Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Herra forseti. Nál. félmn. um till. til þál. um lífeyrisréttindi foreldra í fæðingarorlofi er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og rætt efni hennar við heilbr.- og trmrn., en á þess vegum hefur starfað nefnd til að fjalla um rétt kvenna á
vinnumarkaði til greiðslna fæðingarorlofs. Tillagan gerir ráð fyrir að nefnd þessi taki jafnframt til athugunar lífeyrisréttindi foreldra í fæðingarorlofi. Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:
    ,,Það er ljóst að foreldrar, sem njóta fæðingarorlofs, geta lent í því að fæðingarstyrkur og fæðingardagpeningar nemi samtals mun lægri upphæð en mánaðarlaunum þeirra áður og auk þess missa þeir þá jafnframt rétt til greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð meðan á fæðingarorlofi stendur. Þessir foreldrar eru skráðir starfsmenn á vinnustað, en teljast taka launalaust leyfi og fara því út af launaskrá. Þar af leiðandi eru engar launatengdar greiðslur inntar af hendi í þeirra þágu. Auk þess að missa af iðgjaldagreiðslum í sex mánuði, meðan á orlofi stendur, er viðkomandi starfsmaður að hluta til réttindalaus í sínum lífeyrissjóði þá mánuði sem hann greiðir ekki í sjóðinn ... Nú er fæðingarorlof orðið sex mánuðir og er það því veruleg réttindaskerðing að hafa ekki tækifæri til að viðhalda lífeyrisréttindum í þann tíma.``
    Fram hefur komið að nefnd heilbr.- og trmrn., sem ráðherra skipaði í október 1989 í kjölfar kjarasamninga, hafi fjallað nokkuð um það efni sem áhersla er lögð á í tillögunni og gert tillögur þar að lútandi til ráðherra.
    Nefndin telur að með tillögunni sé hvatt til lausnar á réttlætismáli og leggur áherslu á að á því verði tekið af stjórnvöldum. Með vísan til þess að heilbr.- og trmrh. hefur lýst vilja sínum til að svo verði gert og nefnd á hans vegum hefur fjallað um málið er lagt til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Að áliti þessu standa allir fulltrúar í hv. félmn.