Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 04. maí 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur stendur fjvn. öll að þessu nál. og leggur til að tillagan verði samþykkt. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þær byggðir sem hlut eiga að máli á Vestfjörðum, eins og glögglega hefur komið fram og óhætt að vænta þess að framkvæmd verksins verði til þess að létta því fólki sem þar býr lífsbaráttuna og efla því kjark og þrek til að snúa vörn í sókn í byggðaþróun í þessum landshluta. Ég ritaði undir nál. með fyrirvara. Vegna þessa fyrirvara tel ég rétt að segja hér örfá orð og skýra í hverju hann er fólginn.
    Ég vil gjarnan láta það koma fram að í þessu þýðingarmikla máli er það svo að fjármögnunarþáttur málsins er illa undirbúinn og nánast í lausu lofti og vísað á framtíðina. Í tillögunni er gert ráð fyrir að um verði að ræða lántökur og síðan framlög ríkissjóðs. Ef ekki verður um fjáröflun að ræða er gert ráð fyrir því að greiðslur ríkissjóðs, sem yrðu eins konar byggðaframlag til þessa landshluta, til þess að mæta kostnaðarflýtingu jarðganganna næmu 356 millj. kr. Eru þá dregnar frá 75 millj. kr. sem er meintur sparnaður við snjómokstur á þeim árum sem framkvæmdartími jarðganganna styttist. Nú skal ég ekkert segja um það hvort hér sé um rétta áætlun að ræða, enda skiptir það ekki meginmáli. Á hitt ber þó að líta að snjómokstur á þessum leiðum fellur ekki niður vegna þess að þó ekki þurfi snjómokstur í göngunum og ekki yfir þessa fjallvegi, þá mun hið nýja atvinnusvæði Vestfjarða krefjast þess að snjómokstur verði daglega á þeim vegum sem liggja að gangamunnunum. Og ég hygg að það verði nokkuð tíðari snjómokstur en tíðkast nú.
    Í tillgr. segir: ,,Ríkisstjórnin skal láta fara fram könnun á möguleikum þess að afla sérstaklega lánsfjár og/eða tekna til að standa straum af kostnaði vegna ákvörðunar um að flýta framkvæmdum og skila áliti til næsta Alþingis.`` Hér er um að ræða í tillgr. sjálfri ályktun um að stefna skuli að einhverri athugun á fjármögnunarþáttum málsins. Það er út af fyrir sig vel en ég gagnrýni það að þessi áætlun skuli ekki þegar hafa verið unnin þegar málið er lagt fyrir Alþingi.
    Ég minni á annað stórvirki í vegamálum hér á landi sem hafði að baki sér nýja leið í fjármögnun til vegaframkvæmda. Það var vegurinn yfir Skeiðarársand og brýrnar á Skeiðarársandi. Þar var efnt til sérstakrar skuldabréfaútgáfu með happdrættisfyrirkomulagi til þess að standa straum af því verki að hluta til. Ég tel að vel hefði komið til greina að lögfesta slíka fjármögnunarleið fyrir þetta verk til þess að geta séð fyrir
fjármögnunarþætti málsins sem er auðvitað alltaf grundvallaratriði, ekki síður fyrir það að hér er um gífurlega þýðingarmikið verk að ræða.
    Ég vildi láta þetta koma hér fram, að fyrirvari minn í nál. er bundinn því að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Það haggar ekki og raskar ekki á nokkurn hátt þýðingu verksins sjálfs. Það ber hins vegar keim af því að hæstv. ríkisstjórn er með

málatilbúnað sem ekki er séð fyrir fé til nema að hluta. Og þó að það sé vitaskuld ekkert einsdæmi þá er eðlilegt að krefjast þess að um leið og stórvirki er hraðað, --- þetta hafði náttúrlega verið sett af stað áður og áætlunin komin fram og fyrir því séð í vegáætlun, en þegar því er hraðað og kostnaður við það á að verða 431 millj. kr. að þá sé gert ráð fyrir því hvernig verkið eigi að fjármagna á annan hátt en þann að segja að ríkisstjórnin ætli ,,að láta fara fram könnun á möguleikum þess`` að afla fjárins.
    Ég vil svo, eftir að ég hef skýrt það hvers vegna ég ritaði undir nál. með fyrirvara, óska Vestfirðingum til hamingju með þessa framkvæmd sem raunar hafði áður verið ákveðin og fest í vegáætlun. Ég vonast til þess að hún muni hafa þær heillavænlegu afleiðingar sem ég setti fram óskir um hér í upphafi máls míns og þannig um leið reynast þjóðinni allri þýðingarmikil.