Flugmálaáætlun 1990--1993
Föstudaginn 04. maí 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hv. frsm. og formaður fjvn. gerði ágæta grein fyrir afgreiðslu nefndarinnar í sinni framsöguræðu og ég hafði nú reiknað með að láta það nokkurn veginn duga hér í þessari umræðu af minni hálfu vegna þess að við skilum sameiginlegu áliti. Hins vegar hafa stjórnarliðar hér eftir venju komið upp í ræðustól til þess að þingstörf megi halda áfram sem lengst fram eftir vorinu og gengur þar vitaskuld hæstv. ráðherra fram fyrir skjöldu með langvarandi málaskvaldri án þess að hann hafi þar býsna mikið að segja.
    Ég vil þó taka það fram og undirstrika það sem fram hefur komið m.a. hjá hv. 1. þm. Vesturl. að mál Flugmálastjórnar eru auðvitað óleyst og þau eru nokkurn veginn í sama fari og þegar hér voru afgreidd fjárlög fyrir jól. Ég reikna með því að ég taki það mál frekar til athugunar við afgreiðslu á frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 hér síðar í kvöld eða nótt. Það var auðvitað alveg ljóst, eins og skýrt var fyrir hæstv. samgrh. og hv. stjórnarmeirihluta, þar á meðal hv. 1. þm. Vesturl., að þarna vantaði við afgreiðslu fjárlaga milli 40 og 50 millj. kr. til þess að launaliður og rekstur Flugmálastjórnar gæti gengið í sama horfi og nú. Þrátt fyrir það að ég hafi krafist þess að fá að vita það hvernig með skuli fara er aðeins vísað til starfa nefndar sem ekki hafði lokið störfum en er kannski búin að skila einhverju áliti nú til hæstv. samgrh. Það þýðir þó auðvitað, ef ekki kemur þarna aukið fé, að fella verður niður eitthvað af þeirri starfsemi sem er í gangi af hálfu Flugmálastjórnar, annað tveggja að loka flugvöllum, ellegar þá að starfsliðið verður að vinna í sjálfboðavinnu. Svo einfalt er það. Og mér er sem ég sjái framan í flugumferðarstjórana hjá Flugmálastjórn þegar þeir fara að vinna í sjálfboðavinnu fyrir hæstv. samgrh.
    Um þær yfirlýsingar hæstv. samgrh. að hann telji mikils virði, sem sannarlega er, að unnt verði að standa við flugmálaáætlun sem unnin var og
samþykkt fyrir forgöngu hæstv. fyrrv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar, er auðvitað allt gott að segja, en það liggur á hinn bóginn fyrir að sú fjármögnun sem hér er á ferðinni dugar ekki til að standa við þá flugmálaáætlun og um leið og hæstv. samgrh. er að mæla þessi fallegu orð, þá leggur hann hér fram þessa flugmálaáætlun og hún gengur hér til afgreiðslu þannig að sýnilega vantar um 100 millj. kr. á ári til þess að við hana verði staðið. Um leið og menn mæla falleg orð og telja sig vilja allt gera er þess vegna best að menn hafi það í huga að það verður ekki gert án þess að fjármunir séu til þess. Og þetta hefði nú hæstv. samgrh. átt að láta koma fram úr því að hann taldi ástæðu til að fara með þessa ræðu sína hér áðan sem að mínu áliti sýndist lítil ástæða til.
    Ég vil svo taka undir það sem raunar kom fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni að þær bókanir sem eru prentaðar sem fylgiskjöl með nál. hafa auðvitað mikla þýðingu bæði að því er lýtur að slitlagi á

Sauðárkróksflugvöll og eins varðandi þverbraut á Hornafjarðarflugvöll og fjvn. afgreiðir það eins og fram kom í máli formanns nefndarinnar með þeim hætti að vísa þessu til endurskoðunar flugmálaáætlunar á næsta ári. Þá er það um leið gert í þeim tilgangi að þessi mál komist fram við þá endurskoðun. Á þessum grundvelli er samstaða okkar úr minni hlutanum byggð, að það sé einróma niðurstaða fjvn. að vísa því til flugráðs og þeirrar endurskoðunar sem fram undan er þannig að þessi verk komist fram svo sem hér er gert ráð fyrir í þeim bókunum sem fyrir liggja.