Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Fjvn. hefur haft þessa tillögu til meðferðar og kallað til fundar við sig vegamálastjóra og aðstoðarvegamálastjóra, svo og ráðuneytisstjóra fjmrn. og aðra starfsmenn þess ráðuneytis. Í nefndinni var óskað eftir frekari skýringum á nokkrum atriðum í þáltill. og voru þær skýringar gefnar. Þá óskaði nefndin eftir kostnaðaryfirliti um framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum og um kostnað við flýtingu jarðgangagerðarinnar frá því sem gildandi vegáætlun gerði ráð fyrir.
    Þessar upplýsingar um kostnað eru birtar sem fskj. með nál. fjvn. á bls. 2. Eru þar 8 dálkar. Fyrsti dálkurinn er auðskiljanlegur. Þar eru talin upp ár í réttri töluröð, allt frá árinu 1990 til ársins 1998. Í 2. dálki er gert ráð fyrir hvað umrædd framkvæmd, þ.e. jarðgöng á Vestfjörðum, mundi kosta á hverju ári fyrir sig til loka framkvæmdarinnar samkvæmt þeim hugmyndum sem uppi voru við afgreiðslu vegáætlunar og gerð jarðgangaáætlunar. Síðan koma kostnaðarleg áhrif af þeim breytingum sem nú stendur til að gera, þ.e. hröðun framkvæmda um tvö ár. Eins og sjá má kemur heildarkostnaður í 3. dálki sem er 61 millj. kr. 1990, 369 millj. kr. 1991 o.s.frv. Í 4. og 5. dálki gefur að líta hvernig sá heildarkostnaður skiptist á milli greiðslu af vegafé annars vegar og lántökum hins vegar. Kemur þar fram það sem hv. 1. þm. Vesturl. ræddi um hér fyrr í
dag. Síðan er í 6., 7. og 8. dálki tilgreindur kostnaður við framkvæmdina. Í 6. dálki er kostnaður alls, í 7. dálki það sem sparast fyrst og fremst vegna minnkandi þarfar á snjómokstri eftir að jarðgöngin eru komin í notkun og svo í síðasta dálki það sem greiða þarf úr ríkissjóði og nettótala. Samkvæmt þessu er kostnaður alls við flýtingu jarðgangagerðarinnar um tvö ár 431 millj. kr. og er þá reiknaður vaxtakostnaður af þeim lánum sem taka verður til að hraða þessum framkvæmdum. Sparnaður, og þá er rætt eingöngu um þann sparnað sem verður við vegaframkvæmdir vegna flýtingarinnar, er upp á 75 millj. kr. og dregst hann frá heildarkostnaðinum. Nettókostnaður við flýtingu jarðganganna er þá 356 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að greitt verði úr ríkissjóði sem sérstakt byggðaframlag, eins og texti tillögunnar gerir grein fyrir.
    Að lokinni athugun nefndarinnar á málinu urðu nefndarmenn ásáttir um að gera þyrfti nokkrar breytingar á tillgr. Er þar annars vegar um að ræða textabreytingar í því skyni að gera merkingu skýrari án þess að um nokkrar efnisbreytingar sé þar að ræða. Hins vegar er í tillögu nefndarinnar lögð til sú efnisbreyting að ljóst sé við afgreiðslu þál. að framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum skuli unnar samkvæmt vegáætlun og þar sé ráð fyrir þeim gert eins og á sér stað um aðrar vegaframkvæmdir í landinu sem kostaðar eru af ríkissjóði. Þarna er sem sé um það að ræða að leggja ekki út á þá braut að vinna vegaframkvæmdir sem kostaðar eru af ríkinu að einhverju leyti utan vegáætlunar heldur að vegáætlun

sé samnefnari þeirra vegaframkvæmda sem unnar eru í landinu og ríkissjóður kostar. Til þess að fyllsta samræmis sé þar gætt hefur fjvn. einnig flutt um það tillögu við afgreiðslu vegáætlunar sem nú hefur verið samþykkt að sá kostnaður sem verður á árinu 1990 við flýtingu jarðgangagerðar á Vestfjörðum komi inn í vegáætlunina sem sérstakt framlag úr ríkissjóði teknamegin í áætluninni og sem framkvæmdafé til undirbúningsrannsóknar við jarðgangagerðina gjaldamegin og hefur Alþingi nú þegar afgreitt þá uppsetningu jákvætt.
    Í grg. með tillögunni segir að viðbótarkostnaður við að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum verði 47 millj. kr. á árinu 1990. Þar segir einnig, eins og síðar var ítrekað við fjvn., að ætlunin sé að sjá fyrir þeirri fjáröflun með lántöku ríkissjóðs og samsvarandi framlagi úr ríkissjóði og að miðað sé við að fjárhæðin verði sett inn í fjáraukalög 1990 sem fram verði lögð í upphafi þings næsta haust. Verði þá jafnframt aflað lántökuheimildar og þá í tengslum við aðra hugsanlega lánsfjáröflun sem til kynni að koma og ekki liggur fyrir hver verða kann. Þótt eðlilegast kunni að vera að taka hvort tveggja, lántökuheimildina og útgjaldaheimildina, inn við afgreiðslu fjáraukalaga nú á þessu vori getur fjvn. eftir atvikum fallist á að bíða með formlega afgreiðslu málsins fram á næsta haust en flytja ekki nú sérstaka tillögu um viðbótarlántökuheimild sem næmi aðeins 45 millj. kr. og tilsvarandi ráðstöfun á þeirri fjárhæð, enda liggur fyrir yfirlýsing frá fjmrn. um að ráðuneytið muni með bréfi til Vegagerðar ríkisins heimila henni að draga á þessa fyrirhuguðu afgreiðslu vegna útgjalda við verkefnið í sumar. Brtt. fjvn. um að tillgr. skuli umorðuð er flutt á þskj. 1107. Nefndin leggur til að þáltill. verði samþykkt þannig breytt.
    Fjvn. stendur öll að þessu nál. og brtt. Undir nál. skrifa auk mín hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Pálmi Jónsson með fyrirvara, Alexander Stefánsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Ásgeir Hannes Eiríksson, Ólafur Þ. Þórðarson, Egill Jónsson og Friðjón Þórðarson.
    Virðulegi forseti. Þar sem ég hef nú lokið við að mæla fyrir nál. hv. fjvn. vil ég leyfa mér að segja nokkur orð frá eigin brjósti um þá tillögu sem hér er á ferðum. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgrh. fyrir frumkvæði hans
og forgang í þessu máli og taka undir það sem áður hefur komið fram að hér er sennilega um að ræða þá þýðingarmestu framkvæmd sem unnin hefur verið í samgöngumálum fyrir nokkurn landshluta síðan Vestfjarðaáætlunin var gerð forðum daga sem gerbreytti öllum aðstæðum í samgöngumálum og mannlífi á Vestfjörðum. Ég efast um að þingmenn sem ekki eru kunnugir á Vestfjörðum geri sér fulla grein fyrir því hversu mikil breyting fylgir í kjölfar þessara framkvæmda. Þarna er nánast verið að búa til eitt atvinnusvæði úr jafnvel fjórum atvinnusvæðum nú. Þarna er raunverulega verið að búa til þann kjarna sem á að geta staðið af sér þá erfiðleika sem verið hafa í búsetumálum á Vestfjörðum nú um nokkurn

aldur. Verður hann sú miðstöð sem getur orðið til eflingar byggða þar og snúið þeirri öfugþróun við sem átt hefur sér stað á umliðnum árum. Eftir að þessi framkvæmd hefur komist á verður það ekki meira tiltökumál fyrir t.d. íbúa á Flateyri að sækja þjónustu og jafnvel atvinnu til Ísafjarðar en það er nú fyrir Hafnfirðing að sækja þjónustu og atvinnu til Reykjavíkur. Þessi breyting mun hafa gífurleg áhrif á það atvinnulíf sem við þekkjum nú á þessu svæði. Það er t.d. mjög líklegt að ýmsir atvinnuhættir, svo sem útgerðarhættir, breytist mjög verulega á milli staða þar sem það getur gerst að menn geta með hröðum og öruggum hætti árið um kring komist á milli staða eins og Ísafjarðar og Súgandafjarðar. Þar sem annar staðurinn liggur mjög vel fyrir t.d. útgerð smærri báta má því búast við mjög miklum breytingum á atvinnuháttum í kjölfar þessa.
    Þá vil ég einnig benda á, þó það komi ekki fram hér, að þessari framkvæmd mun fylgja mikill sparnaður á öðrum sviðum þegar ljóst er orðið að hægt er að samnýta árið um kring mannvirki á þessu svæði eins og flugvelli, hafnir, skóla og íþróttamannvirki fyrir alla íbúa svæðisins sem ekki er hægt við núverandi aðstæður.
    Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri en ítreka þakkir mínar til hæstv. samgrh. fyrir frumkvæði hans í þessu máli og ítreka það sem ég sagði hér áðan að fjvn. leggur til að tillagan verði samþykkt eins og hún er frágengin á þskj. 1107 með þeim breytingum sem þar er að finna.