandi því lengi og átti þar hlut að máli á vissu tímabili. Það væri nauðsynlegt að gera það á breiðum grundvelli, eyða í það góðum tíma með aðild allra þingflokka og annarra áhrifaaðila sem að þessum málum koma í þjóðfélaginu. Þegar ég talaði um allsherjarendurskoðun á félagslega kerfinu þá vildi ég gera það í alvöru, gera það þannig að rannsakað yrði hið raunverulega ástand þessara mála, og ekki aðeins það heldur einnig hvert við stefnum í þessum málum eða raunar hvert við viljum stefna í þessum málum. Ég vildi fá nákvæma úttekt á því hvernig við eigum að standa að því að tryggja aðstoð eða hagstæð lán til þeirra þegna þjóðfélagsins sem búa við verstu aðstæður, þar á ég við bæði láglaunafólk, þar á ég við íbúðir fyrir öryrkja og fatlaða og byggingar fyrir eldri borgara, og taka á því með raunsæjum hætti á hvern hátt við eigum að standa til framtíðar að þessum málum. Það tengist að sjálfsögðu stefnu í húsnæðismálum almennt því það hlýtur að vera löngu komið að því að við Íslendingar sem erum aðeins 250.000 manns gerum okkur grein
fyrir því hvað er eðlilegt að við þurfum að leggja mikla fjármuni og hvernig í að tryggja húsnæði fyrir alla íbúa þessa lands.
    Því miður verð ég endurtaka það hér að sú endurskoðun sem þarna fór fram, ég er ekki að lasta það fólk sem tók þátt í henni, það voru allt ágætis aðilar, en hins vegar hefur greinilega verið þrýst á í sambandi við þessa endurskoðun að út yrði tekinn einn þáttur í þeirri heildarendurskoðun sem nefndin hefur ætlað sér að vinna og lagt fram hér í frumvarpsformi sem tekur ekki nægjanlega, að mínu mati, á þessum málum, eins og fram hefur komið raunar í meðförum félmn. beggja deilda þó að Ed. hafi lagt tiltölulega litla alvöru í meðferð málsins.
    Ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að eyða miklum tíma, herra forseti, í þessari tímaþröng. En ég kemst þó ekki hjá því að nefna hér örfá atriði sem að mínu mati eru ákaflega mikilvæg í þessu máli. Og þegar við skoðum umsögn sem kom frá stjórn

verkamannabústaða í Reykjavík, sem hefur einna víðtækasta reynslu af meðferð þessara mála á öllum stigum og jafnframt álit frá þeirri lögmannsskrifstofu sem þeir láta styðja sitt mál, þá kemst maður ekki hjá því að lýsa því yfir að það er ákaflega leiðinlegt í þessari stöðu að þurfa að viðurkenna að á mörgum viðamiklum atriðum í húsnæðislöggjöfinni, félagslega kerfinu, sem hafa valdið erfiðleikum í samskiptum við fólk á undanförnum árum, er ekki tekið nema á mjög auman hátt, svo ekki sé meira sagt. Þar er um að ræða fyrningarákvæði, endurkaup á eldra húsnæði, ákvæði um leiguíbúðir og margt, margt fleira sem mætti nefna en ég ætla ekki að gera hér.
    Ég vil einnig segja það að mér finnst ákaflega sorglegt, ég ætla að orða það þannig, að nú skuli vera gengið í það að leggja niður heitið verkamannabústaðir. Verkamannabústaðakerfið hefur reynst þessari þjóð miklu haldbetra en nokkurt annað húsnæðiskerfi sem hér hefur verið í gildi og hefur raunar lyft grettistökum að því að hjálpa fólki sem er ekki með há laun til að eignast eigið húsnæði. Og ég hygg að láglaunafólk hér á Íslandi hafi notið kjara verkamannabústaðakerfisins betur en nokkurs annars í félagslegri löggjöf á undanförnum árum og þúsundir Íslendinga hafa eignast íbúð í gegnum verkamannabústaðakerfið. Það hefur reynst langsamlega haldbest til þess að reyna að koma þessum málum á réttan grundvöll. Og að leggja niður þetta heiti finnst mér fáránleg tillaga sem sýni ljóslega vanhugsaðar aðgerðir sem eru fjölmargar í þessu lagafrv., því miður.
    Ég ætla ekki að flytja brtt. hér um þetta ákvæði, en ég bendi bara á að það kemur greinilega fram í þó nokkrum umsögnum, sem félmn. bæði Ed. og Nd. höfðu til meðferðar, að þessu ákvæði er sérstaklega mótmælt.
    Það sem ég vildi segja að lokum er að ég tel margar brtt. sem minni hl. félmn. leggur fram nauðsynlegar og ég mun í nokkrum tilfellum lýsa yfir fylgi við þær þó ég skrifaði ekki undir það nál. Ég tel t.d. sjálfsagðan hlut að það sé a.m.k. rökstutt með hvaða rökum er nú verið að taka almennar kaupleiguíbúðir sem barist var fyrir í fyrri lagagerð að hafa í almenna húsnæðiskerfinu eða Byggingarsjóði ríkisins og setja þær nú allt í einu undir
félagslega kerfið. Þessir aðilar ættu í raun að biðja afsökunar á þeirri rökleysu sem þeir fluttu á sínum tíma, að það þyrfti að hafa almennar kaupleiguíbúðir bæði í félagslega kerfinu og almenna kerfinu. Nú er gerð hér tillaga um að færa þetta einnig undir félagslega kerfið án nokkurrar skilgreiningar á hvernig á að framkvæma það. Þess vegna er 2. till. minni hl. félmn. rétt.
    Ég vil einnig taka annað sem er stórt mál í mínum huga. Hvers vegna eru í frv. felld niður ákvæði í húsnæðiskerfinu um það að hjálpa fólki sem á í erfiðleikum að fá 100% lán? Mér finnst þetta spor aftur á bak. Og ég vil aðeins vitna í tvö atriði þessu til sönnunar. Í áliti stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík er sagt m.a., með leyfi forsta: ,,Til þess að

réttlætanlegt sé að afnema heimildir til að veita 100% lán til kaupa á íbúð svo og að innleiða tekjulágmark, verður fyrst að nást það takmark að nægilegt framboð sé á leiguhúsnæði til að leysa vanda þess fólks sem samkvæmt gildandi reglum fær 100% lán.`` Núna um miðjan dag var hringt í mig frá Ísafirði, frá forstöðufólki Félagsmálastofnunar Ísafjarðarkaupstaðar. Þar er fjöldi einstæðra mæðra sem t.d. gegna láglaunastörfum á vegum Ísafjarðarkaupstaðar og eiga ekki möguleika á húsnæði nema því aðeins að fá slíka fyrirgreiðslu. Og þar eru hörð mótmæli gegn því að þetta verði gert því að fólk hefur í vaxandi mæli nýtt sér þetta ákvæði í gildandi lögum. Þess vegna tel ég fáránlegt að leggja til að fella þetta ákvæði gildandi laga niður og mótmæli því hér með og mun fylgja brtt. til þess að ná rétti fyrir þetta fólk sem verst er sett í löggjöfinni.
    Herra forseti. Ég gæti nefnt mörg fleiri dæmi en ætla ekki að gera það hér. En ég endurtek að ég harma það mjög að þessi nauðsynlega endurskoðun á hinu félagslega kerfi húsnæðismála á Íslandi skuli ekki hafa verið gerð með þeim hætti að reisn væri yfir og að menn hefðu gefið sér nægan tíma með aðild allra þeirra flokka sem t.d. eiga sæti á Alþingi. Ég tel að það hafi miður farið. Það lá ekkert á, það var ekkert sem lá á að hespa þessari löggjöf af nú. Við gátum gefið okkur tvö til þrjú ár í þessa endurskoðun og tekið þar til viðmiðunar allt það sem reynslan sýnir að þarf að breyta um leið, og ég legg áherslu á það sem lokaorð, um leið og við tökum ákvörðun um hver framtíðarstefnan er í þessum málum. Hún er ekki komin fram enn og hefði löngu átt að vera búið að taka þá stefnu. Ég reiknaði með því að þessi stóra nefnd, þó hún væri skipuð með þessum annmörkum, mundi hafa það að aðalmarkmiði. Síðan væri hægt að breyta ákvæðum gildandi laga smátt og smátt til þess að ná því takmarki sem stefnumörkunin gerði ráð fyrir. Það eru rétt vinnubrögð en þetta eru röng vinnubrögð. Ég held ég ljúki máli mínu með þessu.