Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Það mætti tala langt mál um þetta frv., líka um forsögu þess og þau grundvallarsjónarmið sem frv. byggir á. Ég vil vekja athygli á því að þetta frv. er afrakstur af starfi nefndar sem skipuð var til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í kjölfar lagafrv. sem flutt var af þingmönnum Sjálfstfl. undir forustu Matthíasar Bjarnasonar fyrrv. sjútvrh. Ég ætla að frv. sem við nú ræðum gangi verulega til þeirrar áttar og sé í raun stuðningur við meginefni frv. Matthíasar Bjarnasonar og sjálfstæðismanna. Ég get ekki látið vera að hafa þetta í huga þegar ég ræði þetta mál.
    Ég vil taka fram að ég er samþykkur meginmarkmiðum frv. eins og þau eru skilgreind í 1. gr. frv., þ.e. að hlutverk sjóðsins sé að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn. Tilgangurinn er að stuðla að stöðugleika með því að binda fjármagn í atvinnugreininni þegar vel árar og ráðstafa því þegar atvinnugreinin stendur höllum fæti og draga þannig úr þörfinni fyrir gengisbreytingar að vissu marki. Undir þessi meginsjónarmið tek ég. Ég hef lengi verið þessarar skoðunar og mér kom þess vegna ekkert á óvart afstaða sjálfstæðismanna í sjútvn. Nd. sem tóku sömu afstöðu. En það eru verulegir gallar á þessu frv. og þar vil ég aðeins drepa á megingallana.
    1. Innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljast hans eign eins og fram er tekið í 7. gr. frv. Ég tel þetta einn af megingöllum frv. og ákaflega veigamikinn.
    2. Ég vil nefna sem galla á frv. þau ákvæði sem eru í frv. um skipan stjórnar sjóðsins þar sem gert er ráð fyrir að sjútvrh. skipi fimm manna stjórn sjóðsins til fjögurra ára. Ég tel að þetta sé verulegur galli á frv.
    3. Ég tel að athuga þurfi sérstaklega það ákvæði sem er í 3. gr. frv. um að Verðjöfnunarsjóði skuli skipt í deildir eftir tegundum afurða eins og þar greinir og í því felist hlutir sem þurfi að varast.
    Í beinu framhaldi af þessu vil ég nefna, enda tengt göllunum, það sem ég tel að þurfi að gera til úrbóta.
    Það er í fyrsta lagi að breyta þurfi því ákvæði að innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljist hans eign. Það þarf að taka upp þá skipun að inngreiðslur í sjóðinn séu eign þess aðila sem innir þær af hendi. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki. Ef hv. 2. þm. Norðurl. e. gæfi sér tíma til þess að hlýða á það sem ég hef hér fram að færa þá vissi hann þegar hvað ég væri búinn að gagnrýna í frv. Það sem ég er núna kominn að er að koma með ábendingar um það hvernig úr því skuli bæta. Og það fyrsta sem ég nefni er að inngreiðslur í sjóðinn séu eign þess aðila sem innir þær af hendi. (Gripið fram í.) Nú skal ég halda áfram, hv. 2. þm. Norðurl. e., ég veit að sá hv. þm. unnir mér þess að tala og ljúka þessum setningum sem ég er með á vörunum. En með þessari breytingu væri best tryggt að hver framleiðandi gæti notið síns atgervis og verið sinnar gæfu smiður. En jafnframt

þyrfti þá heimild í skattalögum fyrir því að framleiðendur gætu átt sinn eigin sveiflujöfnunarsjóð. Það var einmitt þetta atriði sem mér virtist að hv. 2. þm. Norðurl. e. væri með framíkalli sínu að tæpa á. Mér kemur ekki á óvart að við séum sammála um grundvallarsjónarmið í þessu máli.
    Annað atriði sem ég vildi nefna varðandi umbætur á frv. varðar það að framleiðendur sjálfir stjórni sjóðnum en ráðherra skipi ekki stjórn sjóðsins eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Ég tek eftir því að meiri hl. sjútvn. Nd. vill bæta nokkuð úr þessu þannig að ráðherra þurfi að leita tilnefninga á hluta stjórnarmanna frá hagsmunaaðilum áður en hann skipar stjórnina. Mér virðist sú breyting út af fyrir sig til hins betra. Hins vegar liggur hér fyrir tillaga frá meiri hl. sjútvn. þessarar deildar sem felur í sér að horfið er aftur frá þeirri breytingu sem gerð var í Nd. um þetta atriði og þá til hins verra að mínu áliti. Einnig er um þetta atriði brtt. frá hv. þm. Halldóri Blöndal og Guðmundi H. Garðarssyni þar sem tekið er fram að skipunartími þeirra sem skipaðir eru í stjórn verðjöfnunarsjóðsins sé takmarkaður við embættistíma ráðherra.
    Ég get fallist á að þetta ákvæði er til bóta en væri þó betra að það yrðu ekki tíð stjórnarskipti. En mér þykir þetta ekki duga. Ég vil miklu róttækari breytingu í þessu efni, miklu róttækari en gerð var í Nd. og miklu róttækari en hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Reykv. gera hér. Og hvað er það? Það er það að framleiðendur sjálfir stjórni sjóðnum á þeim grundvelli að sjóðurinn sé þeirra eign. Það er ekkert annað en að virða eignarréttinn, það er eðlilegt að eigendurnir stjórni sinni eign sjálfir. ( HBl: Þá á að misbeita sjóðnum áfram.) Ég er ekki viss um að eignarréttinum þurfi alltaf að misbeita, ég er ekki sammála hv. þm. um það. Ég held að eignarrétturinn hafi sína sjálfstæðu þýðingu og sitt gildi og við þurfum ekki að ganga út frá því sem gefnu að honum sé alltaf misbeitt. Nei, það skulum við ekki gera. En hvaða skipun ætti þá að hafa um það hvernig skipað væri í stjórn sjóðsins?
    Ég sagði að eðlilegt væri að eigendurnir stjórnuðu sjálfir sinni eign. Þeim er best trúandi til þess. Það er aðeins spurning um formið, hvaða
hagsmunaaðilar eigi að ráða stjórn sjóðsins. Það geta verið ýmsar leiðir í því efni. Ég bendi á eina sem mér finnst eðlilegust og einföldust. Hún er sú að samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi, svokallað SAS, tilnefni í stjórnina. Það eru samtök allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi og mér finnst eðlilegt að þessi samtök kæmu fram fyrir hönd hagsmunaaðila og fyrir hönd eigenda sjóðsins þegar hann væri kominn í eigu framleiðenda sjálfra.
    Þá held ég að í þriðja lagi þurfi að huga að atriðum sem varða viðmiðunarverð sjóðsins og að tryggilega sé gengið frá því að það sé miðað við meðaltalsafkomu, það sé miðað t.d. við meðaltalsafkomu botnfiskframleiðslu og þar á meðal ísfiskinn. Og umfram allt að gæta þess að það sé ekki mismunað milli hinna ýmsu verkunaraðferða. ( HBl :

Það er nú alltaf verið að gera það.) Já, hv. 2. þm. Norðurl. e. fylgist mjög vel með og hann hefur lög að mæla, það er alltaf verið að gera það. En það sem ég er að tala um er að þess sé gætt að það verði ekki gert og ég veit að hv. þm. er mér algerlega sammála í því.
    Ég hef hér bent á og vikið að nokkrum atriðum. Ég sagði í upphafi míns máls að ástæða væri til þess að ræða mikið um þetta frv. En mér sýnist svo að það sé enginn tími til þess. Þetta frv. --- kom það ekki í deildina í gær, kannski í fyrradag, en hvort heldur var hefur enginn tími gefist til að ræða þetta mál sem skyldi. Það er mjög miður. Þessu svipar því til þess sem gerðist og við höfum áður, eða ég, vikið að í tímahrakinu þegar við vorum að ræða og afgreiða frv. um stjórn fiskveiða. Í því sambandi kemur mér í hug það sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði varðandi þessi efni í 2. eða 3. umr. hér í deildinni fyrir nokkrum dögum um stjórn fiskveiða. Hann sagði eina setningu sem að mínu viti var það skynsamlegasta sem sagt var í öllum umræðunum um stjórn fiskveiða, það skynsamlegasta sem sagt var í öllum umræðum af kvótaunnendum, kvótamönnum. ( Gripið fram í: Þetta er kvóti.) Hv. þm. sagði: Við þurfum að gefa okkur tíma og taka okkur tíma til að ræða fiskveiðimálið niður í grunninn hér á Alþingi. Það voru orð í tíma töluð og ég veit að við getum allir tekið undir þetta. Auðvitað er það svo að þetta á ekki einungis við það efni sem fjallað var um í frv. um stjórn fiskveiða, heldur einnig um það efni sem fjallað er um í því frv. sem við nú ræðum.
    Ég skal stytta mál mitt og vil segja það að ég mun greiða atkvæði með þessu frv. á grundvelli þeirra meginmarkmiða þess sem ég hef hér vikið að. Ég tel líka þýðingarmikið að fá þetta frv. lögfest vegna þess að þá er lögfest líka og verður ekki undan skotist að ríkissjóður yfirtaki skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins vegna lánanna margumtöluðu sem nema allt að 2 milljörðum kr. En ég greiði atkvæði með þessu frv. í trausti þessa og á þessari forsendu. En vegna þess hve lítill tími hefur unnist til að vinna þetta mál hef ég ekki talið mér fært að koma með brtt. við frv. Ég hef látið það vera af ásettu ráði af því að ég hef metið þetta mál svo mikilvægt að það yrði að skoða það miklu betur en okkur vinnst hér tími til. Þess vegna get ég greitt atkvæði með þessu frv. í trausti þess að þessi löggjöf verði endurskoðuð í sumar og lagt fyrir næsta Alþingi frv. þar sem bætt verður úr þeim ágöllum sem ég hef hér tíundað.