Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að þakka þær skýringar sem hér hafa komið fram, bæði hjá hv. nefndarformanni, en einnig frá hv. 1. þm. Vestf. sem á vissulega heiðurinn af því að hafa flutt þáltill. hér á hinu háa Alþingi sem hefur leitt til þessarar niðurstöðu. Einnig vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör og því sem hann gerði grein fyrir hér úr ræðustóli. Ástæðan fyrir því að ég kom hér upp var ekki sú að ég væri á móti þeim hugmyndum sem þar er verið að viðra, heldur eru það nokkur tæknileg atriði sem ég hefði viljað skoða betur. Að heyrðum orðum hæstv. ráðherra tel ég að það verði látið á það reyna hvernig þetta kerfi gengur og eftir einhvern tíma sé möguleiki að endurskoða þessi lög. Í trausti þess sé ég því enga ástæðu til að halda þessari umræðu áfram. Enn fremur sagði hæstv. ráðherra, sem ég met mikils, að fulltrúar Alþingis og þá væntanlega þeir sem sitja í hv. sjútvn. fái tækifæri til þess að fylgjast með reglugerðarsetningunni skv. annars vegar 3. gr. og hins vegar 5. gr. frv.