Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Við hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson skrifum undir nál. með fyrirvara. Ég vil gera grein fyrir þeim fyrirvara. Hann er hreint ekki í þá veru að við séum óánægðir með málið í heild sinni. Hér er um hið merkasta mál að ræða, en það er ekki með öllu vandalaust að fjalla um það engu að síður eins og kemur raunar í ljós af fylgiskjölum sem fylgja frv. sem vel er úr garði gert af hendi 1. flm., hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem vinnur sín mál vel eins og menn vita. Fylgja þar hin merkustu fylgiskjöl. En það var um það bil sem hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna var að ljúka og hafréttarsáttmálinn að sjá dagsins ljós sem við byrjuðum, eins og aðrar strandþjóðir, að fjalla um hafsbotnsréttindi okkar og þá langt út fyrir 200 mílna efnahagslandhelgi. Menn höfðu bæði hér og víða annars staðar löngum glímt við að tryggja sér 200 mílna fiskveiðilögsögu og efnahagslögsögu, en þegar hér var komið, upp úr 1980, var ljóst að strandríkin áttu miklu, miklu víðáttumeiri réttindi, sum hver a.m.k., og þá var byrjað að fjalla um hafsbotnsréttindi. Þá var raunar flutt frv. ekki ósvipað því sem nú er á ferðinni og í Ed. var mikið unnið að skoðun á því máli og allshn. Ed. skilaði þá nál. 9. mars 1983 eftir vandlega skoðun málsins og eftir að ræða við fjölda manna um það nál. sem er örstutt og ég hygg að rétt sé að festa enn rækilegar í Alþingistíðindi með því að lesa það hér upp því að það er auðvitað sögulegt heimildargagn þegar saga þessa máls verður skrifuð sem ekki er ómerk, sagan um hafsbotnsréttindi Íslendinga. En með leyfi forseta er nál. á þessa leið, álit allshn. Ed. um frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins:
    ,,Nefndin hefur rætt málið ítarlega og komist að raun um að hér sé um að ræða svo þýðingarmikið og vandmeðfarið mál að ógjörlegt sé að afgreiða það efnislega án frekari athugunar. Ljóst er að í nánustu framtíð eru hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg, neðansjávarhásléttunni sem kennd er við Rokkinn, og á Jan Mayen svæðinu, fyrst og fremst tengd yfirborði hafsbotnsins. Skv. 77. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna eigum við réttindi til þeirra lífvera sem á þessum hafsvæðum finnast og botnlægar eru. Yfirborð hafsbotnsins er einnig ótvíræð eign strandríkisins.
    Nefndin telur þess vegna að allri lagasetningu um hafsbotn þann, sem er utan 200 mílna efnahagslögsögunnar en tilheyrir Íslandi skv. 76. gr., sbr. 83. gr. hafréttarsáttmálans, eigi að haga þannig að einkaréttur okkar sé sem best tryggður og allar veiðar útlendinga við botninn bannaðar. Hins vegar sé rétt að örva íslenska fiskimenn til að hagnýta þessi íslensku mið og bægja útlendingum af þeim í samræmi við alþjóðalög.
    Með hliðsjón af framansögðu telur nefndin eðlilegt að þau málefni, sem varða undirbúning landgrunnsins utan 200 mílnanna á Reykjaneshrygg, Jan Mayen svæðinu og Rockall-hásléttu falli undir sjútvrn. en leggur áherslu á að skynsamleg skipan þessara mála

verði fundin sem skjótast og málið lagt fyrir næsta þing. Því leggur hún til að því verði nú vísað til ríkisstjórnarinnar til skjótrar en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga þar sem framangreind sjónarmið sitji í fyrirrúmi.``
    Hér hafa nú að undanförnu verið rædd mál og ekki á fáum fundum og ekki af ómerkum mönnum í þessu þjóðfélagi sem varða skiptingu á kvóta. Hér er í rauninni um að ræða miklu, miklu stærra mál en allt þetta kvótakjaftæði sem verið hefur vaðandi uppi og öll sú endaleysa sem þar er verið að framkvæma eða ekki framkvæma og ég ætla ekkert að fara að deila um það efnislega nú á lokastigi málsins. Við erum að fjalla hér um miklu, miklu stærra mál, þ.e. fullveldisréttindi þjóðarinnar yfir hafsbotninum 350 mílur á Reykjaneshrygg í sameign og samvinnu við Breta og Færeyinga og hugsanlega Íra, 600--800 mílur suður í höf, helmingsréttindi til fiskveiða á öllu Jan Mayen svæðinu, 200 sjómílur norður og austur af Jan Mayen alveg eins og hérna megin við eyjuna. Öllum þessum málum erum við lagalegir aðilar að. Við höfum fylgt fram okkar rétti og erum að gera það m.a. með þeirri lögfestingu sem hér er um að ræða. En það sem deilan, og þó ekki deilan, rökræðan snerist um 1983 þegar það nál. sem ég var að lesa upp var gefið út hér í þessari hv. deild var það að hve miklu leyti við ættum að fella lögsögu yfir þessu gífurlega hafsbotnssvæði, sem við eigum að réttum lögum, undir iðnrn. fremur en sjútvrn. eða hugsanlega forsrn.
    Ég hef lagt á það megináherslu að þau réttindi, sem við erum að ávinna okkur núna á þessum hafsvæðum, væru kannski fyrst og fremst lífverurnar og fiskurinn sem yfir þessum hafsbotni er því að það er alveg skýlaust tekið fram í 77. gr. hafréttarsáttmálans að hafsbotninum fylgir fullveldisréttur, ég endurtek, fullveldisréttur, þ.e. eignarréttur og yfirráðaréttur, ekki bara yfir botninum sjálfum og því sem í honum er og á honum, heldur líka öllum lífverum sem botnlægar eru, þ.e. skelfiskum og slíkum dýrum sem ekki hreyfast öðruvísi en með snertingu við botninn. Og á því leikur ekki minnsti vafi að sá sem eignast botninn og lífverurnar á honum mun eignast allar fiskveiðarnar yfir þeim sama
botni þegar tímarnir líða. Það gerðist þannig með 200 mílurnar að Truman Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að Bandaríkjamenn ættu 200 mílna hafsbotnsréttindi undan sínum ströndum árið 1945 og nokkrum áratugum síðar voru 200 mílurnar orðnar alþjóðalög og eignarréttur að þeim þar með.
    En það sem hér er gert er það að með frv. eins og það kemur frá hv. Nd. er einmitt tekið tillit til þess að við eigum ekki að einskorða réttindin við hafsbotninn, þ.e. efni það sem í honum er, botninn sjálfan og á honum, því að það er talað þar um að frv. sem hér er til afgreiðslu, væntanlega til samþykktar, fjallar einungis um, eins og segir í 1. gr., að hugtakið auðlind samkvæmt lögum þessum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera, þ.e. það er ekki enn farið að lögfesta

með hvaða hætti við nytjum hin miklu auðæfi sem áreiðanlega eru á þessu svæði, það líf sem á botninum er og mun finnast þegar eftir er leitað. Það verður þá seinni tíma að lögfesta reglur um þá hagnýtingu. Auðvitað ber að örva sjómenn til þess að leita þessara auðæfa, þeirra lífvera sem er að finna á þessum hafsvæðum og hefja nýtinguna eins fljótt og unnt er. Þetta frv. einskorðast við það að iðnrn. hafi með að gera það sem ekki er hægt að kalla lifandi verur á botninum og við munum hafa þá sérstaka löggjöf um fiskveiðar og nýtingu og ræktun fisks á þessu svæði þegar stundir líða og það verður þá væntanlega komandi þings á næsta hausti að fylgja þessu frv. eftir. Þetta er áfangi á leiðinni og réttur áfangi. Það er ekki verið að lögfesta að við séum einungis að ásælast t.d. olíulindir eða eitthvað slíkt, sem er aukaatriði í mínum huga, heldur séum við fyrst og fremst að tryggja lífið á hafsbotninum og verndun hafsbotnsins og það mál á auðvitað að heyra annaðhvort undir forsrn. eða sjútvrn. en ekki iðnrn.
    Ég hygg þess vegna að hérna sé fundinn hinn rétti meðalvegur og við séum á réttri leið eins og oftast áður í okkar landhelgisbaráttu. Við þurfum raunar mjög að herða hana núna vegna þess að strandþjóðirnar eru að því alls staðar, að helga sér réttindin yfir hafsbotninum langt, langt út fyrir 200 mílur. Það mega a.m.k. ekki líða enn mörg ár, helst engin missiri eða mánuðir, þangað til við stígum næstu skrefin í þessu máli og knýjum á um samninga við Breta sem eru auðvitað á borðinu eftir yfirlýsingar forsrh. Breta í frægu bréfi. Dani höfum við náttúrlega samninga við og Færeyinga og síðan eru norðurslóðir. Þar sem þegar eru búnar að vera viðræður við Norðmenn og Dani um að við helgum okkur þau réttindi á Reykjaneshrygg getur enginn vefengt okkar rétt til 350 mílna, enginn hefur rétt til að gera það og við þurfum auðvitað að fara að nýta þann rétt og stugga öðrum út af þessu hafsvæði sem er íslenskt hafsvæði með íslenskum hafsbotni og íslenskum lífverum á þeim botni. Það er íslenskur sjór, íslenskt haf, sem á að verða það um aldur og ævi. Það þarf að halda enn betur á okkar rétti en hingað til hefur verið gert þó að margt gott hafi verið gert sem ætti því ekki að lasta. Ég bendi á að þetta er skref í rétta átt sem þarf að fylgja eftir með sérstakri löggjöf um lífverurnar yfir botninum þegar þing kemur saman á næsta hausti.