Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Herra forseti. Frv. þetta er flutt til þess að fá lögfestar þær breytingar á tekjum og gjöldum ríkissjóðs sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegar til þess að standa við yfirlýsingar sem gefnar voru í tengslum við kjarasamninga í febrúarmánuði sl. Meiri hl. nefndarinnar hefur þó samþykkt að leggja fram brtt. um útgjöld til tveggja viðfangsefna sem sýnilega vantaði fé til við afgreiðslu fjárlaga, svo sem fram kom í máli hv. frsm. meiri hl. hér áðan. Hér er um að ræða fé til ríkisspítalanna og til loðdýraræktar. Ýmsir slíkir liðir liggja eftir og munu væntanlega verða að bíða fjáraukalagafrv. sem boðað hefur verið að lagt verði fyrir Alþingi í haust. Þar má nefna liði eins og jöfnunargjald í iðnaði, endurgreiðslu söluskatts í sjávarútvegi og fjölmarga þá liði sem ég rakti við afgreiðslu fjárlaga að vantaði fé til að standa við þá starfsemi sem ætlast er til í fjárlögunum.
    Þær niðurskurðartillögur sem birtast í þessu frv. og meiri hl. hv. fjvn. leggur til að verði samþykktar eru margar hverjar ærið sérkennilegar. Það sem einkennir þessar brtt. er m.a. eftirfarandi:
    1. Í rekstrarliðum einstakra stofnana er sums staðar farið afar nákvæmlega í saumana þannig að niðurskurður er í einstökum tilvikum niður í 10--20 þús. kr. á stofnun og í öðrum tilvikum nokkru fleiri tugir þúsunda eða nokkur hundruð þús. kr. Ég tel að þetta sé mikil nákvæmni. ( SighB: Ekki tillögur meiri hl. fjvn.) Ég sagði, tillögur sem meiri hl. leggur til að verði samþykktar, hv. formaður fjvn. Ef þú lest frv. þá sérðu þessa liði sem þú leggur til, hv. 5. þm. Vestf., að verði samþykktir og eru meðal grunnatriða þessa frv.
    Ég tel þetta afar mikla nákvæmni, ekki síst með tilliti til þess að hæstv. fjmrh. hefur nú sannað ágæti sitt við fjármálastjórnina á síðasta ári og síðustu mánuðum ársins 1988 eins og við ræddum hér rétt áðan, m.a. á síðasta ári með því að fara fram úr heimildum fjárlaga á útgjöldum ríkissjóðs um 9600 millj. kr.
    Þá er það býsna mikil nákvæmni að flytja nú frv. til laga um niðurskurð á útgjöldum einstakra stofnana allt niður í 10 þús. kr. ( Gripið fram í: Nákvæmt skal það vera.) Já, það er nákvæmt.
    2. Skorið er niður í fjölmörgum fjárfestingarliðum sem fjvn. og Alþingi hafði lokið við að skipta örfáum vikum áður en þetta frv. var flutt. Þetta tekur til fjárfestingarliða að því er varðar skólabyggingar, heilbrigðismannvirki, hafnamannvirki og fjárfestingarliði einstakra stofnana. Mestur er þó niðurskurður hjá Vegagerð ríkisins, 79 millj. kr.
    3. Lagt er til að skera niður framlög sem eru hvort tveggja í senn lögbundin og samningsbundin. Svo er t.d. um framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs, til Framkvæmdasjóðs aldraðra, til jarðræktar- og búfjárræktarframlaga og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Allt eru þetta lögbundin framlög og þar ofan í kaupið samningsbundin. Eigi að síður er lagt til með frv. að þessi framlög séu skorin niður og

þar sem þetta er nú frv. sem lagt er fyrir Sþ. þá er í sumum tilvikum svo farið að unnt verður að innheimta þetta fé samkvæmt lögum með málsókn ef ekki vill betur til vegna þess að fjárlög taka ekki af önnur lög.
    4. Niðurskurði er beitt gagnvart stofnunum sem þegar höfðu of lítið fé til sinnar starfsemi á fjárlögum. Svo er t.d. um Flugmálastjórn sem hér hefur verið gerð að umtalsefni í umræðum fyrr í kvöld og í nótt. Talið var við afgreiðslu fjárlaga og ég benti þar rækilega á að það vantaði 47--48 millj. kr. til þess að unnt væri að halda rekstrinum gangandi miðað við það umfang rekstrarins sem nú er í gangi. Og þrátt fyrir það að skipuð hafi verið nefnd og þrátt fyrir það að nú sé talað um að þessi vandi verði að bíða fjáraukalagafrv. í haust þá lá þetta allt saman fyrir þegar fyrir afgreiðslu fjárlaga nú fyrir síðustu jól. En þetta er ekki nóg, þetta er nú ekki aldeilis nóg, hæstv. ráðherrar sem hér eru inni og hv. stjórnarliðar. Til viðbótar á að skera niður hjá þessari stofnun skv. frv. um 19,4 millj. kr. Engar upplýsingar hafa fengist um það, þrátt fyrir það að þess hafi ítrekað verið krafist, hvernig stofnunin á að mæta þessum niðurskurði ef hann á að vera raunhæfur, ef ekki á að taka það til baka, sem hér er verið að leggja til að sé skorið niður, með auknum útgjöldum á fjáraukalögum í haust, sem vafalaust verður niðurstaðan. Þetta er því hráskinnaleikur, ég vil ekki segja leikaraskapur því að þetta er stóralvarlegt mál. Þetta er hráskinnaleikur og þýðingarlaus og rangur niðurskurður. Ég hef spurt hvort hæstv. ríkisstjórn hafi þá gert áætlanir um það að loka einhverjum tilteknum flugvöllum og þá hverjum, ellegar hitt að einhver hluti af starfsliðinu eigi að vinna kauplaust. Við því fást vitaskuld engin svör.
    Þessi fjögur atriði einkenna í megindráttum niðurskurðartillögurnar og eru ýmist ranglát, hlægileg þegar verið er að gera tillögur um það að skera niður rekstrarfé einhverrar stofnunar um 10--20 þús. kr., ellegar þá hæpin og óraunhæf þegar farið er gegn lögum og samningum þannig að þeir aðilar sem fyrir verða geta farið í mál og innheimt sitt fé samkvæmt lögum þrátt fyrir það að það sé að nafninu til skorið niður með þessu frv. ef samþykkt verður.
    Þá hef ég leitað nokkuð eftir því í fjvn. og við fulltrúar minni hl. hvort ekki sé unnt að fá gefnar upp einhverjar nýjar áætlanir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um hugsanlegar breytingar á tekjuhlið fjárlaga og tekjum ríkissjóðs á þessu ári umfram það sem fram kemur í frv. Þetta hefur ekki tekist og þrátt fyrir það að nú sé um það rætt að batnandi horfur séu í þjóðarbúskapnum vegna hækkandi verðs á afurðum okkar erlendis og betri viðskiptakjara sem hljóta að auka veltu í þjóðfélaginu og hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs, þá fást engin svör við því á hvern hátt hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. áætla að þetta komi til með að skila sér í fjárlagadæminu.
    Ég hafði einnig spurst fyrir um það hvort breytingar á verðlagsforsendum og breytingar á kaupmætti frá því sem áætlað var við gerð fjárlaga

vegna kjarasamninganna í febrúar sl. kynnu að hafa áhrif á tekjuhlið fjárlaga. Ég hef fengið þau svör að svo sé í raun ekki. Ég vek á því athygli að með nál. meiri hl. á þskj. 1154 er birt fylgiskjal frá hagdeild fjmrn. um frávik í forsendum verðlags og launa eftir kjarasamningana frá því sem gert hafði verið ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1990. Þar kemur í ljós að nú er gert ráð fyrir að þessar breytingar séu allt aðrar en talað var um skömmu eftir kjarasamningana. Ég skal ekki taka tíma til þess að fara yfir verðlagsforsendurnar en það var mikið talað um það að með því að aðilar vinnumarkaðarins mynduðu nýjan efnahagsgrundvöll fyrir hæstv. ríkisstjórn þá yrðu breytingar á kaupmáttarhreyfingum á þessu ári frá því sem áætlað hafði verið við afgreiðslu fjárlaga. Við afgreiðslu fjárlaga var gert ráð fyrir því að kaupmáttur rýrnaði á milli áranna 1989 og 1990 að meðaltali um 5,5%, ofan í 8% lækkun kaupmáttar á milli áranna 1988 og 1989. Síðan var sagt eftir að kjarasamningarnir voru staðfestir að hinn nýi efnahagsgrunnur færði launþegum í landinu það að kaupmáttarrýrnunin yrði ekki nema 0,5% í stað 5,5% og kjarasamningarnir hefðu það í för með sér að kaupmáttur launamanna og verkafólks rýrnaði um 5% minna en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum hæstv. ríkisstjórnar við afgreiðslu fjárlaga.
    Nú veit ég ekki hver áætlar rétt ellegar hver segir satt því hér segir í fskj. frá hagdeild fjmrn. að þessi rýrnun kaupmáttarins eftir kjarasamninga sé nákvæmlega hin sama og gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga eða 5,5%. Og þar er átt við að meðaltali á milli áranna 1989 og 1990. Hins vegar hafi áætlanir um kaupmáttarskerðingu frá upphafi til loka þessa árs lækkað um 0,5%. Þessar prósentutölur kann hæstv. iðnrh. vel að lesa í vegna þess að oft hefur hann staðið fyrir því að birta slíkar spár. Nú veit ég ekki hvort starfsmenn í hagdeild fjmrn. eru svo fastir í þeim áætlunum sem voru við afgreiðslu fjárlaga og vilji hafa hvað eina í sama horfi og þá var að þeir vilji ekki hvika frá því sem þá var sagt og láta afleiðingar kjarasamninga lönd og leið eða hvort þetta lítur í raun og veru svona út um þessar mundir og allt saman hafi verið slúður sem sagt var um hinn nýja efnahagsgrunn í kjölfar kjarasamninga. Þessu þykir mér ástæða til að vekja athygli á í tengslum við þessa umræðu í kjölfar þeirra krafna minna að fá upplýst um áætlanir hæstv. ríkisstjórnar um breytingar á tekjuhlið fjárlaga á þessu ári vegna nýrra horfa í þjóðarbúskapnum og batnandi viðskiptakjara.
    Önnur svör en hér hefur verið vitnað til úr því fskj. sem birtist með nál. meiri hl. hafa ekki fengist. Samkvæmt þessu frv. liggur það fyrir að með brtt. sem fluttar eru af hv. meiri hl. nefndarinnar er gert ráð fyrir því að halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári vaxi úr 3,7 milljörðum sem gert var ráð fyrir í fjárlögum í 4,5 milljarða eða um 800 millj. kr. Er þá ekki talið það sem enn er dulið af hallanum, eða útgjöldum ríkissjóðs, og enn er sagt hér við afgreiðslu þessa máls að eigi að bíða væntanlegra fjáraukalaga í haust. Þar er heldur ekki talið það sem fram er komið

af brtt., til að mynda frá hæstv. fjmrh.
    Við sem stöndum að nál. minni hl. og erum fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. teljum nauðsynlegt að beita stórauknum sparnaði í meðferð ríkisfjármála. Við höfum marglýst því yfir að þess verði að krefjast að sá sparnaður komi fyrst
af öllu fram í aðalskrifstofum ráðherranna sjálfra og í ýmsum ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn tekur án þess að bera undir hv. Alþingi og fer þannig iðulega í bága við heimildir fjárlaga og stundum í bága við ákvæði eða heimildir annarra laga.
    Það frv. sem hér liggur fyrir þjónar ekki þessu markmiði. Þvert á móti standa yfirleitt óhreyfðir þeir fjárlagaliðir sem einstakir ráðherrar og að sumu leyti hæstv. ríkisstjórn í heild eiga að hafa til frjálsrar ráðstöfunar að eigin geðþótta. Þessum fjárlagaliðum er að mestu hlíft. Að sjálfsögðu ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki með frv. að fara að skera niður heima hjá sér eða heima hjá einstökum ráðherrum nema að mjög litlu leyti. Á hinn bóginn er krukkað í útgjaldaliði, svo sem að framan er vikið, einkanlega þá sem fjær standa ráðherrunum sjálfum, og það jafnt fyrir það þó fjvn. og Alþingi hafi lagt mikla vinnu í það að deila niður fé, svo sem til ýmissa fjárfestingarliða. Nú er það svo að það frv. sem hér er á ferðinni og felur í sér niðurskurð, allt niður í 10 þús. kr. á einstakar stofnanir og einstaka
fjárlagaliði, er ekki eina niðurskurðarplaggið sem er á ferðinni. Eins og fram kom í máli formanns fjvn. höfum við séð lista yfir hluta af þeim niðurskurði sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að framkvæma á grundvelli heimildagreinar í fjárlögunum eða upp á 150 millj. kr. Er þá ótalið annað eins sem eftir er að gera grein fyrir. Fjvn. hefur ákveðið að taka það mál til meðferðar eftir helgi en hefur eigi unnist tími til þess nú eins og formaðurinn sagði.
    Þessar sífelldu breytingar á fjárlögum á fjárlagaárinu eru að mínum dómi afar óheppilegar. Þær fela það í sér að forstöðumenn stofnana og forstöðumenn ráðuneyta vita ógjörla hvar þeir standa. Þeir eiga yfir höfði sér breytingar á heimildum til útgjalda hvenær sem er á árinu og kannski æ ofan í æ. Það leiðir aftur til þess að aðhaldið sem fjárlögin eiga að veita dvínar og ringulreið í meðferð fjármuna ríkisins fer vaxandi. Það er mikils virði að forstöðumenn stofnana geti treyst því sem fjárlögin segja og geti byggt sínar rekstrarlegu áætlanir og áætlanir um mannahald og laun og annað þess háttar ásamt fjárfestingarliðum sem fjárlögin segja en að ekki sé sífellt verið að krukka í þetta í hinum smæstu atriðum.
    Það sem ég hef sagt hér um þetta atriði haggar ekki því að við sem að nál. minni hl. stöndum teljum nauðsynlegt að standa við þær yfirlýsingar sem gefnar voru í tengslum við kjarasamningana og skera niður útgjöld ríkissjóðs til þess að fullnægja því markmiði. Einnig er nauðsynlegt að gerbreyta um vinnulag í fjármálum ríkisins þannig að þar verði komið við sparnaði og aðhaldi en ekki eyðslu og sóun. Það er nauðsynlegt.

    Við sem að þessu nál. stöndum teljum því alveg óhjákvæmilegt að flytja brtt. Brtt. sem við flytjum við þetta frv. eru nokkuð margar og birtast hér á þskj. 1174. Þessar brtt., ef samþykktar yrðu, fela í sér að frv. yrði gerbreytt og þær fela í sér allt aðrar áherslur en frv. ber með sér. Þær meginlínur sem hafðar eru til hliðsjónar við flutning þessara brtt. eru eftirfarandi:
    Lagt er til að skera niður ýmsa safnliði sem í fjárlögunum eru ætlaðir til frjálsrar notkunar fyrir hæstv. ríkisstjórn og einstaka ráðherra. Hér er m.a. um að ræða lækkun á gjaldaliðum til að mæta útgjöldum vegna heimildarákvæða, þar á meðal heimildarákvæða sem samþykkt voru hér við lokaafgreiðslu fjárlaga og fólu það í sér að heimila hæstv. ríkisstjórn að kaupa til viðbótar við það sem áður hafði tíðkast 500 eintök af dagblöðunum. Niðurskurðartillaga okkar felur þetta m.a. í sér.
    Við leggjum einnig til að lækka gjaldaliði sem eru til frjálsrar ráðstöfunar samkvæmt sérstökum samþykktum hæstv. ríkisstjórnar og svokallað ráðstöfunarfé einstakra ráðherra verði fellt niður. Lagt er til að fé til örfárra annarra viðfangsefna verði lækkað eða fellt niður en þar er þá um að ræða í einstökum tilvikum sérstök verkefni sem hægt er að hverfa frá og eru skorin niður í heilu lagi.
    Á móti nýjum niðurskurðartillögum okkar er lagt til að stórfækka þeim niðurskurðartillögum sem eru í frv. sjálfu.
    1. Lagt er til að fella niður alla niðurskurðarliði frv. sem á heilli stofnun eru lægri en 1 millj. kr. --- ýmsir þeirra nema, eins og áður sagði, 10--20 þús. kr. --- vegna þess að slíkir niðurskurðarliðir eru settir fram upp á grín en ekki í alvöru og skipta engu máli í útkomu hjá ríkissjóði á heilu fjárlagaári.
    2. Við leggjum til að fella niður allan niðurskurð á fjárfestingarliðum sem lögð hefur verið mikil vinna í að kanna þörf fyrir og síðan skipta af hálfu fjvn. og Alþingis við afgreiðslu fjárlaga. Þetta á við um fé til skóla, hafna, sjúkrahúsa og læknisbústaða. Undir þetta getur einnig heyrt fé til tækjabúnaðar fyrir Landhelgisgæsluna sem fjvn. og Alþingi tóku ákvörðun um við afgreiðslu fjárlaga og Landhelgisgæslan er búin að bíða ærið lengi eftir og af mikilli þörf.
    3. Lagt er til að þurrka út niðurskurð á fé til stofnana og viðfangsefna sem þegar höfðu of knappt fé á fjárlögum eins og þau voru afgreidd. Þetta á við um niðurskurð á fé til Rannsóknasjóðs, jarðræktar- og búfjárræktarframlaga, Rannsóknarlögreglu ríkisins, Framkvæmdasjóðs aldraðra, Flugmálastjórnar, sem áður er að vikið, og til styrkingar á dreifikerfum í sveitum á vegum Orkusjóðs.
    Á öllum þessum sviðum er mjög brýn þörf fyrir það fé sem til ráðstöfunar er á fjárlögum og í sumum tilvikum er það of lítið miðað við þær þarfir sem fyrir liggja, eins og hér hefur sumpart verið að vikið áður.
    Ég skal taka fram sérstaklega varðandi eina stofnun sem lagt er til að fella niður niðurskurð hjá um 3 millj. kr. Það er Rannsóknarlögregla ríkisins sem er sú af stofnunum dómsmálakerfisins sem hvað helst hefur

leitast við að halda sig innan fjárlagaramma hverju sinni með þeim afleiðingum að henni er hegnt fyrir með því að þar skuli skorið niður en ekki hjá ýmsum öðrum stofnunum dómsmálakerfisins. Og þá um leið vitandi það að vegna hins knappa fjárhags sem Rannsóknarlögreglan hefur sætt sig við að undanförnu hafa mál þar hrannast upp og bíða úrlausnar. Nýlegir atburðir ættu að minna hæstv. ráðherra á að það er ekki rétt að verki staðið undir þeim kringumstæðum að krukka enn í fé þeirrar stofnunar.
    Þannig væri hægt að skýra okkar tillögur við hverja stofnun fyrir sig. Ég skal ekki á þessum næturfundi taka tíma til þess þó það væri tilefni til að skýra hverja og eina brtt. okkar ærið ítarlega því að þá mundu þeir sem á hlýddu væntanlega sannfærast um að þær eiga fullan rétt á sér og meira en það, þær gerbreyta þessu frv. ef samþykktar yrðu. Og þær niðurskurðartillögur sem við setjum fram í staðinn eru yfirleitt á liðum sem hæstv. ráðherrar geta notað til frjálsrar ráðstöfunar, þ.e. til eyðslu og sóunar í eigin skrifstofum og vegna ákvarðana sem hæstv. ríkisstjórn kann að taka án þess að hafa borið undir Alþingi, sbr. reynslu frá síðasta ári og hinu næstsíðasta. Þannig liggur þetta mál fyrir.
    Ég vil jafnframt segja það að brtt. okkar fela það í sér að þær mundu knýja hæstv. ríkisstjórn til nokkurrar sparnaðarviðleitni í stað þess að hæstv. ríkisstjórn þarf ekki að sýna neina sparnaðarviðleitni hjá sjálfri sér eða í sínum ákvörðunum, hvorki þó skorið sé niður hjá stofnunum eins og Flugmálastjórn, til Framkvæmdasjóðs aldraðra, til Rannsóknasjóðs eða Rannsóknarlögreglu ríkisins o.s.frv. né til einstakra skólabygginga sem er skorið niður samkvæmt þessu frv. í ótal mörgum liðum um ýmist nokkur hundruð þúsund eða nokkrar milljónir á hverri stofnun fyrir sig. Þetta knýr ekki hæstv. ríkisstjórn til að huga að sparnaði hjá sér, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta knýr aðra til þess að breyta sínum áætlunum, til þess að breyta þeim áætlunum sem gerðar hafa verið um fjárfestingu og breyta þeim áætlunum sem gerðar hafa verið um rekstur, aðra sem fjær standa hæstv. ráðherrum í ríkiskerfinu.
    Þetta frv. eins og það liggur fyrir er dæmigert fyrir það háttalag hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra að hlífa þeim liðum sem þeir hafa fyrir sjálfa sig og sínar skrifstofur og sína gæðinga en taka á þeim sem fjær standa og ráðherrunum hæstv. eru ekki eins kærir.
    Ég vil láta það koma fram að verði brtt. okkar sjálfstæðismanna við þetta frv. á þskj. 1174 samþykktar felur það í sér að fram kemur nýr og aukinn niðurskurður útgjalda um 274 millj. 470 þús. kr. en niður falli aðrar niðurskurðartillögur úr þessu frv. ríkisstjórnarinnar sem nema 201 millj. 390 þús. kr. Tillögur okkar fela því í sér lækkun á halla ríkissjóðs á þessu ári sem nemur 73 millj. 80 þús. kr.
    Ég lýk máli mínu, herra forseti, með því að lýsa yfir því að verði þessar tillögur okkar sjálfstæðismanna samþykktar skulum við standa að samþykkt þessa frv. Verði þær felldar er ekki nokkur

leið að standa að þessu frv. eins og það liggur fyrir. Í fjölmörgum greinum er það gersamlega óviðunandi.