Atkvæðagreiðslur
Föstudaginn 04. maí 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Þetta er bæði sjálfsögð og eðlileg ósk, enda á það auðvitað ekki að vera svo að nefndarfundir séu í gangi á meðan þingfundir eru, en slíkt verður að gerast þegar tímaþröng er mikil. Forseti mun gera ráðstafanir til þess að þeir hv. deildarþingmenn sem nú eru á nefndarfundum verði látnir vita af atkvæðagreiðslunni og þeir beðnir um að koma og gerir örstutt hlé á þessum fundi á meðan. --- [Fundarhlé.]
    Forseti hefur látið kanna hvort hv. deildarþingmenn sem eru á nefndafundum geti komið. En svo stendur á með iðnn. að hún hefur boðað til sín nokkra gesti sem eru á fundi með nefndarmönnum og er því ekki hægt um vik að bregða sér í burtu. Þessari atkvæðagreiðslu verður því að fresta um sinn.
    Forseti hyggst, til þess að koma málum á milli deilda, ljúka þessum fundi og boða þegar í stað til nýs fundar þar sem fram fara atkvæðagreiðslur um mál sem eru til 3. umr. og þurfa að fara til Ed. Það verður síðan að ráðast með tíma hvort unnt verður að taka fleiri mál fyrir. En staðan í þinginu er nú þannig að brýna nauðsyn ber til þess að Sþ. geti byrjað fund kl. 9 í kvöld. Eftir þennan langa vinnudag sem hefur staðið látlaust í deildinni frá því kl. 10 í morgun telur forseti ekki ofrausn að hv. þingdeildarmenn fái tveggja klukkustunda kvöldmatarhlé. Forseti hyggst því fresta þeim hinum næsta fundi sem verður hér á eftir og láta síðan skeika að sköpuðu um það hvort hægt verður að halda annan fund í deildinni í kvöld eða nótt að loknum fundi í Sþ. ella verður að gera það kl. 10 í fyrramálið. Svona er áætlun þessarar deildar í grófum dráttum og verður ekkert við því gert að tíminn er að hlaupa frá okkur og við komumst ekki áfram, a.m.k. ekki núna fyrir kvöldmat, með fleiri mál eins og horfir.