Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Báðir þeir hæstv. ráðherrar sem hér eru í deildinni hafa staðfest það sem raunar segir í lögunum og þurfti ekki að staðfesta, en þeir hafa staðfest þann skilning að óhjákvæmilegt sé að bókfæra þá 2 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir að falli á ríkissjóð hér og er í rauninni ekki annað en hallarekstur ríkissjóðs síðan í septembermánuði 1988 eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum. Það þýðir að greiðsluhalli ríkissjóðs verður samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir frá meiri hl. fjvn., ef samþykktar verða, 6,5 milljarðar kr. á þessu ári ef við gerum eingöngu ráð fyrir þeim skuldum ásamt vöxtum og gengistryggingu sem bókfærðar hafa verið á Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins fram að þessu. Það er mikið kæruleysi af hæstv. fjmrh. að beita sér ekki fyrir því að þessi leiðrétting sé tekin inn í fjáraukalögin núna en verður auðvitað að bíða næstu fjáraukalaga, en óhjákvæmilegt er að taka þessar tölur inn í greiðsluhallann. Greiðsluhallinn verður eins og nú er komið, ef þetta verður samþykkt, 6,5 milljarðar kr. Þetta er kjarni málsins og sýnir í rauninni að hæstv. fjmrh. hefur með vilja, bæði við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árin 1988 og 1989, staðið gegn eðlilegum leiðréttingum. Náttúrlega má segja að hann hafi ekki haft heimild til að taka tillit til þessara skuldbindinga vegna þess að Alþingi felldi það að skuldirnar skyldu þegar í stað bókfærðar á ríkissjóð eins og fyrirheit ríkisstjórnarinnar og bein loforð hæstv. sjútvrh. gáfu tilefni til. En auðvitað hlaut að koma að því að Alþingi yrði að standa við skuldbindingu ríkisstjórnarinnar þó aum sé. Það verður gert með þessum lögum sem hafa í för með sér að greiðsluhallinn á þessu ári eykst um 2 milljarða. En hæstv. fjmrh. getur kannski huggað sig við að hann var með falskan greiðsluhalla á síðasta ári og gat sýnt eitthvað lægri tölur, með því að falsa bókhaldið, en ella. En upp koma svik um síðir og auðvitað verður þetta að viðurkennast á endanum.
    Hitt var athyglisvert sem hæstv. fjmrh. sagði, að á næstu árum, einhvern tíma seinna, eigi að byrja að greiða skuldirnar. Það verður ekki gert meðan hann er í sæti fjmrh. Það kom beint fram í hans ummælum að hann hafði ekki gert ráð fyrir því að mæta þessu að neinu leyti í sinni tíð. Þó hefur enginn fjmrh. hækkað skattana jafnört og skjótt og þessi nema ef vera skyldi fyrirrennari hans, Jón Baldvin Hannibalsson.
    Ég hlýt í öðru lagi að láta í ljósi mikla undrun yfir því þegar hæstv. fjmrh. segir að það standi vel á hjá sjávarútveginum. Ég kann satt að segja betur við það að hæstv. sjútvrh. sé hér inni. Einstakir ráðherrar hafa verið að hrósa sér af því að björgunaraðgerðum sé lokið, sjávarútvegurinn sé kominn á réttan kjöl, það hafi verið sólskinsdagar hjá sjávarútveginum alveg síðan fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist að völdum haustið 1988, ef marka má ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar hæstv. ráðherra og sessunauta hans á ríkisstjórnarfundum. En hvert er nú mat hæstv.

forsrh. á þessu? Hvað skyldi hann hafa sagt um málið 24. mars sl.? Skyldi hann meta stöðuna þannig að stjórn sjávarútvegsmála hafi verið til einhverrar fyrirmyndar og að sjávarútveginum hafi verið búinn viðunandi rekstrargrundvöllur? Þá segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslu veitir svo sannarlega ekki af að fá að lepja dálítinn rjóma.`` --- Ég endurtek, ,,lepja dálítinn rjóma. Þau hafa verið í harki undanfarin ár og ákjósanlegast væri að þau fengju tekjur til að greiða af skuldum sínum.`` Svo mörg eru þau orð.
    Hvaðan eru nú þessi ummæli tekin, þessi mynd tekin ,,að lepja dálítinn rjóma.`` Sögnin að lepja á yfirleitt við um dýr, húsdýr, frekar en menn hélt ég væri. Skýringin er sú að ef einhver stétt er svo aðframkomin að hún getur naumast staðið á fótunum vegna vannæringar er gripið til þess ráðs að leyfa henni að lepja feitmeti. Samanburður hæstv. forsrh. vísar til þess að svo illa sé fyrir sjávarútveginum komið í heild að honum veiti sannarlega ekki af því að fá að lepja dálítinn rjóma. Svona er nú lýsing hans. Hvað segir hæstv. fjmrh. um þessa lýsingu? Hann er kominn í erlendu blöðin eins og hans háttur er þegar eitthvað er óþægilegt. Er nú auðvitað gaman að hann skuli fylgjast með einhverju því að víst er um það að hann fylgist ekki með því sem gerist hér á landi. En um leið og hæstv. forsrh. lýsir þessum skoðunum sínum að sjávarútvegurinn sé að lepja dálítinn rjóma þá víkur hann að því að hann telji að best verði spornað við þenslu með Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Sjálfur hefur hæstv. sjútvrh. lýst því yfir hér í dag að tilgangurinn með því að meiri hluti stjórnarinnar sé fulltrúi ríkisvaldsins sé sá að hægt sé að grípa til þess að leggja á sjávarútveginn byrðar, taka af honum tekjur í Verðjöfnunarsjóðinn, enda kom það fram hjá þeim opinberu embættismönnum, a.m.k. öðrum þeirra sem sat fund sjútvn. í morgun, að ekki væri um neina verðjöfnun að ræða innan botnfiskvinnslunnar í því horfi sem frv. var þá með því að botnfiskurinn yrði allur í einni deild. Hann sagði að erfiðleikar og verðsveiflur væru á mörkuðum hjá rækju- og hörpudiskframleiðendum en það kom skýrt fram hjá honum að tilgangurinn með þessu væri ekki sá að verðjafna innan
einstakra greina botnfiskvinnslunnar. Það sagði hann. Þá vitum við að botnfiskvinnslan er höfð inni, eða botnfiskframleiðslan eða hvað við eigum að kalla það, til þess að leggja til hliðar í því sem hæstv. ríkisstjórn kallar þensluástand. Ummæli forsrh. og fleiri ráðherra verða ekki skilin á annan veg en svo að þeir óttast mjög að þensluástand hafi skapast hér í marsmánuði. Yfirlýsingar ráðherra um þau efni voru svo, hvað á ég að segja, skýrar að formaður Vinnuveitendasambandins sá ástæðu til þess að taka í lurginn á þeim ráðamönnum sem þannig töluðu, enda atvinnuleysi mjög mikið og mikil fásinna að tala um þensluástand núna. Mér er t.d. sagt af vinnuveitendum norður á Akureyri að það sé borin von að skólafólk þar fái vinnu yfir sumarið eins mikið og almennt og

atvinnuleysið er. Og ástandið er áreiðanlega eins annars staðar. Það er ekki um það að ræða nú að skólafólk geti vænst þess að fá þau uppgrip í sumar eins og við gátum vænst sem erum á mínum aldri. En á bak við ummælin er þessi tilhneiging að reyna að bjarga því sem kallað er efnahagsástand þjóðarinnar með því að draga til sín einhverjar tekjur frá saltfiskvinnslunni, frá frystihúsunum, því að vitaskuld verður erfitt fyrir þá ráðuneytismenn að koma böndum á ferskfiskútflutninginn og raunar kom fram að hann hefur aldrei greitt í neinn verðjöfnunarsjóð. Gámagjald var lagt á en ekki hefur verið um eiginlegar greiðslur í Verðjöfnunarsjóð að ræða frá þeirri deild.
    Nú sá ég, herra forseti, að það hafði verið prentvilla í nál. meiri hl. sjútvn. Þar stór að þetta mál hefði fengið ,,ítarlega`` athugun í sjútvn. Þetta er auðvitað prentvilla. Þarna hefur skotist inn orð af gömlum vana. Það má segja ,,athugun``. Ég beini því til hæstv. forseta að þskj. verði prentað á nýjan leik og þetta áhersluorð fellt brott vegna þess að ég veit að formaður sjútvn. vill ekki fara með fleipur í nál.
    Auðvitað fékk þetta mál enga athugun í sjútvn. Fulltrúar hagsmunaaðila komu á fund nefndarinnar í morgun. Þar kom ráðuneytisstjóri sjútvrn. og starfsmaður Verðjöfnunarsjóðs. Þeir höfðu ekki tíma til þess að útskýra fyrir okkur hvaða hugmyndir lægju til grundvallar þegar talað var um verðjöfnun hjá ferska fiskinum. Það kom m.a. fram í máli formanns Sambands ísl. fiskframleiðenda að verðhækkanir á ferskum fiski erlendis væru upp í 40--50% frá áramótum. Það liggur líka fyrir að það geta komið löng skeið, ég kalla 2--3 ár langtímabil, í sambandi við sveiflur á erlendum mörkuðum þegar staða frystingarinnar er mjög góð en staða saltfisks á hinn bóginn léleg. Eftir þeim hugmyndum sem lágu fyrir í nefndinni var ekki gert ráð fyrir að verðjafna milli einstakra greina í botnfiskvinnslunni sem þýðir auðvitað að ef hæstv. sjútvrh. kýs að skipa málum þannig með reglugerð er rangnefni að kalla þetta Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Þá er þetta ekki neinn verðjöfnunarsjóður fyrir sjávarútveginn. Þá verður hver einasta grein sjávarútvegsins að standa sig. Það er hugsanlegt auðvitað með því að misbeita valdinu að draga einhverjar tekjur frá þessum greinum í sjóðinn, en það er greinilegt að hugmyndin er ekki sú að jafna þannig samkeppnisstöðu vinnslugreina að dregið verði úr þeim sveiflum sem eru á milli framleiðsluaðferða eftir því hvernig markaðurinn hagar sér. Hann kvað svo fast að orði, fulltrúi Sambands ísl. fiskframleiðenda, að segja að það væri ósamrýmanlegt hugmyndinni um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins að jafna sveiflur með botnfiskaflann í einni heild. Það er nú svo.
    Á árunum 1983--1985 var mikil ásókn í að framleiða frystan fisk eins og hæstv. sjútvrh. veit. Reynt var að vinna á móti þeirri sveiflu með greiðslum úr verðjöfnunarsjóði saltfisks. Þannig er nú það. Fjmrh. sem ekki hafði gert sér grein fyrir því að sjávarútvegurinn þarf að lepja pínulítinn rjóma núna virðist hafa gleymt því að þessi ríkisstjórn og sú sem

á undan henni var hafa með stórkostlegum opinberum peningagreiðslum skert samkeppnisstöðu einstakra framleiðslugreina í sjávarútvegi. Þeir 2 milljarðar sem við erum hér að tala um eru uppbætur til ferskfiskframleiðslunnar, til frystihúsanna. Á sama tíma og ríkissjóður hefur þannig lagt frystihúsunum til 2 milljarða er búið að þurrka upp sjóði saltfiskvinnslunnar og mér skilst að í næstu greiðslur úr verðjöfnunarsjóði saltfisks fari síðustu peningarnir og þá sé ekki meira eftir.
    Ástæða er til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort ekki hafi komið til tals í ríkisstjórninni að jafna metin fyrir saltfiskinn þannig að ríkissjóður taki líka á sig þær greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði sem verið hafa síðan ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð haustið 1988. Ummæli viðskrh. eru alveg skýr í þessum efnum. Hann er búinn að lýsa því yfir að ríkisstjórnin hafi tekið þá pólitísku ákvörðun að halda sjávarútveginum niðri til þess að reyna að koma á efnahagsstjórn eins og hann kallar það, skapa atvinnuleysi á mæltu máli. Spurningin er þess vegna hvort ekki sé ástæða til þess að ríkissjóður bæti saltfiskframleiðendum þetta tjón en það á auðvitað ekki að gera það. Það er verst að hafa ekki viðskrh. hér viðstaddan, herra forseti, því að nú er skýrslan komin erlendis frá, nú hafa hinir útlendu menn talað. (Gripið fram í.) Það var nú ekki alveg sama þýðing, hv. þm., sem kom frá viðskrh. og Þjóðhagsstofnun. Það skeikaði nú pínulitlu eins og einhver hefði verið með
penna uppi í viðskrn. til að laga aðeins textann. En nú liggur þessi skýrsla fyrir og fyrir fram hafði viðskrh. sagt að þar mundi standa að efnahagsstjórnin hjá þessari ríkisstjórn væri ,,kennslubók í hagstjórn``. En eins og einu orði var ofaukið hjá formanni sjútvn. þegar hann talaði um að málið hefði fengið ,,ítarlega`` athugun í sjútvn. þá fór svo fyrir viðskrh. að þar vantaði eitt orð og má kannski þess vegna segja að metin jafnast. Hann ætlaði ekki að segja ,,kennslubók í hagstjórn`` heldur ,,kennslubók í vondri hagstjórn.`` Þetta er kjarni málsins.
    ,,Lepja dauðann úr skel`` stendur einhvers staðar. Ekki vill hæstv. forsrh. láta sjávarútveginn lepja dauðann úr skel. ( Gripið fram í: Rjóma.) Það er rjómi sem hann á að fá til sín, rjómi sem orðinn er til vegna þess að atvinnugreininni vegnar nú ögn betur, sem sýnir náttúrlega hinn mikla lífskraft sem býr í íslenskum sjávarútvegi að hann skuli þó, ef hann fær að vera í friði, hafa einhverja möguleika til þess að lyfta sér aðeins við hagstæðari skilyrði. En dómurinn er fallinn. Forsrh. er búinn að kveða upp úrskurðinn um sína eigin ríkisstjórn. Sjávarútvegurinn þarf á rjómanum að halda, hann þarf á vítamínsprautu að halda eins og dýr sem er aðframkomið og getur naumast staðið á fótunum.