Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að það skaði neitt þótt öll sveitarfélög landsins kjósi jafnréttisnefndir. Það er auðvitað verið að reyna einhverja stjórn að ofan að meira og minna óljósu marki. Kjarni málsins er sá að þjóðfélagið stefnir hraðbyri í þá átt að fullkomið jafnrétti sé á milli karla og kvenna og þetta gerist hjá fólkinu sjálfu vegna þess að þetta er mikið réttlætismál. Auknum mannréttindum fylgir einfaldlega meira frelsi, meiri velmegun, að þegnarnir verða jafnir. Það er svo einfalt mál. Við erum nú að sjá þau þjóðfélög hrynja sem höfðu ítarlegust ákvæði um jafnrétti hvers konar á öllum sviðum og þegar upp er staðið kemur í ljós að ójafnréttið hefur hvergi verið meira en einmitt þar. Svo einfalt er það. Það má auðvitað tala um öfuga sönnunarbyrði og alla hluti af þessu tagi. Kjarni málsins er sá að það á ekki að gera jafnréttismál karla og kvenna að hégómamáli. Þjóðin gerir það ekki sjálf og við stefnum í það að þar verði fullur jöfnuður á milli, miklu hraðar en okkur órar fyrir, og væri náttúrlega fróðlegt að fá svona smáúttekt á því hvaða gagn allar þessar nefndir gera. En ég sé ekki ástæðu til að vera á móti þessu máli ef mönnum finnst betra og skemmtilegra að vera með allan þennan pappír í kringum þessa þróun sem mun halda áfram hvort sem kratar eru í ríkisstjórn eða ekki. Það er nú svo einfalt mál.