Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það er að öllu jöfnu svo að liðsstyrkur flokka hér á Alþingi ræðst í kosningum og er yfirleitt óbreyttur heilt kjörtímabil hvað sem líður straumum í þjóðfélaginu. En nú hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst að við sjálfstæðismenn höfum fengið góðan liðsauka. Við höfum á þingflokksfundi fagnað nýjum þingmönnum í þingflokki Sjálfstfl. Það er okkur mikið gleði- og ánægjuefni. Ég tel það bera vott um að þeir straumar sem nú eru ráðandi í þjóðfélaginu nái einnig hingað inn í sali Alþingis þar sem frjálslynd öfl eru að styrkjast meðan vinstri hreyfingin sundrast.