Íslensk heilbrigðisáætlun
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um till. til þál. um íslenska heilbrigðisáætlun en það er svohljóðandi:
    ,,Tillagan felur í sér að Alþingi álykti um íslenska heilbrigðismálastefnu til ársins 2000 í samræmi við áætlun sem sett er fram í tillögunni. Henni er skipt niður í níu kafla þar sem fram eru sett 37 tölusett markmið, flest í mörgum liðum, og inn á milli frásagnir sögulegs efnis, lýsing á stöðu mála og æskilegri þróun. Alls er ályktunartexti 16 blaðsíður. Greinargerð er stutt, en með henni er birt fylgiskjal sem er skrá yfir ,,verkefni sem þarf að framkvæma til þess að markmið heilbrigðisáætlunar náist``.
    Hvati að undirbúningi tillögunnar voru samþykktir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1984, en að tillögunni hefur verið unnið frá árinu 1986 og m.a. fjallað um hana á heilbrigðisþingi 1988. Hún var lögð fram til kynningar á Alþingi vorið 1989 en komst þá ekki til nefndar og liggur nú öðru sinni fyrir þinginu.
    Nefndin hefur fjallað um tillöguna á mörgum fundum. Í upphafi málsmeðferðar, 28. nóv. 1989, komu til viðræðna við nefndina Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri og eftirtaldir formenn vinnuhópa sem undirbjuggu málið fyrir heilbrigðisþing 1988: Bjarni Þjóðleifsson læknir, Davíð Á. Gunnarsson forstjóri, Guðmundur Sigurðsson heilsugæslulæknir, Skúli G. Johnsen borgarlæknir og Örn Bjarnason forstjóri.
    Þá leitaði nefndin umsagnar um tillöguna hjá 55 aðilum. Bárust umsagnir frá eftirtöldum: Hjúkrunarfélagi Íslands, Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, Heilsuhringnum, Meinatæknafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Bergþóru Sigurðardóttur, héraðslækni Vestfjarða, heilbrigðismálaráði Vesturlands, Krabbameinsfélaginu, Stefáni Þórarinssyni, héraðslækni Austurlands, Geðhjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum heilbrigðisstétta, Jóhanni Ágústi Sigurðssyni, héraðslækni Reykjaness, Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, heilbrigðismálaráði Norðurlandshéraðs eystra, Tannlæknafélagi Íslands, Almari Grímssyni lyfsala, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Sjúkraliðafélagi Íslands, heilbrigðismálaráði Reykjaneshéraðs, Hollustuvernd ríkisins, stjórnarnefnd Ríkisspítala, læknaráði Landspítalans, Þórunni Pálsdóttur, hjúkrunarforstjóra geðdeildar Landspítalans, Apótekarafélagi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Samtökum áhugafólks um áfengisvandamálið.
    Í flestum umsögnum kom fram stuðningur við það áform að Alþingi álykti um heilbrigðisstefnu og geri áætlun til tíu ára í samræmi við þau. Jafnframt koma þar fram margar ábendingar og athugasemdir um efni tillögunnar bæði markmið og skýringar.
    Nefndin fór yfir efni tillögunnar og umsagnir sem nefndinni bárust. Nefndin er sammála um að æskilegt sé að Alþingi marki langtímastefnu í heilbrigðismálum

og geri áætlun um aðgerðir til að ná settum markmiðum. Við skoðun málsins komu hins vegar í ljós verulegir formgallar á framsetningu tillögunnar þar sem ekki er greint með skýrum hætti milli almennra markmiða í heilbrigðismálum og leiða eða aðgerða til að ná þeim fram. Þá eru í tillögunni langir kaflar sögulegs eðlis með ýmsum álitamálum sem ekki er rétt að ætla Alþingi að álykta um. Í fylgiskjali með tillögunni er hins vegar skrá yfir mörg verkefni sem æskilegt gæti verið að Alþingi tæki afstöðu til.
    Nefndin kynnti sér hvernig staðið hefur verið að afgreiðslu hliðstæðra mála í nokkrum Evrópulöndum. Í ljós kom að það er með mismunandi hætti og yfirleitt ekki um að ræða beinar ályktanir þjóðþinga. Í Noregi lagði ríkisstjórnin t.d. fram skýrslu um heilbrigðisáætlun, ,,Melding til Stortinget, St. meld. nr. 41 (1987--88)``, sem rædd var í þinginu. Ekki var hins vegar stefnt að efnislegri ályktun um málið af hálfu Stórþingsins. Ástæða gæti verið til fyrir Alþingi að bera saman málsmeðferð varðandi stefnumarkandi mál hér og í þingum nágrannalanda, ekki síst þar eð þeim málum fer fjölgandi sem eiga rætur í samþykktum alþjóðastofnana. Ólík málsmeðferð tengist sumpart mismunandi starfsháttum þjóðþinga og þingnefnda. Yfirlit um þessi efni gæti einnig verið gagnlegt fyrir Stjórnarráðið og samskipti þess við Alþingi.
    Nefndin telur nauðsynlegt að vanda til stefnumörkunar og áætlunar í heilbrigðismálum þannig að komi að sem bestum notum. Í fyrirliggjandi tillögu og umsögnum, sem um hana hafa borist, er góður efniviður, en nauðsynlegt er að vinna úr honum með nokkuð öðrum hætti en fyrir liggur. Nefndin hefur ekki aðstæður til að vinna það verk í það horf sem hún teldi þörf á. Þar eð hér er stjórnartillaga á ferðinni er að mati nefndarinnar nauðsynlegt að viðkomandi ráðuneyti hafi hönd í bagga um svo viðamiklar breytingar á málinu.
    Að höfðu samráði við heilbrrh. telur nefndin rétt að farið verði yfir málið í heild milli þinga með hliðsjón af ofangreindum ábendingum og framkomnum umsögnum og það lagt fram að nýju til ályktunar að hausti. Með vísan til þessa leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta álit rita nöfn sín allir nefndarmenn í hv. félmn.