Yfirstjórn umhverfismála
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. allshn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1277 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd, nr. 20 30. apríl 1986, um Siglingamálastofnun ríkisins, og ýmsum lögum er varða yfirstjórn umhverfismála. Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Kvennalistakonur hafa frá upphafi borið umhverfismál og verndun náttúrunnar mjög fyrir brjósti, enda stendur það nærri konum að vilja sjá börnum sínum borgið í framtíðinni. Umhverfismál eru stór og viðamikill málaflokkur sem nauðsynlegt er að skipi verðugan sess í stjórnkerfi landsins. Umhverfismálin hafa hingað til fallið að einhverju leyti undir flestöll ráðuneytin. Afleiðingin er óstjórn og skörun. Því er brýnt að sameina öll verkefni á sviði umhverfismála undir eitt ráðuneyti og tryggja virka og hagkvæma stjórn og markvissa umhverfisvernd. Kvennalistakonur telja að stofnun umhverfisráðuneytis sé besta og öruggasta leiðin til að bæta úr þeim spjöllum sem gáleysisleg umgengni mannsins við landið hefur haft í för með sér og til að tryggja þá faglegu yfirsýn sem nauðsynleg er á sviði umhverfisverndar.
    Á 111. löggjafarþingi lögðu þingkonur Kvennalistans fram þáltill. um stofnun umhverfisráðuneytis (150. mál). Auk þess hafa kvennalistakonur átt frumkvæði að mörgum málum á sviði umhverfisverndar og flutt tillögur þar um á Alþingi. Frv. þetta er fyrsta skrefið í þá átt að tryggja að einn aðili í stjórnkerfinu hafi yfirsýn yfir náttúruauðlindir landsins, nýtingu þeirra og verndun. Kvennalistakonur hefðu viljað flytja ýmis fleiri verkefni á sviði umhverfismála til hins nýja ráðuneytis en flytja þó einungis tvær brtt. við frv. að þessu sinni. Í ljósi þeirrar staðreyndar að stærsta og alvarlegasta umhverfisvandamálið á Íslandi er gróðureyðing og sandfok telja kvennalistakonur að landgræðsla og skógrækt hljóti að verða eitt af mikilvægustu verkefnum umhverfisráðuneytis. Til samræmis við þá skoðun Kvennalistans fela brtt. í sér að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins verði fluttar frá landbrn. til umhverfisráðuneytis, þó verði ræktun nytjaskóga og skjólbelta áfram í umsjá landbrn.
    Annar minni hl. leggur áherslu á að áfram verði unnið að því að flytja verkefni til umhverfisráðuneytis í því skyni að tryggja þá heildarsýn og þá faglegu þekkingu sem í slíku ráðuneyti verður að vera.``
    Undir þetta ritar Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Brtt. þær sem ég flyt hér í Ed. eru á þskj. 1276 og lúta að því, eins og ég gat um í nál., að flytja yfirstjórn skógræktarmála og landgræðslu til umhvrn., þó þannig að ræktun nytjaskóga á bújörðum og ræktun skjólbelta verði áfram verkefni landbrn.
    Eins og fram kemur í grg. með frv. var nefnd sú sem samdi frv. ekki sammála í afstöðu sinni til þessa máls. Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni var þeirrar skoðunar, eins og reyndar við kvennalistakonur allar,

að þessa tvo málaflokka yrði óhjákvæmilegt að flytja yfir til hins nýja umhvrn. til samræmis við það markmið sem fram kemur í lögum um báðar þessar stofnanir.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta mörg orð hér nú þegar nálgast afgreiðslu málsins. En ég vil leggja áherslu á hér að lokum að þó að nýtt umhvrn. sé stofnað er það auðvitað jafnsjálfsagt hér eftir sem hingað til að ráðuneyti atvinnumála beri áfram ábyrgð á starfsemi sinni. Þá vil ég einnig leggja áherslu á nauðsyn umhverfisfræðslu. Það þarf að gera mikið átak í umhverfisfræðslu, bæði í skólum og meðal almennings. Ég vil í því sambandi minna á þáltill. frá kvennalistakonum sem samþykkt var í fyrra og fól í sér áskorun til menntmrn. að hefja nú þegar átak í umhverfisfræðslu, bæði í skólum og meðal almennings. Því aðeins að vel verði staðið að fræðslu getum við vænst þess að umhverfi lands okkar verði eins og við viljum hafa það og þannig að við getum tryggt börnum þessa lands örugga framtíð.