Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Nál. félmn. um till. til þál. um nám og námsefni fyrir fatlað fólk í heimavistarskóla er svohljóðandi:
    ,,Tillagan gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin kanni hvernig nýta megi aðstöðu í héraðs- eða heimavistarskólum í þágu fatlaðra til náms að loknum grunnskóla.
    Nefndin fékk umsagnir um tillöguna frá svæðisstjórnum fatlaðra á Austurlandi, Norðurlandi vestra, Reykjanesumdæmi, Reykjavík og Vestfjörðum, svo og frá fræðslustjórum á Austurlandi, Reykjavík, Suðurlandi og Vesturlandi.
    Umsagnaraðilar telja efni tillögunnar áhugavert nema svæðisstjórn málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra sem segir í umsögn sinni m.a.: ,,Með tilkomu nýrra framhaldsskólalaga, þar sem gert er ráð fyrir að fatlaðir stundi nám í framhaldsskólum við hlið ófatlaðra, verður að reikna með að það sé það form sem fatlaðir vilja nýta sér. Nú er það svo að um 25 framhaldsskólar opnast fötluðum með þessum lögum. Í hverjum landshluta er starfræktur einn eða fleiri framhaldsskólar. Hlutverk þeirra verður samkvæmt nýju lögunum að koma upp námstilboðum fyrir fatlaða hvort sem það verður með algjörri blöndun eða í sérdeildum. Menntmrh. skipaði á síðasta ári starfshóp sem vinnur að því að skipuleggja námsbraut þroskaheftra við Fjölbrautaskólann á Norðurlandi vestra. Allt bendir til þess að námsbraut þessi verði með svipuðu sniði og gert er ráð fyrir í greinargerð með þáltill. um nám og námsefni fyrir fatlað fólk í
heimavistarskólum. Það er því álit svæðisstjórnar að ekki eigi að leita eftir að nýta heimavistarskóla á þann hátt sem þáltill. gerir ráð fyrir, heldur beri að leggja aukna áherslu á að fötluðum verði gert kleift að stunda framhaldsnám við almenna framhaldsskóla.``
    Umsagnaraðilar minna á þá stefnu að fatlaðir séu við nám með öðrum nemendum og alls ekki megi stefna að sérstofnunum fyrir þá nema aðrar leiðir séu lokaðar.
    Fræðslustjórinn á Austurlandi segir m.a.: ,,Framhaldsskólinn stendur nú á tímamótum. Það þarf að gera honum kleift að sinna þessum málum. Til þess þarf hann að fá vitneskju um fjölda fatlaðra, hver fötlun þeirra er og leggja síðan fram rökstuddar áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað vegna þessara mála. Það er svo hárrétt sem segir í greinargerð að sumir héraðs- og heimavistarskólar eru ekki nýttir sem skyldi og vissulega væri þetta verðugt verkefni fyrir þá --- einn eða fleiri.``
    Svæðisstjórn málefna fatlaðra á Reykjanessvæði segir m.a.: ,,Það er ákaflega mikilvægt og brýnt að styrkja félags- og skólastarf fatlaðra og stuðla að því að þeir afli sér í auknum mæli framhaldsmenntunar. Í því sambandi telur svæðisstjórn mikilvægast að undirstrika réttindi fatlaðra samkvæmt lögum um framhaldsskóla og nauðsyn þess að fatlaðir eigi kost á sambærilegum námstilboðum og ófatlaðir í almennum framhaldsskólum. Því til viðbótar telur

svæðisstjórn vel þess virði að reyna í framkvæmd þær hugmyndir sem fram koma í þáltill. og leggur til eftirfarandi útfærslu á hugmyndinni:
    1. Þróaður verði fyrst um sinn einn skóli samkvæmt þessum hugmyndum og verði hann starfræktur sem lýðháskóli.
    2. Lögð verði áhersla á blöndun fatlaðra og ófatlaðra. Samsetning nemenda verði með líkum hætti og Peter Morset skólinn í Noregi sem nefndur er í tillögunni.``
    Til viðtals við nefndina komu Kolbrún Gunnarsdóttir, sérkennslufulltrúi í menntmrn., og Margrét Margeirsdóttir, deildarstjóri í félmrn.
    Félmn. telur æskilegt að kannað verði hvort koma megi til móts við námsþarfir fatlaðra sem ekki hafa aðstöðu til náms í heimangönguskóla á framhaldsskólastigi með því að tryggja þeim aðstöðu í heimavistarskólum með öðrum nemendum á sama skólastigi. Nefndin flytur tillögu um breytingu á sérstöku þingskjali og mælir með samþykkt tillögunnar svo breyttrar.``
    Undirritað af öllum fulltrúum í hv. félmn. Brtt. nefndarinnar á þskj. 1162 er svohljóðandi:
    ,,1. Tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvernig koma megi til móts við námsþarfir fatlaðra sem ekki hafa aðstöðu til að sækja heimangönguskóla að loknum grunnskóla, með því að þeir fái aðstöðu til að stunda fjölbreytt nám með öðrum nemendum í héraðsskólum eða öðrum heimavistarskólum.
    2. Fyrirsögn tillögunnar verði: Till. til þál. um námsaðstöðu fyrir fatlaða í heimavistarskólum.``