Flugmálaáætlun 1990--1993
Föstudaginn 04. maí 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Frsm. fjvn. hefur gert hér grein fyrir sínu og okkar máli en það vakti nokkra eftirtekt hve miklum ræðutíma og miklum skýringum formaðurinn taldi sig þurfa að koma á framfæri gagnvart flugvellinum við Húsavík. Það hefði verið vel viðeigandi að hann hefði líka komið á framfæri nokkrum skýringum gagnvart flugvellinum í Hornafirði því að þar voru líka gerðar breytingar frá flugmálaáætlun, reyndar afar furðulegar breytingar vegna þess að eins og að var stefnt með langtímaáætlun um flugmál átti að komast hjá allri kjördæmatogstreitu og gera mönnum kleift að komast að niðurstöðu á þeim grundvelli að hafa fleiri ár fyrir framan sig. En svo vildi nú til þegar hæstv. samgrh. hafði lagt fram nýja flugmálaáætlun að flugbraut sem átti að ljúka við að byggja á þessu ári var skákað út af flugmálaáætluninni, ekki einungis fyrir næsta ár heldur fyrir allt fjögurra ára tímabilið. Einungis var fjárveiting til rannsókna á þessu ári upp á 1 1 / 2 millj. að því er mig minnir og svo ekki söguna meir. Þetta var nú þeim mun athyglisverðara og einkennilegra að fyrir lágu bókanir frá fundi sem flugmálastjóri og hans starfsmenn héldu með forustumönnum í flugmálum og sveitarstjórnarmálum á Höfn í Hornafirði í fyrrasumar þar sem bókað var að framkvæmdin um þverbrautina um Hornafjarðarflugvöll yrði látin ganga fram á þessu ári.
    Auðvitað varð þarna ekki miklum hlutum um þokað við afgreiðslu þessa máls í fjvn. Þó var tekin stefnumarkandi ákvörðun um það að framkvæmd skyldi hefjast á næsta ári, árinu 1991, og þessi niðurstaða fékkst með því að fresta byggingu tækjageymslu sem var á áætlun það ár. Það er þess vegna augljóst mál hvaða vilji er fyrir hendi varðandi þessa framkvæmd við afgreiðslu í fjvn. og væntanlega hér á Alþingi, að framkvæmdir hefjist við þessa flugbraut á næsta ári, enda er séð fyrir því að þeim rannsóknum sem þurfa að fara fram, sem eru
nú ekki mjög mikilvægar og ekki heldur kostnaðarsamar, er hægt að ljúka fyrir haustið eða veturinn. Og það bréf sem þingmenn Austurl. hafa sent frá sér þýðir í rauninni ákvörðun um framkvæmdafjárveitingu til tækjageymslu og til þverbrautarinnar á árinu 1992 en þá verður búin að fara fram, eins og kunnugt er, önnur endurskoðun á flugmálaáætlun, framkvæmdaendurskoðun fyrir árin 1992 og 1993 og það er eins gott að menn gæti að því að leika ekki þá aftur þann leik sem leikinn var núna gagnvart flugbrautinni í Hornafirði. Þetta segi ég hér þó að trúlega verði nú komin önnur ríkisstjórn og annar samgrh. Ég vona að menn fletti samt upp því sem menn hafa haft um þetta mál að segja hér við þessa afgreiðslu og rifji upp fortíðina í þeim efnum og hversu stórfurðuleg tillögugerðin var um Hornafjarðarflugvöll. Úr því hefur nú verið nokkuð bætt og því verður áreiðanlega fylgt eftir af þingmönnum Austurl. þegar þar að kemur.