Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 04. maí 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég hef jafnan, þegar ég hef rætt um það mál sem nú er til umræðu, þakkað hæstv. samgrh. fyrir hans frumkvæði og framtak í þessu máli og ég geri það enn. En sérstaklega vil ég við þetta tækifæri leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega um þetta mál eða þýðingu þess fyrir vestfirskar byggðir. Ég hef rætt um það nokkrum sinnum áður, m.a. við fyrri umræðu þessa máls og önnur tækifæri hér í þinginu.
    Ég vil nú aðeins taka undir það sem hv. 5. þm. Vestf., formaður fjvn. og frsm., sagði um þetta efni. Það skiptir ákaflega miklu að hv. fjvn. er sammála í þessu þýðingarmikla máli. Það breytir að sjálfsögðu engu þó einn nefndarmanna, hv. 2. þm. Norðurl. v., skrifi undir með fyrirvara. Nefndin er sammála og hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur skýrt sinn fyrirvara sem liggur í því að hv. þm. ber mikla umhyggju fyrir því að það sé séð fyrir enda þessa máls og að framkvæmd geti orðið eins og til er stofnað. Það er ekkert nema gott um slíkt að segja. En ég leyfi mér að treysta því að það gangi eftir sem segir í síðustu málsgrein till., þ.e. að ríkisstjórnin láti fara fram könnun á möguleikum til þess að afla sérstaks fjármagns í því skyni. Ég geng út frá því að það verði gert og að við hv. þm. megum allir vænta þess að af þessari framkvæmd verði á þeim tíma og með þeim hætti sem til er stofnað.