Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Nál. félmn. um till. til þál. um skipulega fræðslu og leiðsögn fyrir útlendinga sem taka sér búsetu á Íslandi hljóðar svo:
    ,,Tillagan gerir ráð fyrir að séð verði til þess að útlendingar, sem setjast að á Íslandi, hljóti skipulega fræðslu og leiðsögn til að auðvelda þeim að takast á við daglegt líf. Talin eru upp nokkur atriði sem fræðslan eigi einkum að ná til.
    Nefndin fékk umsögn um till. frá Bandalagi kennarafélaga, félaginu Germania, Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar, Samtökum um kvennaathvarf, Rauða krossi Íslands og Thailensk-íslenska félaginu.
    Á fund nefndarinnar komu vegna málsins Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í félmrn., og Guðrún Ágústsdóttir, aðstoðarmaður menntmrh.
    Allir umsagnaraðilar lýsa yfir stuðningi við þáltill. og gefa ýmsar ábendingar varðandi efni hennar.
    Félagsmálastjórinn í Hafnarfirði, Marta Bergmann, sem jafnframt er formaður Samtaka félagsmálastjóra, greinir frá því að hún hafi á síðari hluta árs 1989 ritað félmrh. bréf vegna bágrar stöðu nokkurra austurlenskra kvenna í Hafnarfirði og rekur efni þess í umsögn sinni. Þá segir orðrétt: ,,Eftir að hafa vakið athygli ráðherra á vanda þessa þjóðfélagshóps kynnti undirrituð málið fyrir Samtökum félagsmálastjóra í Íslandi á sl. haustfundi. Sumir
félagsmálastjórar könnuðust við þennan vanda en ekki var vitað hve mikill hann væri fyrr en á þessum fundi.
    Fyrir hönd Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi vill undirrituð fagna fram kominni þáltill. þar sem tekið er á þeim þætti er varðar fræðslu fyrir útlendinga sem setjast vilja hér að. Nánar tiltekið fjallar till. um íslenskukennslu, fræðslu um réttindi og skyldur íslenskra þjóðfélagsþegna, fræðslu um íslenskt þjóðfélag og helstu stofnanir þess. Loks fjallar till. um fræðslu um sögu landsins og staðhætti, íslenska menningu og þjóðlíf. Að mati Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi er fræðsla um alla framantalda þætti nauðsynleg þeim útlendingum sem setjast vilja hér að. Samtökin vilja þó koma með ábendingu um viðbót við fræðsluefnið, þ.e. fræðslu um réttarstöðu erlendra ríkisborgara sem hyggjast setjast að á Íslandi. Einnig telja samtökin þörf á því að skýrar sé kveðið á um þessa réttarstöðu í lögum.
    Þá vill undirrituð bæta því við í ljósi þeirrar reynslu, sem fengist hefur af þessum málum hjá Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar, að tryggja þurfi að allir þeir útlendingar, sem hyggjast setjast hér að fái vitneskju um hina fyrirhuguðu fræðslu og að þeim verði gert kleift að njóta hennar óháð tekjum og búsetu.``
    Í umsögn frá Samtökum um kvennaathvarf segir m.a.: ,,Til okkar í Kvennaathvarfið hafa á síðastliðnu ári leitað konur frá ellefu löndum öðrum en Íslandi. Hafa þær leitað stuðnings símleiðis eða komið til okkar í viðtöl. Þar af hafa komið til dvalar konur frá sjö erlendum ríkjum. Þessar konur hafa allar utan ein

verið í sambúð með eða verið giftar íslenskum mönnum. Þær hafa ekki sótt námskeið í íslensku og þó ekki væri nema þess vegna eru þær einangraðar í íslensku samfélagi. Sjö þessara kvenna komu frá öðrum menningarsvæðum en hinu vestræna og höfðu litla sem enga þekkingu á lagalegri stöðu sinni á Íslandi. Vegna málleysis og upplýsingaskorts hafa konur þessar haft alls kyns ranghugmyndir um rétt sinn og það hefur m.a. orðið til þess að þær hafa ekki slitið annars vonlausum samböndum.
    Algengt er að þær konur, sem til okkar hafa leitað, hafi fengið villandi upplýsingar um að við skilnað yrði þeim skilyrðislaust vikið úr landi og að þær misstu við það forræði yfir börnum þeim sem þær ættu með íslenskum mönnum.
    Þessar konur hafa ekki vitað um félagslegan stuðning við einstæðar mæður. Þær hafa t.d. ekki vitað um meðlög og mæðralaun, barnabætur og tímabundna aðstoð frá sveitarfélögum. Við þekkjum dæmi þess að erlendar konur hafi skrifað undir kaupmála þar sem þær hafa afsalað sér tilkalli til allra eigna án þess að hafa vitað undir hvað þær voru að skrifa.
    Þrátt fyrir þessar lýsingar hvarflar ekki að okkur að íslenskir karlmenn, sem giftast erlendum konum, geri sér það almennt að leik að mata þær á ranghugmyndum. Okkur þykir það hins vegar sjálfsagt að bjóða nýja þjóðfélagsþegna velkomna með þeim hætti sem lagt er til í þáltill., enda hlýtur slíkt að skila sér í ánægðari og nýtari þjóðfélagsþegnum.``
    Í umsögn frá Rauða krossi Íslands segir: ,,Rauði kross Íslands fagnar fram kominni þáltill. Í viðbót við góða íslenskukennslu er þörf á fræðslu um íslenskt þjóðfélag, réttindi og skyldur þegnanna, sögu lands og þjóðar og menningu. Ekki væri óeðlilegt að slík fræðsla væri bundin við veitingu ríkisborgararéttar.
    Ríkisstjórn Íslands hefur á liðnum árum beðið Rauða krossinn aðstoðar þegar tekið hefur verið á móti hópum flóttamanna. Hér hefur því fengist reynsla af þessum málum og er Rauði krossinn fús til að miðla af henni sé þess óskað.``
    Fulltrúar félmrn. og menntmrn., sem komu á fund nefndarinnar, greindu frá
því að unnið væri að því í samvinnu ráðuneytanna að koma út bæklingi með fræðsluefni fyrir útlendinga sem hér ætla að setjast að. Ráðinn hefur verið maður til að taka saman efni í bæklinginn. Tilefni þess að farið var að huga að þessu var vandi kvenna frá fjarlægum menningarsvæðum, einkum Suðaustur-Asíu, sem hingað eru komnar. Hins vegar væri miðað við að bæklingurinn nýttist öllum útlendingum, konum sem körlum, og yrði afhentur fólki við komuna til landsins. Meðal efnis yrðu upplýsingar um dvalarleyfi og atvinnuleyfi, almannatryggingar, heilsuvernd, dagvistarmál, íslenska skólakerfið, húsnæðismál og skatta. Rætt er um að koma bæklingnum út á a.m.k. þremur tungumálum: tælensku, ensku og spönsku. Jafnframt væri í undirbúningi að koma á námskeiðum fyrir fólk frá fjarlægum heimshlutum og leita samstarfs við Rauða krossinn um framkvæmd þeirra.

Fulltrúar frá dómsmrn. og útlendingaeftirliti hafa tekið þátt í undirbúningi þessa máls. Fjármagn vantar til að standa straum af kostnaði við þetta starf, en menntmrn. ráðgerir að sækja um fjárveitingu vegna íslenskukennslu fyrir útlendinga á fjárlögum 1991.
    Alls munu hér búsettar um 100 konur frá Tælandi og Filippseyjum og bættust 17 í hópinn á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.
    Félmn. telur að með þáltill. sé vikið að brýnu máli sem nauðsynlegt er að brugðist verði við á jákvæðan hátt. Fram hefur komið að af hálfu stjórnvalda eru ákveðnar aðgerðir í undirbúningi og er brýnt að þær komist til framkvæmda sem fyrst. Í því skyni þarf Alþingi að veita fjárhagslegan stuðning. Mestu varðar að útlendingar, sem hér setjast að, fái upplýsingar um réttindi sín og skyldur og aðgang að kennslu í íslensku og fræðslu um íslenskt samfélag. Í trausti þess að vel verði að þessum málum staðið framvegis leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Guðni Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en aðrir hv. fulltrúar í félmn. undirrita þetta nál.
    Ég hygg þá, virðulegi forseti, að ég hafi mælt fyrir þeim álitum og afgreiðslu félmn. á þeim málum sem á dagskrá voru. Ég vil að endingu nefna það að félmn. lauk störfum þann 30. apríl eftir að hafa haldið mjög marga fundi á þessu þingi. Hún afgreiddi frá sér til samþykktar ellefu þáltill. sem þingið hefur ýmist tekið afstöðu til eða liggja nú fyrir þessum fundi. Hún lagði til að sjö þáltill. yrði vísað til ríkisstjórnar, og afgreiddi með þeim hætti samtals átján þingmál. Ellefu mál hlutu ekki fullnaðarafgreiðslu í nefndinni en um mörg þeirra var fjallað með einhverjum hætti þó að ekki væru þau afgreidd til þingsins aftur. Þetta var stutt yfirlit yfir störf nefndarinnar á því þingi sem nú er senn að ljúka.