Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 04. maí 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki eyða löngu máli hér. Ég vildi aðeins koma að einu sérstöku atriði. Auðvitað mætti taka undir margt af því sem hér hefur komið fram. En ég vil rifja það upp að ég hef alltaf haldið því fram að við vitum það að í almennri vegagerð á landinu er eftir að gera dýrustu þættina. Þar af leiðandi verður varla hægt að framkvæma hin nýju stórverk, sem ákveðið er að taka, öðruvísi en með lántöku. Ég held því fram að það eigi að gera, það eigi að standa undir þessum verkum að einhverju leyti með erlendri lántöku, því eftir að byrjað er á jarðgöngum verður framkvæmdin ekki stöðvuð í miðjum klíðum.
    En það sem mig langaði aðeins til að koma inn á er það sem hv. 4. þm. Austurl. talaði um. Ég gerði fyrirspurn, bæði í fyrra og aftur núna í vetur við 1. umr. þessa máls, hvernig stæði á því að ekki væri hafin endurskoðun á langtímaáætlun í vegagerð. Ég held að það sé mjög brýnt núna að ekki dragist lengur að hefja þessa vinnu við langtímaáætlun í vegagerð. Það er að síga á síðustu ár þeirrar langtímaáætlunar sem unnið hefur verið eftir og það má ekki dragast lengur en fram á þetta ár að hefja það verk. Jafnframt verður að reikna með því að í þeirri langtímaáætlun verði skoðað hvernig fjármagna eigi þau stórvirki sem fram undan eru í vegagerð. Það er alveg ljóst, það þýðir ekkert fyrir einn eða neinn að halda öðru fram, það er útilokað að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar af bensíni og þungaskatti geti staðið undir þessum framkvæmdum svo vel sé. Það verður ekki gert.
    Ef hæstv. samgrh. tekur hér til máls vildi ég gjarnan fá að vita hvað þessum undirbúningi við endurskoðunina líður því það er stórt mál í framtíð þeirra verkefna sem við erum að tala um. Hvað sem má segja um hvort staðið verður við framkvæmdir eða ekki þá hefur langtímaáætlunin sem sett var á sínum tíma verið miklu þýðingarmeiri í vegagerðinni en menn kannski þorðu að vona þegar sú
ákvörðun var tekin.
    Ég vil aðeins nefna það hér í leiðinni að það sem mér fannst mjög óeðlilegt í sambandi við niðurskurðinn var að það kom í ljós á síðustu stundu að fé til brúargerðar hafi verið skorið niður um 9 millj. kr. en eitt kjördæmi hafi orðið fyrir niðurskurði upp á 26 millj. kr. Á Vesturlandi voru skornar niður tvær brýr, önnur sett út, upp á 18 millj., en hin skorin niður úr 15 millj. í 7 millj. Það leiddi af sér að ekki var hægt að fá leiðréttingu inn í þessa vegáætlun. En ég hef fengið staðfestingu á því hjá Vegagerðinni að hún muni standa við að byggja brúna á Álftá og tryggja nægilegt fjármagn í það. Og enn fremur að brúnni á Andakílsá verði aðeins frestað, hún hefur forgang á næsta ári. Ég vil nefna það hér að við Vestlendingar vorum ekki ánægðir en munum að sjálfsögðu haga okkur í samræmi við þetta en sækja okkar rétt á öðrum vettvangi.
    En ég vil endurtaka að ég óska eftir að fá að vita

um endurskoðun á langtímaáætlun, hvar hún stendur.