Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 04. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Það var í fyrsta skipti nú við afgreiðslu vegáætlunar sem þingmenn Reykv. hittust og ræddu við starfsmenn Vegagerðarinnar og borgarverkfræðinginn í Reykjavík til þess að átta sig á framkvæmdum í Reykjavík. Í þeim viðræðum kom ýmislegt í ljós sem ég tel ástæðu til að rætt sé hér þegar vegáætlun er til afgreiðslu. Ég vil byrja á að rifja það upp að fyrir ári síðan áttum við viðræður, ég ásamt hæstv. ráðherrum fjármála og samgöngumála, við borgarstjórann í Reykjavík. Við ræddum þar hugsanleg skuldaskil vegna þeirrar skuldar sem safnast hefur upp þar sem framkvæmdir í Reykjavík hafa verið mun meiri en framlög frá ríkinu gefa tilefni til. Skuldin mun nú vera, ef hún er öll reiknuð upp til núverandi verðlags, um það bil 1 milljarður. En þess ber að geta að ríkisvaldið hefur aldrei viðurkennt að þurfa að greiða verðbætur vegna slíkra framkvæmda, ef þær eru umfram heimildir samkvæmt vegáætlun og fjárlögum. Fyrir nokkrum árum gerðist það þó í samningum við ríkisvaldið að viðurkenndar voru slíkar skuldakröfur og þær verðbættar frá ákveðnu ári að telja.
    Það var samdóma álit allra þeirra sem nálægt þessu máli komu að nauðsynlegt væri sem fyrst að gera samning milli ríkis og Reykjavíkurborgar um greiðslu skuldarinnar og um það að hve miklu leyti ríkisvaldið mundi greiða þessa skuld til baka. Ég get ekki sett fram neinar tölur í því sambandi en ég hygg að skuldin í dag, miðað við það sem gerst hefur í samningum um svipað efni milli Reykjavíkurborgar og ríkisins áður, sé að minnsta kosti 600--700 millj. kr. Enda eru framkvæmdirnar að langmestu leyti á síðustu 5--6 árum.
    Ég tel nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þetta komi fram og jafnframt sé það rifjað upp að við afgreiðslu fjárlaga var samþykkt í 6. gr. ákvæði sem heimila hæstv. fjmrh. að gera samning við Reykjavíkurborg um greiðslu skuldar sem
orðin er til vegna framkvæmda við vegagerð í Reykjavík og ríkið á samkvæmt lögum að greiða.
    Það er út af fyrir sig gott að flýta framkvæmdum við vegagerð eða jarðgangagerð og taka til þess erlend lán. Ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn skuli telja sig hafa efni á því að samþykkja slíkt og skal síst af öllu tala gegn því. En á sama tíma verða menn sem fara með stjórn þessara mála að átta sig á því að skuldir hafa hlaðist upp annars staðar án þess að þær komi nokkurs staðar fram, hvorki í vegáætlun né annars staðar þar sem ríkið gerir grein fyrir skuldastöðu sinni gagnvart öðrum aðilum.
    Ég rifja það upp að þegar vegáætlun var samþykkt til tveggja ára á síðasta þingi lágu fyrir áætlanir um að auka stórkostlega fjármagn til svokallaðra stórverkefna. Þau eru í fyrsta lagi jarðgöng, í öðru lagi fjármagn og fjárframlög til höfuðborgarsvæðisins og í þriðja lagi til brúargerðar þar sem er um að ræða stórbrýr. Ætlunin var að Reykjavíkurborg fengi af þessum fjármunum verulegar upphæðir. Nú er það

ljóst að sú upphæð sem kemur til Reykjavíkurborgar af þessum lið í vegáætlun þeirri sem liggur fyrir, ef brtt. verður samþykkt, er 73 millj. af samtals 623 millj. kr. Þessir fjármunir gera varla betur en að koma til móts við þær verðbætur sem ég hygg að Reykjavíkurborg eigi rétt á samkvæmt þeirri kröfu sem til hefur stofnast á ríkisvaldið. Get ég þó ekki farið með neinar ákveðnar tölur í því sambandi en get áætlað það út frá öðrum samningum sem gengið hafa milli þessara aðila.
    Mér er ljóst að nánast er útilokað að gera samning um þetta efni þannig að greiðslur gangi af vegáætlun og vegafé næstu ára. Slíkt mundi gera það að verkum að skerðing til annarra framkvæmda yrði svo mikil að vart yrði við unandi. Þess vegna er það ósk mín að hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því á grundvelli heimildar í 6. gr. fjárlaga að gera samning við Reykjavíkurborg um greiðslu þeirrar kröfu sem samið yrði um. Auðvitað verða fulltrúar Reykjavíkurborgar, borgarstjórnin í Reykjavík, að gera sér grein fyrir því að greiðslur geta ekki komið á einu ári heldur verða þær að skiptast á nokkur næstu ár. Í því sambandi kemur auðvitað ýmislegt til greina, t.d. gæti Reykjavíkurborg fengið greitt í ríkisskuldabréfum, spariskírteinum ríkissjóðs, og þannig tekið þátt í því sparnaðarátaki sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir til þess að afla fjár á innlendum lánamarkaði.
    Ég vil láta það koma fram að ég hef rætt þessi mál við hæstv. fjmrh. og hann hefur haft góð orð um að þetta verði gert á þessu ári og þá með beinum samningum ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar.
    Ég vona að orð mín verði ekki skilin þannig að með þessu sé verið að veitast að öðrum framkvæmdum sem til er stofnað. Einungis er verið að benda á það að á sama tíma og ætlunin er að taka erlend lán, á sama tíma og talsverð skerðing á sér stað miðað við fyrri áætlanir, þá situr eftir mikil skuld sem fer stækkandi frá ári til árs. Ég vildi nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, til að vekja athygli á þessu máli í þeirri von að hæstv. ríkisstjórn beiti sér fyrir því á yfirstandandi ári að um þessar skuldakröfur verði samið þannig að fjármunir gangi til Reykjavíkurborgar á næstu árum til móts við þær kröfur sem borgin hefur sett fram og samið verður um.
    Ég vil benda á það að hér er ekki um að ræða óþarfa framkvæmdir. Það þekkja allir hv. þm. hvernig umferðin hefur verið í höfuðborginni á undanförnum árum og hvílík umskipti hafa orðið við þær miklu framkvæmdir á helstu umferðaræðum borgarinnar. Ég bið hv. þm. að sjá fyrir sér hvernig umferðaröngþveitið hefði orðið ef engar slíkar framkvæmdir hefðu komið til á undanförnum árum heldur hefði verið beðið eftir framlagi frá ríkisvaldinu á hverjum tíma. Ég er ansi hræddur um að þeir hv. þm. sem búa í úthverfum borgarinnar á þingtímanum hefðu þurft að dvelja langdvölum í bíl sínum á leið til þinghússins.
    Það er sjálfsagt talin vera nýbreytni að fulltrúi þingmanna úr Reykjavík ræði slík mál við umræður

um vegáætlun. En ég taldi nauðsynlegt að láta þetta koma fram vegna þess að hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Sú krafa sem uppi er höfð er orðin meiri en einn milljarður. Og þegar slík skuldastaða er fyrir hendi verður hæstv. ríkisstjórn auðvitað að taka tillit til hennar þegar hún gerir áætlanir um framkvæmdafjárlög á ári hverju.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að taka meiri tíma í að ræða þetta atriði. Ég deili að sjálfsögðu skoðunum með fulltrúum minni hl. hv. fjvn. og ætla ekki að ræða þau sjónarmið sem koma fram í áliti minni hl. nefndarinnar. En ég taldi sérstaka ástæðu til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri hér.