Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 04. maí 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég vona að það ýfi ekki upp umræður hér í nóttinni þó ég leyfi mér að færa fjvn. þakkir fyrir hennar meðhöndlun á þessari till. Nú þegar við nálgumst að vera stödd jöfnu báðu óttu og miðnættis hér í nóttinni við að ræða mál þá er að sjálfsögðu skylt að reyna að stytta mál sitt. Ég ætla því ekki að fara út í efnislega umfjöllun, þar hef ég raunar sagt allt sem ég tel mig þurfa að segja, en þakka fyrst og fremst fyrir þá samstöðu sem tókst í hv. fjvn. um afgreiðslu á þessari till. Það er mér, og ég vænti okkur öllum, ákaflega mikilvægt að svona stórt og mikilsvert mál fái þá samstöðu á bak við sig sem hér hefur orðið. Ég veit að það er Vestfirðingum mjög kærkomið að tekist hefur pólitísk samstaða hér á Alþingi við að afgreiða þetta brýna hagsmunamál þeirra.
    Ég get upplýst hv. þm. um það --- þess hef ég áþreifanlega orðið var síðustu daga og þá daga sem þetta mál hefur verið hér til umfjöllunar og ég trúi fleiri af hv. þingmönnum hafi farið svo --- að með því er fylgst af mikilli athygli vestur þar. Ég vænti þess, ef svo fer sem horfir, að hv. Alþingi afgreiði þessa till. á morgun, að það muni þykja góðar fréttir vestra.