Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil nú halda því fram að svörin sem gefin voru af minni hálfu hafi verið alveg skýr. Málið er til athugunar og ef niðurstaða af þeim athugunum sýnir að þarna sé fjárþörf og hún nákvæmlega metin, verður nákvæmlega búið um hnútana með það hvernig ljúka skuli þessum greiðslum, sem staðið hafa, eins og fram hefur komið hér, í 10 til 15 ár, á skipulegan hátt þannig að sanngjarnlega sé að málinu staðið, um leið og litið verði á hvernig best sé að ljúka jöfnunargjaldskerfinu. Við erum hér að tala um, eins og ég nefndi áðan, umþóttun frá einu fyrirkomulagi til annars sem við þurfum að meta vandlega. Þess vegna og líka af því að verkefni fjáraukalaga vegna kjarasamninga sem við ræðum nú er þröngt --- og ber að skilgreina þröngt --- ef ekki væri af öðru þá vegna fordæmis. Þetta allt saman gerir það að verkum að við höfum, eða ég a.m.k. sem hér stend hef lýst því skýrt og skilmerkilega hvernig ég vil að málinu standa. Ef hv. 1. þm. Reykv. telur sjálfur að tillöguflutningur eins og hann hefur hér haft í frammi geti haft í för með sér að tillögurnar féllu, að ekki væri unnt að leysa þann vanda sem okkur báðum ber saman um að efnislega sé til staðar, þá bið ég hann mjög alvarlega að hugleiða það að kalla aftur þessar brtt. Hann hefur komið mjög rækilega á framfæri sínum góða vilja í málinu, hvert hugur hans stefnir, og hann getur líka vitnað til þess að hér hafi komið fram eindregnar yfirlýsingar um það af minni hálfu hvernig að málinu verði staðið og lausn þess. Þetta teldi ég að væri þinglega rétt aðferð hjá hv. þm. sérstaklega ef hann telur sjálfur að málinu sé í tvísýnu stefnt með slíkum tillöguflutningi á þessu stigi máls. Hér er alls ekki um það að ræða að ríkisstjórnin ætli að taka í sínar hendur fjárveitinga- eða skattlagningarvald sem hún ekki hefur. Það er auðvitað alls ekki ætlunin heldur eingöngu þetta sem ég hef nefnt, að finna málinu réttan vettvang á réttum tíma við það tækifæri sem gefst í haust, eins og margyfirlýst er, til að fjalla að nýju um fjáraukalög vegna ársins 1990.